azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, April 09, 2006

Hulduher á fótum og annað fínerí

Posted by Picasa




Myndin er tekin á vetrargöngutúr í Botaniska, af Johan og Charlotte þegar þau heimsóttu mig á Jubileumskliniken; það eru þau sem sjá um milonguna síðdegis á Laugardögum: Las Tardecitas.

Í gær tókst mér að finna bol sem náði næstum upp í háls og ég dansaði enn einn laugardaginn! Hitti tangófólkið og var í enn betra fomi en síðast ... lít svo vel út segir fólk og botnar ekki neitt í neinu :-).

Enda er blóðið í mér víst meira rautt en hvítt ...

Ég er að vanda mig. Það var hvítu blóðkornunum mínum að þakka að ég komst á Laugardagsmilongu í stað þess að vera í næstu sjóferð... Ég fór á spítalann á miðvikudaginn var eins og gert var ráð fyrir; lét sækja mig eins og fín manneskja með ferðatösku til að vera þar í viku; var innrituð og lét dekra við mig og svo í miðjum hádegismatnum kemur læknirinn og vill fá að útskrifa mig í hvelli! Ástæða: hvítu blóðkornin mældust of fá eða veimiltítuleg til að byrja á nýrri sexdaga lyfjagjöf. Svo ég lét keyra mig heim eins og fín manneskja.


Mætti í undirbúningstíma á geisladeildina daginn eftir til að láta móta á mig einhvurskonar geimferðabúning úr plasti (sem nær reyndar bara oná axlir) sem á að halda mér við efnið eða réttara sagt í ákveðnum skorðum þegar þar að kemur ... best ég hafi myndavélina með í næsta undirbúningstíma.
***
Það kvöld þ.e. fimmtudagskvöld var leshringsfundur á fallega bjarta heimilinu hjá séra Ágústi og Þórdísi konu hans sem er læknir og eins og venjulega þegar Íslendingar koma saman voru fleiri læknar á staðnum svo ég spurði hvern lækninn á fætur öðrum: hvað gerir maður til að fjölga í sér hvítu blóðkornunum? Eina þjóðráðið sem ég fékk var að hlægja og skemmta mér. Það var auðvelt því þetta er skemmtilegur hringur, svo ég notaði kvöldið vel; hláturinn kom í sínum rokum eins og óbeðinn ... þótt umræðuefnin væru háalvarleg. Og aðalsagan sem við ræddum hreint ekkert grín, heldur sænskt hunang fyrir hugann: En Herrgårdssägen, frá árinu 1899 eftir nóbelsskáldið frá Värmlandi, Selmu Lagerlöv (1858-1940). Stutt meitluð og mögnuð saga, þar sem m.a. herragarðsþemað kristallast á nýjan leik, en það birtist áður í Gösta Berlingssaga sem hún sló upphaflega í gegn með, fann sinn tón í sorginni þegar fjölskyldan neyddist til að selja bernskubæinn Mårbacka. Eftir að Selma Lagerlöv hlaut nóbelsverðlaunin árið 1909 keypti hún Mårbacka og flutti til baka inní sögusvæði Gösta Berlings. Landamæri lífs og dauða og landamæri sturlunar og heilbrigðis eru þrædd af innsæi og beggja megin við í En Herrgårdssägen (og síðar í Kejsarn av Portugallien) þar sem hinn geðveiki herragarðseigandi Gunnar Hede vekur Ingrid úr dauðadái með sinni tónlist, og þar sem ást hennar reynist honum síðar læknandi máttur.
***

Á föstudagsmorgni lét ég enn sækja mig heim eins og fína manneskju og mætti á fínu deildina mína með mína fínu ferðatösku. Nema hvað, það náðist ekki einu sinni að innrita mig áður en svarið kom: hvítu blóðkornin enn veimiltítulegri en síðast!

Þegar ég kom heim byrjaði ég að lesa mig til því ég hef ekki haft neitt vit á blóði hingað til. Las að séu rauðu blóðkornin of fá þá megi bæta úr því með járni og B12 vítamíni, en fann engin ráð á prenti til að bæta þau hvítu. Las hinsvegar að þau eru alvöru frumur með veggi og sum með fætur svo þau geti trítlað hingað og þangað og farið í stríð ef þarf hvar sem er í líkamanum og alveg útí húð. Svo ég býst við að megnið af mínum hvíta hulduher hafi bara trítlað í felur, hreiðrað um sig sem leyniskyttur einhverstaðar og gefi því engar mælanlegar upplýsingar um sig. (Vonandi léðrétta læknarnir mig ef þetta er óhugsandi hugsun.)

Til öryggis held ég samt áfram að hlægja - um leið og ég hef einhvern að hlæja með - og elda grænmetissúpuna hennar Önnu Pálínu (sjá Ótuktin bls.126) sem hún nefnir "Gulrótarsúpan hennar Gyðu". Ég nota grænar linsur í staðinn fyrir sæta kartöflu.

Ég er að vanda mig. Vanda mig við að súpa seyðið þrisvar á dag ... ef eitthvað dugar fyrir mitt hvíta varnarlið með sínum bakteríuátvöglum með fætur (neutrofila granulocyter) og án fóta; morðingjafumum og minnisfrumum (lymfocyter) að ógleymdu ræstingateyminu (monocyter), þá er það seyðið.


Á morgunn, mánudagsmorgunn mun ég leggja á stað með fínu littlu ferðatöskuna; láta sækja mig eins og fín manneskja ...

Monday, April 03, 2006

Jubileumskliniken, sjóferð og dansandi djákni

Við innganginn á Jubileumskliniken á Sahlgrenska má sjá konunglega skiltið á myndinni með áletrun sem þýðir nokkurnveginn "Megi þessi Jubileumsklinik mín verða heimili, þar sem læknandi máttur geislanna getur veitt hinum sjúku bót eða líkn" og með undirskrift Gustafs konungs fimmta. Stofnunin var opnuð árið 1943 og húsnæðið seinast gert upp 1978 og ég náði að skynja hvað dr. Nyman átti hugsanlega við þegar hann talaði um hvað það væri frumstætt hjá þeim á deildinni. Þar er oftast yfirfullt og þungt loft, en fullt af skemmtilegu hjúkrunarfólki og læknum, sem heldur gleði sinni og er alltaf tilbúið að hlúa að manni eftir bestu getu. Posted by Picasa

En ég varð hinsvegar æ leiðinlegri eftir því sem leið á fyrstu vikuna í lyfjagjöfinni á deild 54 þótt ég hugsaði O.K. þetta er eins og sjóferð til Íslands með viðkomu í Noregi og kannski Færeyjum, max sex daga sigling og ég heppin að geta legið í koju! Þarf ekkert að vera á hlaupum milli annarra sjóveikissjúklinga eins og í minni fyrstu utanlandsferð ... bara muna að það er um að gera að borða til að hafa einhvað að kasta upp ... um að gera að láta ekki gefa á sig þó maður skreppi uppá dekk að fá sér frískt loft (það eru ágætar svalir á deildinni) ... og alltaf nóg af efni í nýja drauma, engin spurning, þó manni standi á sama um vökulífið í nokkra daga.

Áður en stormurinn skall á fyrir alvöru var ég búin að fá ljúfar heimsóknir sem fengu mig til að gleyma velgjunni um stund og fara í tvær fínar vetrargönguferðir í Botaniska Trädgården með lyfjadunkinn í veski á maganum og meira að segja eina vorgöngu í millitíðinni.

Ég var líka heppin með Djákna (diakonissu) sem kom og spjallaði við mig þrisvar í þessari viku sem ég lá inni. Þótt ég héldi að mér lægi ekki mikið á hjarta, kom alltaf annað í ljós ... og það kom líka í ljós að Djákninn minn dansar argentínskan tangó! Kynntist dansandi Argentínurum á Skáni fyrir c.a. sjautján árum síðan og veit vel um hvað það mál snýst.

Eftir nærri tvær vikur heima líður mér ansi vel; nota kraftana fyrst og fremst í það nauðsynlegasta, og svo í að lesa allt sem ég gat ekki lesið á spítalanum. Mætti þó á Las Tardecitas á laugardaginn var og gat notið þess að dansa þrátt fyrir þriggja vikna hlé. Er búin að komast að því að ég geng líklega í ansi fleygnum flíkum því fæstar mínar dansblússur og bolir ná að fela það sem hér er kallað CVK (central vain katater) en kannski heitir brunnur á íslensku. Og þegar einn herrann hélt mér þétt fann ég óþægilega fyrir skrúfunum á maganum, þar sem leiðslan úr brunninum endar :-) alveg ný og kátbrosleg próblem í minni tangósögu!