azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Wednesday, August 25, 2010

Cirkus ICI

Í sirkustjaldinu er maður í rauðum möttli, með ógnarlanga svipu í hendi sem smellur hátt í og á támjóustu og tálengstu skóm sem ég séð og sem líka smellur hátt í.

Monday, August 23, 2010

Out of context - for Pina


Níu dansar tínast inn á sviðið og afklæðast í allri mögulegri merkingu þess orðs. Fyrst fara þeir úr öllum fötunum nema nærfötunum; með falleg bökin beint í áhorfendur, áður en þeir snúa sér að okkur sveipaðir í rauð teppi og minna augnablik á austurlenska búddatrúarmúnka. Síðan fara þeir úr venjunum hverri af annari. Og hvað með það? dansa þau þá dýr eða dansa þau manneskjur? hvernig er munurinn?
Í hljóðmyndinnni baula beljur, lengi vel, dauft, síðan hljóð úr hálsum dansaranna, kannski í leit að samhengi, kannski í von um að geta sagt eitthvað ... nálgast þann sem næstur er, þann sem veldur ótta. Hömlulausar hreyfingar hafa mótast og virka meðvitað ómeðvitaðar, allt undir öruggri stjórn og þó frumlegt.

Dansararnir á sviðinu tjá allir eitthvað sterkt og persónuleg í verkinu Out of context - for Pina eftir Alain Platel.

Mér segir svo hugur að þetta verk númer tvö með dansleikhúsflokknum Les Ballets C de la B á Dans & Leiklistarhátíð Gautaborgar komi til með að standa uppúr sem einn af hápunktunum að þessu sinni.

Ég sá sýninguna í kvöld og að henni lokinni spjall við höfund og dansara. Alain Platel er sálfræðingur að mennt og var stofnandi dansleikhúsflokksins 1984, en lítur á sig sem einn af fimm danshöfundum hópsins fremur en "the boss". Í þrjá mánuði vann hópurinn að verkinu, sem er byggt á spuna, en verkið er tileinkað þýsku sviðslistakonunni og móðir dansleikhússins Pina Bausch (1940 - 2009) sem lést 30 júní í fyrra. Það var eftir minningarathöfn í heimabæ hennar Wuppertal, sem Alain Platel fann sig knúinn til að "gefa henni eitthvað".
"Áður en ég kynntist henni, leit ég á hana sem gyðju dansleikhússins, því það var hún. Síðan kynntist ég stórkostlegri og hlýrri manneskju, sem leit ekki á dansarana fyrst og fremst sem líkama með ýmsa möguleika, heldur fremst sem sjálfstæðar persónur með eigin vilja, drauma og óskir, sem hún gat lokkað fram í samvinnunni á sviðinu."



Saturday, August 21, 2010

Dansleikhúshátíð - Í fyrsta sinn


Í fyrradag kom ég heim úr minni þriðju Berlínarheimsókn í ár, tíu daga dvöl á Stargardenstrasse, og í gærkvöldi byrjaði níunda Dans og Leiklistarhátíðin í Gautaborg - Göteborgs Dans & Teater festival - með gestasýningu frá Berlín á Óperunni. Það var argentínski danshöfundurinn Constanza Marcas og danshópurinn Dorky Park með sýninguna Hell on Earth um ungt fólk í Neukölln, þar sem lífið gengur hreint ekki vandræðalaust fyrir sig ...


Þá sýningu fékk ég ekki miða á - Lis Hellström Sveningson skrifar gagnrýni í Gautaborgarpóstinn - hinsvegar lánaðist mér að sjá belgíska flokkinn Les Ballets C de La B með Primero Erscht - um þegar allt er "Í fyrsta sinn" og aldrei sér líkt eftir það - eftir Lisi Estaras á sviðinu í Pustervik í kvöld.

Grænt grasið og klarinettuleikarinn Yon var það eina á sviðinu sem ekki færðist úr stað ... í þessari stofu minningana með tveim dansandi konum og þrem körlum; einn í laginu eins og búttað smábarn = bústnasti dansari sem ég hef séð á sviði og afburða leikari, það kom í ljós bæði í mímik og þegar replikkur komu; dramatískur trúður sem stal athyglinni mörg augnablik.

Hvað man maður. Hvernig. Hvað gerir maður. Hvað gerðum við börn. Stillir sér á grasvöllin miðjan þegar strákur skokkar í hringi og verður miðdepill. Hm. Breytir engu, best að labba út úr hringnum. Halda sér utanvið. Svo er verið að flytja, alltaf verið að flytja eitthvað. Flytja húsgögn, flytja hvert annað, flytja texta. Á föstudögum erum við góð, á föstudögum elskumst við á föstudögum æpum viðá föstudögum erum við rosalega spennt á föstudögum étum við hvort annað á föstudögum sjúgum við blóðið úr börnunum á föstudögum leikum við stikk frí ...

Það var laugardagskvöld og þetta var hugljúf sýning.

Í allt er Les Ballets C de la B með þrjú verk á á þessari hátíð; hin tvö eru Out of Context - for Pina eftir Alain Platel och nýasta verkið Gardenia eftir Alan Platel, Frank Van Laecke & Vanessa Van Durme, verk sem frumsýnt var í Belgíu 25 júni í ár.

Hátíðin hefur verið haldin annað hvert ár síðan 1994. Hún stendur yfir 20 - 28 ágúst.