azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, April 16, 2007

Kambódíönsk áramót

Ég held það sé gamlársskvöld. Síðasti dagurinn af þremur sem kambodíanar halda veislu til að kveðja gamla árið og fagna nýju; hjá þeim er ár gríssins að hefjast og sé það sami grís og í Kína þá er það eldgrís og ekki gullgrís!

Það var veislumatur í tilefni áramótanna hjá Zabbar formanni sænsk kambódíanska bókmenntafélgasins á aðalfundi félagsins í kvöld. Ég var búin að gleyma að Kambódía er þessum c.a. sextíu dögum á eftir Kína með áramótin, en þar byrjaði eldgrísaárið þann 18. febrúar. Sem betur fór missti ég ekki af neinu því mætti ég af stakri skyldurækni útaf að ég er í stjórn félagsins, þrátt fyrir að Phnom Penh og Kambódía öll sé mér framandi; fer ekki þangað nema mér sé borgað fyrir, því þar er víst enn enginn tangó. En auðvitað ýmislegt annað; ljósmyndarinn Anders Jiras er kominn úr hálfsárs dvöl í Kambódíu með myndir úr dans og leiklistarlífinu og sýndi okkur myndir úr sínu safni. Sjón er sögu ríkari þótt á kyrrmynd sé: http://www.jiras.se/

Hér er veðrið nákvæmlega jafn ótrúlegt og ég geri ráð fyrir að sagt sé í fréttunum... sum sé sólskinssæluveður dag eftir dag. Í gær vígði ég helgigönguskóna mína, fór í gönguferð inn í friðaða Beykiskóginn hér úti í Jonsered með æskuvinkonu minni frá Eyri við Ingólfsfjörð og við fundum Torpet Freden í rjóðri uppá hæð, lítið hús með blómaveggfóðri, antíkarni og heimilislegum tréhúsgögnum. Þar voru konur sem biðu með heitar vöfflur og kaffi og kakó ... búnar að vera þarna á hverjum sunnudegi í allan vetur af frjálsum og fúsum vilja en hætta því svo þegar sumarið kemur fyrir alvöru. Þær hittast þarna í sjálfboðavinnu og taka á móti fólki.

Bryggjutangóinn undir Elfsborgsbrúnni við Rauða stein byrjaði þann dag en ég gleymdi mér í skóginum.