azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, June 26, 2006

Lokatörn; miðsumartango og aðrar læknandi aðferðir

Nú eru tíu dagar síðan ég útskrifaðist! Meðferð lokið og kúlurnar og þræðirnir undir hökunni á mér (sjá mynd) - eins og illa staðsett skegg með fjórum stráum - eru minning ein og síðan hafa ævintýri gerst. Ég komst að því núna um miðsumarhelgina að ég verð mun þreyttari á að labba þessa tvö hundruð metra út í búð en að dansa eina sirpu (=töndu á tangómáli) á tangoballi (=milongu)! Svo fróð væri ég ekki nema af fenginni reynslu ... undarlegt en satt: ég kom sjálfri mér á óvart með því að vera uppi alla lokanóttina á alþjóðlegu tangóhátíðinni Tangocamp. Áræddi að drífa mig til Tylösand þar sem ég fékk bílferð með tangófólki úr Gautaborg á laugardagskvöldið og vissi að Stella systir og Kristinn voru á staðnum; var með loforð Stellu um að fá að leggja mig í hótelherbergi hennar og mágs míns milli dansa. En svo gleymdi ég mér! Var hvorki tilbúin til að leggja mig né bruna tilbaka þegar milongan stóð sem hæst um kl. fjögur að morgni og morgunbirtan flæddi utan af hafi og smeygði sér inn í salinn efst á ströndinni meðan dansinn hélt áfram til klukkan rúmlega átta.

Svo dæmalaust ljúft að hitta íslenska tangófólkið, Bryndísi og Hany, Dísu og Daða; Völu og Jens; Þorvarð og Önnu Kristínu, Láru, Ólöfu, Atla, Valdemar og ... Stellu og Kristinn að sjálfsögðu og ... já í allt yfir tuttugu tangóara að heiman sem brugðu sér á hinn sænska Tangocamp í ár! Og sænska tangóvini, finnska og danska ... sem ég hafði ekki séð lengi. Argentínsku kennararnir voru að sjálfsögðu hoppandi af gleði þá nótt eftir að fótboltaliðið þeirra vann leik kvöldsins í heimsmeistarakeppinninni.
...
Flott danssýning hjá kennurunum og hungangsstemning alla nóttina ...
---
Ferðin til baka gekk eins og í sunnudagssögu: uppselt í lestina; uppselt í rútuna; en Swebus Express er með svokallað "platsgaranti" svo það var hringt í snatri eftir leigubíl handa okkur þrem farþegum sem mættu á síðustu stundu og hefðu annars orðið strandaglópar! Svo brunuðum við eins og fínt fólk framúr rútunni og vorum komin til Gautaborgar á hálfri annarri klukkustund. Sem sagt "sætaöryggið" virkar.
***
Myndskýring:

Sonduna sem sést á myndinni, þ.e. litla leiðslan sem liggur inn í nefið (og oní maga) held ég áfram að vera með, til að taka til mín næringu sem enn er fyrst og fremst vellingur úr apótekinu. Það hefur ákveðna kosti að vera með einhver sýnileg merki sjúkdóms ... t.d. tók fólk allt í einu uppá að standa upp fyrir mér í sporvagninum þegar fullt var á morgnana. Það hentaði mér vel því ég varð þreytt af ferðalaginu í geimferðirnar(=geislameðferð eða radioþerapíu). Og fólk sem þekkir mig en sem ég hef ekki hitt í lengri tíma þorir betur að spyrja í hverju ég hafi lent ... En ég er síbreytileg, nú er ég t.d. komin með nýja húð á hálsinn begggja megin, líka undir umbúðunum þar sem voru sár úr síðustu geimferð þegar ég lagðist inn í lokatörnina. Myndin er tekin á öðrum degi í þeirri törn, 13. júní sl. Áður en ég segi frá þeirri viku kemur lítil ferðasaga úr síðustu viku.

Saga úr vikunni sem leið:

Í vikunni sem leið heimsótti ég sérfræðinginn minn á tannlæknasháskólanum dr. Bodil Molin Fagerberg og Carinu aðstoðarkonu hennar, sem hafa fylgst með mér og minni munnheilsu síðan fyrir geislameðferð.

- Hvar finnurðu til spurði doktor Fagerberg..

- Hvergi svaraði ég.

- Nehei?

- Ég er á morfíni. Annars finndi ég til.

- Ah, já auðvitað.

- Mér var sagt að áhrifin af lokatörninni yrðu verst tíu dögum eftir meðferð.

Hún skoðaði munninn á mér og ég tautaði eitthvað um þreytu í öllum líkamanum. Hún huggaði mig og hélt því fram að fyrstu vikurnar eftir meðferð væri full ástæða til að vorkenna mér, ég mætti og ætti að eiga bágt ... - en heldurðu þá að ég geti ekki dansað "midsommarnatten eller natten därpå", það er á níunda degi ... spurði ég.

- Dansað! HM. Það held ég varla.

- Nei! Óóó. Og því ekki það? Ef ég fer varlega. Hvað getur gerst?

- Kannski oggulítið og varlega. Mjög varlega.

- Usch. .. bara lítið og varlega! Ég er ekki að meina þjóðdansahopp kringum maístöngina, ég er að tala um argentínskan tangó alla nóttina.

- Heyrðu mig nú, á okkar aldri dansar maður ekki alla nóttina! fullyrti doktor Fagerberg sem er jafnaldra mín.

- Jú það er nú akkúrat það sem kemur með aldrinum, maður þarf auðvitað ekki að dansa stanslaust og svo er argentínskur tango blíðasti dans í heimi, ætti varla að vera hættulegur.

Ég var komin í unglingshlutverkið áður en ég vissi af eða barnið að brekast við valdhafana til að fá aðfara á ball.

-Ekki dansarðu með sonduna? stundi dr. Fagerberg sem var þó hálfpartin farin að skríkja af hlátri yfir þessu óvænta samtalsefni.

- Að sjálfsögðu, ekki fer ég að rífa hana úr, þá hyrfi ég nú fljótlega öllsömul! Ég hef prófað það; tvisvar sinnum hef ég farið á tangó hér í bænum með sonduna, seinast nú í byrjun júní rétt fyrir lokatörnina. Ekkert mál, ég þarf bara að fá fylgd á staðinn til að hafa mig í það.

(Hitt skiptið hef ég ekki bloggað um heldur en það var í maí þegar Ralph og Riku komu og sóttu mig á sunnudagsmilongu í Borgarleikhúsi Gautaborgar!).

- Jahá, og buðu herrarnir þér upp, spurði doktor Fagrabjarg undrandi og hálfhlægjandi.

- Að sjálfsögðu, svaraði ég og var ekkert að orðlengja það að "herrarnir" væru góðir vinir mínir.

- Ahahaha... auðvitað, þeim finnst þú náttúrlega bara sérlega intressant með svona útbúnað! Og doktor Fagerberg hló og hló og var farin að semja sögur handa framtíða sjúklingum:

- Þetta þarf ég að segja þeim, að sé maður með hálsinn í geislameðferð þá dansi maður tangó, -bara si svona hvort sem maður kann það fyrir eða ekki- og þeim sem eru fyrir alla muni að þráast við fá sondu segi ég að hún sé upplögð til að fá athygli bæði á dansstöðum og í sporvögnum ... ahaha makalaust ...



Lokatörnin gengt ljóðaherberginu:

Ég var búin að kvíða svo fyrir lokatörninni - sem byrjaði með svæfingu þann 12. júní sl. - að mér er ekki stætt á öðru en að segja örlítið frá þeirri viku.
---
Ég fékk einsmansherbergi með myndavélarauga efst í einu horninu og tvöföldum dyrum - með bæði brunahurð og blýhurð - beint á móti "Diktrummet" sem í mínum huga þýddi auðvitað ljóðaherbergið, en í huga starfsfólksins var herbergi fyrir læknana að "diktera" í þ.e. tala inn skýrslur um sjúklinga.
---
Það var búið að lýsa því fyrirmér í stórum dráttum hvað hin svonefnda Brachytherapi gengi útá og að ég fengi High dose rat Brachyterapy (og ekki Low dose þar sem geislunin er sífelld í nokkra daga). Claes Mercke sérfræðingur í þessari aðferð (og Íslandsvinur!) var búin að teikna hausinn á mér á blað og hvernig leiðslurnar fjórar kæmu til með að verða leiddar í svæfingunni, gegnum hálsinn undir hökunni utanfrá og komið þannig fyrir að þær umkringdu höfuðæxlið þar sem minn vinstri hálskirtill var og hét.

Ég kveið þó fyrir svæfingunni sem aldrei fyrr (þrátt fyrir að ég talaði um kvíðann í tíma og ótíma!) og var enn logandi hrædd snemma á mánudagsmorgni þegar hjúkrunarkonan sem sagðist ætla að vera með mér niðri - þ.e. þar sem átti að leiða leiðslur inn í hálsinn - byrjaði að stinga mig í hendina með það í huga að setja í mig dropp, en án árangurs. Eftir nokkrar tilraunir gafst hún upp og sem betur fór var svæfingalæknir mættur á staðinn öllu klárari. Þegar ég fékk að vita að hinn traustvekjandi svæfingalæknir yrði hjá mér allan tímann, að fylgjast með svæfingu og blóðþrýstingi (sem var í það minnsta hjá mér) o.s.frv. þá var mér rórra og þegar yfirlæknirinn minn dr. Jan Nymann kom og heilsaði uppá mig hvarf öll hræðsla; þá var það öruggt að hann myndi sjálfur framkvæma aðgerðina. Og svo sofnaði ég .... og vaknaði himinlifandi. Yfir að vera lifandi. En brá við að sjá að klukkan var orðin tvö, því ég var búin að biðja dansandi Djáknann minn að heilsa uppá mig um hádegisbilið. Ég var svæfð fyrir níu og aðgerðin átti ekki að taka nema einn til tvo tíma ... var sum sé búin að gleyma hvað hægt er að vakna hægt!
---
Báðir yfirlæknarnir á minni deild, doktor Nyman og sérfræðingurinn í Brachytherapy , doktor Claes Mercke (sjá stutt viðtal við CM frá 1998) voru búnir að vara mig við að fyrsti sólarhringurinn yrði ekki alveg sársaukalaus og það reyndist rétt, en um leið og ég nefndi það kom hjúkrunarfólkið hlaupandi með morfínsprautu.
---
Og svo byrjaði meðferðin. Það var c.a. 12 mínútna geislun hverju sinni sem fór þannig fram að "skeggbroddarnir" endarnir á leiðslunum fjórum (sjást dauft á myndinni) voru skrúfaðir í leiðslur á einhverri furðumaskínu sem ég reyndi ekki að skilja; húkrunarfólkið yfirgaf herbergið og dróg blýhurðina fyrir; fór svo inní stjórnklefann og vélin byrjaði að rymja. Það var fylgst með mér í gegnum myndavélaraugað var mér sagt og ég lá grafkyrr og geislavirk þessar mínútur þar til slökkt var á maskínunni. Og kannski smá geislavirk þar til ég var aftengd, því hjúkrunarfólkið skýldi sér að hluta bakvið einhvern blýkubb meðan það skúfaði mig lausa. Þessi uppákoma var svo endurtekinn yfir daginn á tveggja tíma fresti fram á fimmdudag. Og síðan var bara að finna lækni sem gat losað mig við "skeggið" fyrir helgina. Það tókst og á föstudegi var ég útskrifuð.
Ég var yfir mig fegin að lenda ekki í "low dose rat" maskínunni sem krefst þess að maður sé einangraður allan tímann með mjög takmarkaðar heimsóknir og þá bak við blýtjald. Eða eins og þeir sem eru látnir gleipa geislavirkt joð geng skjaldkirtilskrabba og verða þá geislavirkir í gegn. Ég frétti af tveim slíkum sem fengu að halda hvor öðrum selskap í næsta herbergi. Ég fékk að vísu ekki að yfirgefa deildina en ég naut þess sannarlega að fá heimsóknir, Dísa vinkona kom og Guðný Ása, séra Ágúst og Mats Persson; djákninn minn dansadi kom og sálfræðingurinn minn og allir staðfestu að þetta væri örugglega ég sem lá þarna sprellifandi ...
---
Þann ellefta júlí vill læknirinn minn dr. Nymann sjá mig aftur og einhverntíma í þeim mánuði á árangurinn af öllum mínum geimferðum og innvortis geislun (extern radiotherapy og brachytherapy HDR) að vera komin í ljós og sjást á röngten.
***
P.S.
En sum sé: meðferðin er minning ein og ég er nú þegar á dansandi fínu róli ...
***
Posted by Picasa

Sunday, June 18, 2006

Aftur heima

Í dag brunaði Viktoria krónprinsessa á fornum Volvo árgerð 1927 ásamt bróður sínum Karli Filip á Volvovörubíl í gegnum Gautagöngin og vígði þau þar með bílaumferð miðborgarinnar. Sermonían var þá búin að standa yfir í nokkra daga með hlaupandi fólki og gangandi áður en bílanrir hurfu oní jörðina í langri lest ...
Mitt í þeim látum svifu seglbátar inn Gautelfur eftir keppni umhverfis jörðina - Volvo Ocean Race - og mannfagnaður varð á Lindholmen hinum megin við Gautelfur, þ.e. Hisingsmegin.
Í gær héldu Íslendingar upp á þjóðhátíðardaginn sömu megin við ána með kórsöng og hljómsveitarleik og öðrum leikjum í lystigarði nokkrum. Og daginn þaráður kom ég heim af Sahlgrenska! Það var eftir viku lokatörn í hinni svokölluðu brachytherapy. Er enn of þreytt til að hreyfa mig. Heppin að þurfa ekki að kaupa í matinn!