azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Wednesday, March 30, 2005

Frá sjöttu stundu í Páls kirkju til Bellmansgötu í Gbg

Á þriðjudagsmorgni lauk tangóhátíðinni í Málmey. Það var fimmta nóttin með milongu auglýstri til klukkan fimm að morgni og ég hafði gert ráð fyrir að lenda á götunni svo sem eins og klukkutíma áður en morgunlestin x2000 byrjaði að renna manni til Gautaborgar ... en ónei, norðurevrópskir tangóarar og argentínsku kennarapörin Nancy & Damian og Pablo & Dana voru aldrei hressari ... og á sjötta tímanum voru allskonar spunasýningar í gangi á gólfinu: Damian dansaði við Aldo - tangókennara í Kaupmannahöfn - lyfti honum og lét fljúga í léttum stökkum svo jafnvel atvinnudansararnir sem á horfðu gripu andann á lofti og stundu af létti í hvert sinn sem Aldo lenti aftur á gólfinu ...; Komala - kennari í El Corte skólanum í Hollandi - dansaði við Maríu sem er helmingurinn af öðru heimaparinu og kennir með sínum Páli við tangóakademíuna í Málmey. Þær svifu um kyrrlátar, þreyttar og hávaxnar í fallegu faðmlagi ... meðan karlarnir hoppuðu og skoppuðu.

Það sem var þreyta á þriðja tímanum breyttist eftir það ýmist í galsa eða kyrrláta kveðjustund hjá þeim sem voru um kyrrt, síðustu hátíðarnóttina í tangókirkjunni hans Pauls. Eða ætti ég að segja fyrrverandi kirkju? Hann festi nefnilega kaup á gamalli kirkju við Aðmírálsgötu fyrir nokkru og hún er nýi staður Tangóakademíunnar sem hann stofnaði fyrir nokkrum árum; flott hús með hátt undir loft og heppilegt hátíðarsvæði. Hátt svið eins og í Iðnó kom sér vel fyrir tangódívu Susana Rinaldi og Pauls eigin hljómsveit Gotango; svalir á þrjá vegu í aðalsalnum og í kjallaranum minna dansstúdíó með parketgólfi sem reyndist ljómandi svefnpokapláss ...Paul og María eru stofnendur hátíðarinnar ásamt hálf-argentínsku systkininum Daniel og Jessicu og Önnu kærustu Daniels.

Silvía valdi tónlistina og var "la vitrolera" þessa seinustu nótt eftir að hljómsveit hátíðarinnar lauk leik sínum ... Silvía sem yfirleitt dansar við Tete en hann varð óvart eftir í heimalandinu Argentínu útaf passaleysi! Því var bjargað í snatri með því að ráða Constantín frá Berlín sem kennara á móti Silvíu ...

Eitt flottasta kveðjunúmerið fæddist seint á sjötta tímanum þegar Pablo og Dana dönsuðu við elekrónískan tangójazz. Þau voru hið nýja par hátíðarinnar sem vann hug og hjörtu flestra með gjafmildri nærveru sinni og hæfni í dansi og í kennslu. Nancy og Damian hafa hinsvegar verið tíðir og vinsælir gestir í Skandinavíu í fleiri ár; m.a. á Tangocamp. Og vonandi væntanleg til Íslands í haust.

Í Gautaborg var Abrazogengið nýlent frá Argentínu, svo Milongan þeirra El Abrazo við Bellmansgötu beið með opin faðm þriðjudagskvöld! Í "Abrazogenginu" eða faðmlagsgenginu eru reyndir þremenningar: sálfræðingurinn Åke, geðlæknirinn Mats og flautusólistinn Ann Elkjär Hansen. Og mikið rétt, þau höfðu orðið vör við dansandi Íslendinga í Buenos Aires, nánar tiltekið á Kossinum El Beso!

Thursday, March 24, 2005

Páskahlé

Nú är det raka spåret till Malmöfestivalen ...

Það verður lítið um blogg af minni hálfu yfir hátátíðarnar en bókin er opin og velkomið að leggja inn athugasemdir við fyrri pósta!

gleðileg páskahátíð

Monday, March 21, 2005

Mýs og aðrar rúsínur

Um helgina horfði ég á myndir frá öldinni sem leið: Undralandsmynd og músamynd. Undralandið hans Winterbottoms með systrunum þrem í Wonderland frá 1999 er þrusugóð mynd, skringilega leiðinleg á köflum og að lokum kom Lísan... svo fann ég þessa slóð með undralandsuppplýsingum

Og hvað ætli undraland hafi með tangó að gera? Jú, tangóarar og tangóáhugafólk er yfirleitt undralandsfólk í einhvurri merkingu; í sífeldum könnunarferðum, um gólfin, borgirnar og eigin hugskot.

Og "músamyndin" um hið góða og illa .. sirkusmús fór með eitt aðalhlutverkið í The green mile (líka frá 1999) eftir Frank Darabont, með Tom Hank og risagaldramanni með lækningamátt, saklausum en dæmdum ...hann fann svo til með öllum. Saga frá 1930 og eitthvað, úr fangelsi síns tíma.

Og hvurnig tengist það tangó, má svo spyrja. Jú, svona almennt tengdu margir tangó við krimmalíf snemma á öldinni sem leið; t.d. lýsti dansarinn Pertóleo (sjá bailarinos eða dancers) því á gamals aldri, hvernig tekið var á móti krimmavinum með Milongu þegar þeir sluppu út og safnað í smá startkapital handa vininum. En út frá grænu mílunni er freistandi að setja samasem merki milli sirkusmúsarinnar og tangóarans; bæði klára sig með því að smjúga, snúa uppá sig og komast svo lipurlega hjá árekstrum að hættan er liðin hjá og horfin þegar aðrir átta sig. Og sé maður trampaður niður þá er annar vís með að blása í mann nýju lífi ...

Allt sunnudagssíðdegið rambaði ég um listasafnið við Gautatorg í fylgd félaga Mats Personar leiktjaldahönnuðs. Eftir Malplacé, dramatísku ljósmyndasýninguna hennar Denise Grünstein á Hasselblad Center, reyndust rúsínuverk eftir Hohan Hagelbäck hin besta skemmtun. Hagelbäck vinnur bæði með dökkar og ljósar rúsínur sem við fáum að fylgja við ýmsar aðstæður, frá rokktónleikum til elliheimilis, og áhorfandinn fær líka að fylgjast með ófrískum rúsínum sem og fljúgandi og alkyns kappaksturrúsínum ...
Hagelbeck er þekktur kvikmyndagerðarmaður en þetta var hvorki kvikmynd né vídíolist, heldur ekta rúsínur úr rúsínum. Ef einhver efast þá eru þær á Övre Etaget á Göteborgs Konstmusseum þar til 28. mars.

Það var kalt þegar sólin fór í gær og við gengum um breiðgöturnar. Við litum við hjá salsa og sambameistarinnu Adriana Mendes, sem var að kenna á Allégården ... og ef einhver spyr hvað hefur það með tangó að gera þá liggur svarið uppi hjá tangóurum sem vita að á milongum er algegnt að brjóta upp tangóstemninguna með salsatöndu, svona til að hrista upp í fólki á Milongunum.

Og svo er það sjálfur leiktjaldahönnuðurinn Mats sem persónulega tengist minni tangósögu, því hann reyndi fyrstur manna að snúa uppá mig í Argentínskum tangó með ochos... Það var í afmælisveislu í Kaupmannahöfn og átturnar virkuðu ekki! Síðan hef ég verið í námi ...

En rúsínurnar svörtu og hvítu þarf ég smá hjálp við ...hvernig tengjast þær?

Þú sem lítur við og lest, mátt alveg skilja eftir smá spor og komment!

Saturday, March 19, 2005

Föstudagstangó á Oceanen og Tango Exil

Eitt af því góða við að blogga er að dagarnir raða sér rétt. Oft ruglast ég í dögum, fannst það væri sunnudagur í dag af því sólin skín og enginn að hamast með gröfur og sprengitæki í götunni minni. Jú og ein ástæða til: það er óvenjulegt með tangópartí á Oceanen á föstudögum, en eitt slíkt var í gær.

Gott að koma í gamalkunn húsakynni og hitta flólk; Samira og Ann-Sophie voru Dj framanaf svo tók Jonas við. Ég mætti um kl. 22:00. Þegar ég sá engan draum að dansa við, límdist ég við barinn við hlið Anítu og í samvinnu breytumst við auðveldlega í "tangólöggu". Þegar sá gállinn er á okkur verðum við álíka óþolandi og karlarnir á Kossinum (El Beso í Bs.As.) þegar þeir klístra sér saman - við barinn og tvö næstu borð - og finnst þeir e.t.v. vera heimsins bestu tangóarar en dansa ekki, heldur kommentera aðra!Já bara sín á milli og án þess að kalla eso eso! Það er það sem við köllum tangólöggu.

En þar sem engin krassandi umferðaslys gerðust á gólfinu, notuðum við tækifærið að skakklappast í takt við hvor aðra þegar milongutandan kom (tanda= syrpa af 3 - 4 skyldum lögum; milongutanda = syrpa af milongulögum).

Við það breytist allt!!! bætist og kætist ...

Og víst er hægt að skemmta sér þótt margir elstu tangóararnir séu fjarverandi, á ferðalagi í Búenos Aires, fluttir til Berlínar og Munchen, Stockholms og Málmeyjar, eða á hækjum heima hjá sér eins og Maria.

Hó, hvaða fegurðarknútt (snygging), var nú þetta!!! allt í einu birtist ungur svarthærður maður í jakkafötum með bindi og bar sig eins og Argentínubúi. Við píanóið settist aðeins eldri snygging - guapo - og sá yngri byrjaði að syngja dramatískan tangó á sænsku!

Atriðið var úr Tango Exil, klukkutíma sýningu sem fer á fjalirnar þann 31.mars líklega hugsuð einkum fyrir menntaskólana. Þetta var auglýsing, kynning sem lofar góðu, þökk veri unga argentísk/sænska leikaranum Francisco Sobrado. Og sögu sem tekur trúlega mið af hans eigin veruleika, Francisco sem býr í Svíþjóð en leitar uppruna síns og svari við spurningum eins og: Hvað gerðist með föður hans sem varð eftir i Agrentínu á blóðugustu árum herforingastjórnarinnar (1976 - 1983)? Um leið saga argentínumanns sem er pólitískt virkur og lendir í fangelsi en tekst að flýja. Textahöfundurinn er Bo Sigvard Nilsson frá Lerum við stöðuvatnið Aspen og ég sé að meðal tónlistarfólksins er ekki bara Per Störby bandóneonistinn úr New Tango Orquesta, heldur líka guapa fíólínleikarinn hún Lífið Norður eða Livet Nord.

Friday, March 18, 2005

Lópe og Bláa hliðið Puerta Azul

Á Hverjum fimmtudegi sveiflar spænskukennarinn Lópe sér út af E20 hraðbrautinni þegar hún nálgast Partille Herragarð; nemur staðar herragarðsmeginn við hringtorgið; kemur auga á mig standandi eins og óbráðinn snjókall í hvítum dúnjakka og drífur mig með sér út í sveitinþorpið Lerum við endann á stöðuvatninu Aspen. Ég reyndi að fá hana til að koma heim til mín og kenna mér eins og mér skilst að fólk gerir í Argentínu, fái sér prívatkennara, en það mistókst og hún tekur mig með sér í tíma hjá lerumfólkinu í staðinn. Í gær var ég farin að halda að ég hefði gleymst, en ekki aldeilis, hún kom bara tólf mínútum seinna.
Ástæða:Brúin var opin, brúin var opin! kvartaði Lópe. Hún hafði ætlað að losna við göngin undir Gautelfur, því þau eiga til að stíflast á umferðatímanum og nú valdi hún brúna í miðbænum í staðin, sem opnaði sig þá fyrir skipaumferð og lokaði á bílana um stund.

Lópe er frá Bólivíu og þérar börnin sín nema þegar hún skammar þau og þau segja alltaf Usted þegar þau ávarpa mömmu sína ...hún fræðir mig um ibroamerísku menninguna meðan við brunum til baka þrem tímum seinna og ég með fullt af böggluðum orðum uppí mér ...

Í nótt villtist ég á netinu og þá birtust mér bláar dyr. Ég bankaði óvart og þá birtist autt hvítt minnisblað sem var laumað undir dyrnar ...
Bláu dyrnar handa prellu prinu og öðrum góðum gestum.

Í kvöld er tangó á Oceanen.

Thursday, March 17, 2005

Lífið Norður og Nýr Tango CD

Lífið Norður á Hvirfilvindagötu! Sumt fólk heitir eins og ljóð og engu við það að bæta: fiðluleikarinn í New Tango Oquesta heitir svona nafni á sænsku: Livet Nord og býr á Virvelvindsgatan í Gautaborg.

Flott tónlist eftir bandóneonistan Per Störby á þriðju plötu hlómsveitarinnar sem er ansi langt frá því að vera danshljómsveit, en mjög Piazzollakend á köflum. Platan heitir Bestiario og ég hélt það ætti að kynna hana í Rassvasanum (Bakfickan) á Storan snemma í gærkvöldi þar var auglýst Relaseparty og ég ákvað að líta við úr því ég var í bænum hvort sem var að kaupa blek bæði í prentarann minn og pennan ...

Ég leitaði að dyrum inní uppákomuna en rassvasinn var lokaður og fleiri komu að, vinahópur píanistans kominn frá Tröllahettu og Trollývúdd og loks fundum við Thomas Gustafsson píanóleikara og pétur eða jósef í rökkrinu bak við gömlu óperuna Storan og nærri klukkutími í partíið. Og svo ætluðu þeir ekki að spila neitt sjálfir bara tala við fólk og vera huggulegir og búir að fá klæðskiptinga til að troða upp sögðu þeir!

Ég keypti plötuna þeirra og tók expressstrætó heim ... til að skipta um föt held ég.

Wednesday, March 16, 2005

bloggarinn er einmana

Í geimnum er útsýnið enn að elta mig og ég man eftir fólki sem ég hitti á jörðinni meðan ég bjó þar í endalausu tónaflóði sem smeygði sér undir húðina og inn í beinin en náði ekki alltaf út í endann á taugunum því ég trampaði þá á hröðum skóm og hamaðist mikið með höndunum og rak höfuðið uppundir strax á unglingsárum og þetta voru helstu taugaendastöðvar í mínu lífi.

Ég sé það er búið að fylla oní gröfina sem í vikunni sem leið var grafin í götunni minni já fyrir utan mínar bæjardyr, vandinn er enn sem fyrr að rata heim og að heiman, því nú liggur gröfin hjá nágrönnum mínum til hægri og ég velti því fyrir mér hvort þeysigatan mín (galoppvägen) verði nokkurntíma sjálfri sér lík eftir þennan áfangagrafning frá einum enda til annars.

Víst útaf vatnleiðslum, að og frárennslinu sem liggur hér grafið. En það á líka að breyta torginu, taka burtu gosbrunnana held ég. Þá verður enn minna pláss fyrir dagspall á torginu!

Bloggarinn er einmana - ekki bíða með að koma í heimsókn - ég meina hvað gerir maður þá annað en blogga! Ha??

Monday, March 14, 2005

Fréttir frá Buenos Aires

Loks komu fréttir frá Buenos Aires, Stella og Kristinn að blogga þaðan um borgina, tangó og ýmiskonar lostæti!!!

Helstu órólegheit um þessar mundir munu vera milli aðkomufólks og moskítóflugna sem sumir segja að hafi brugðið sér í sumarfrí við silfurfljótið Rio de la Plata, en eigi heima í Flórida. Aðrir halda því fram að þeim hafi bara leiðst í friðaða sefinu við El Tigris og brugðið sér á rall í höfuðborginni. Þær þykja afar stingandi.

Fréttabréf kom frá Lísu lipurtá - sænskri fegurðardís um þrítugt - sem býr í Bs As síðan í haust. Hún gerir m.a. sjarmerandi úttekt á tangósjarmörum yngri kynlóðarinnar og setur upp stórt huglægt varúðarskilti gegn rómantískum pælingum þegar snjallir ungir elegant argentínskir tangóarar gerast heillandi. Þeir eru, segir hún, því miður gerólíkir sænskum svínum ("svenska as"), að því leiti að maður fattar ekki fyrr en eftir dúk og disk að þeir eru svín! Hún fullyrðir að þeir sænsku komi fljótt upp um sig, en ekki þeir argentínsku sem hún hrósar hinsvegar sem vinum: flestir vinir mínir eru svona tangósvín ...
og hún skrifar um nýjan æfingarstað - práctica - sem eitt vinasvínið og vinir hans opnuðu ofaná farfuglaheimili í San Telmo, undir nafninu "cambia de roles". Þar er meiningin að pörin skifti um hlutverk, fylgi og stjórni til skiftis meðan á einum og sama dansinum stendur held ég ...

Hér í gautlöndum byrjaði að snjóa snemma á mánudagskvöldi og ég tók eftir að ég var hríðarföst heima hjá mér, akkúrat þegar ég ætlaði að rúlla mér í burtu á sumardekkjum.

Holur eru hættulegar

Það eru engar ýkjur að gangstéttirnar í fátækari hverfum Buenos Aires séu hættulegar og vonandi gæta allir íslensku tangóararnir vel að því hvar þeir stíga þessar vikunar!

Ein marían kom nýlega fótbrotin til baka úr tangóborginni; steig í holu eftir að hafa arkað um miðborgina þvers og kruss í nærri fjórar vikur. Og á sínum þriðja síðasta degi leit hún loksins upp og á eitthvurt skilti og vippsí-vúps! Henni fannst það enginn lúxus að lenda á Argentínskum spítala og sex vikur með gipsaðan fót ekkert grín fyrir þann sem vill dansa.

Sunday, March 13, 2005

Nýr tangóstaður við Rio de la Göte

Þegar ég sé fallegan mann tek ég til fótanna. Það gerðist í gær og það gerðist í dag. Þá er gott að geta tekið til fótanna og dansað!

Var að koma heim, eftir síðdegistangó á nýopnuðu sunnudags-tangócafé við Esperantoplatsen við Rio de la Göte. Fór beinustu leið þangað úr kirkjusöng og altarisgöngu og réði mér ekki fyrir kæti þegar ég komst í að dansa við hávaxna lindyhopparan sem á við sama vandamál að stríða og ég: of langa fætur (= þykir gaman að taka mikið pláss á gólfinu, sem er argasta 'okurteysi þegar aðrir eru á því ...). Ég endaði á næstu hæð fyrir ofan, sem gestatangókennari í spánska klúbbnum! Bara si svona spontant hjá Marcello sem er einsamall að kenna og hefur líklega aldrei þjálfað ljónynju og drottningartæknina ... hann bauð mér og bað mig að vera gestur dagsins.

Og svo tók ég áfram til fótanna ...

Það er Verdemar og lukkugengið sem stendur fyrir nýja staðnum TANGO HABIBI til húsa í Språkcaféet við Esperantoplatsen.

Daginn eftir kóramót

Puttarnir mínir fóru að sofa talsvert á undan mér í gærkvöldi ...

Á einum degi varð til í Gautaborg hundrað fjörutíu manna útlagakór. Það var í gær, laugardag!!! Sá var samsettur úr 6 og hálfum kór, búnum til af og úr Íslendingum búandi í Osló; London; Kaupmannahöfn; Lundi; Stockhólmi og hér í borginni við Rio de la Göte. Svo við vorum gestgjafar. Nei ég taldi ekkert vitlaust því konurnar frá Stockhólmi höfðu skilið alla bassana og tenórana eftir heima, og voru því hálfur kór. En frá Kaupmannahöfn komu tveir: kór íslenska safnaðarins undir stjórn Ádísar Arnalds og Staka,undir stjórn Guðnýjar Einarsdóttur, og flutti m.a. íslenska helgikvæðið Ég vil lofa eina þá, í útsetningu Báru Gríms og Gamalt vers eftir Hjálmar H. Elegant kór! Óslókórinn undir stjórn Einars Jónssonar var töff með eigin útsetningar og annarra, texta eftir Dag, Stein Steinar, Sigga Páls og endadi á lagi eftir Snorra Sigfús Birgisson.

Stórikórinn 140 manna ... æfður frá kl.08:30 og svo tónleikar í fallegu Frölundakirkjunni frá átjánhundruð og eitthvað kl. 17:00 og full kirkja af fólki! Sendiherra og frú frá Stockhólmi, Konurnar frá Kóngahellu, þ.e. Þóra og Britta níubarnamóðir í mannheimum og fleiri frægir ...
Í lok tónleika sló Gautaborgarkórinn í gegn með frumfluttningi á verki sem finnskari hluti kórstjórans okkar Tuula Jóhnnesson lagði sál sína, vinnu og húmor í: Requiem över en tupp. Að við skildum slumpast á rétt hanagal og aðrar replikkur og syngja loks af sannfærinu, olli enni þvílíkum feginlegika að hún nærri datt í framkallinu en snéri við í tíma og settist aftur við píanóið ...

Sextettinn okkar - Amenn- botnaði bununa af skemmtiatriðum kvöldsins - Londonkórinn þótti heillandi með afar kindarlegarlegt atriði - á voteygðri tækifæriskveðju við Menúett í G-dúr eftir Lúdwik van Beethoven:
Nú er mót á enda, bíum bæ; sól í sæ, dúllum dæ.
Nú er mót á enda; segjum hæ; segjum jamm og jæj; og bráðum bæ.
Já blessuð og sæl; verið sææ; verið ææ ætíð lukkuleg og lukku læ,
sí og æ, bíum bæ o.s.frv.

Friday, March 11, 2005

konur skálma karlar semja

I dag er fæðingardagur Astor Panaleón Piazzollas (f. 11. mars 1921 - d. 4. julí 1992) og dánardagur filðuleikarans, stjórnandans og lagasmiðsins Julio De Caros (f. 11. desember 1899 - d.11. mars. 1980).

Félagi Carlos Quilici, bandoneonisti og tangótónskáld frá Rosario fullyrðir að tangósöngva verði að skrifa bundna í hætti og rím, rétt eins og á fyrrihluta aldarinar sem leið! Bestu tangóskáldin eru að hans mati:
Homero Manzi, Homero Expósito, Cátulo Castillo, Enrique Cadícamo, Enrique S. Discépolo, Alfredo Lepera, José M. Contursi.
Alfredo Lepera (f.4. júni 1900 - d. 24 júni 1935) var bæði blaðamaður og skáld og hann var samferðamaður Gardels; skrifaði fyrir hann bæði tangósöngva og kvikmyndahandrit.
Af hverju ætli hann nefni ekki Borges? Hann skrifaði fullt af tangó og milongatextum! Og Piazzolla gerði tónlistina ...

I dag lenda dansandi Íslendingarnir í Buenos Aires, borginni þar sem O´Camposystur skálmuðu um á síðbuxum og þótti djarft seint á 19. öldinni ... gaman að geta lesið um þær á kistusíðunni www.kistan.is í grein eftir Dr. Hólmfríði Garðarsdóttur um Bókmenntir Rómönsku Ameríku, frá sjónarhóli kvenna.

Wednesday, March 09, 2005

Rithöfundaráðið og önnur ráð til að njóta fljótsins

Fjórar aðferðir til að njóta fljótsins Río de la Plata, án þess að skella sér með bátnum t.d. yfir til Colonia eða Montevideo í Uruguay!

1. - 2. spóka sig á Costanera Sur eða við Av Costanera R Obligado;
3. skreppa í dagsferð til El Tigre;
4. fá sér hádegismat og njóta útsýnisins frá 19 (eða 20.) hæð í námunda við Puerto Madero.

Ég valdi síðastnefndu og léttustu lausnina!

Það mun vera hægt að spóka sig við á grænum svæðum við ána Rio de la Plata hvort sem er á Costanera Sur verndaða svæðinu fyrir utan Puerto Madero (þangað sem fók hjólar eða labbar og dólar sér með nesti) eða í norður átt frá downtown/microcentro ( í eða við Palermo), þar er gata sem heitir Av Costanera R Obligado, oft bara kölluð La Costanera, sögð vinsæl meðal heimafólks sem vill vera við vatnið/árbakkann (ég ímynda mér göngubraut ármeginn við vatnið!? það má spyrjast fyrir ... og ekki kæmi mér á óvart að þið - tangóarar ofan af Íslandi - munið beinlínis bruna þarna um undir leiðsögn.. Þarna eiga að vera veitingastaðir og í túristabókum er talað um Club de Pescadores ("sjómannaklúbbinn"), frá 1937. Flugvöllurinn Aeroparque Jorge Newbery liggur svo milli þessarar strandlengju og tilkomumikilla grænna garða nær bænum. Ég náði að kíkja yfir þessa dýrð ofan úr háu húsi við Av del Libertador. En gestgjafi minn þar ráðlagði mér að fara í dagsferð sem ég aldrei fór í: til Tigre (við ósa Paraná árinnar ) “Tren de Costa” – strandlestin – er ca 50 á leiðinni norður frá Maipú-stöðinni til El Tigre og þaðan hægt að halda áfram í bátsferðir um ósa og óshólma (ath. eyjuna Martin Carcía).

Rithöfundurinn Luisa Valenzuela gaf mér það þjóðráð að taka lyftuna upp á 19. (eða 20.?) hæð á veitingastað nálægt Puerto Madero, og borða þar hádegismat með útsýni yfir Rio de la Plata, sem ég og gerði og fékk fullt af fínum húsþökum í kaupbæti. Staðurinn er Azzura en el Comega och adressen er Corrientes 222 (y Alem.Sími: 4315-8381/4312-6725

II.bútur Ráð og óráð handa tangóurum

Milongurnar hjá Parakulturalinu hans Omars Viola, reyndust mér yfirleitt alltaf skemmtilegar hér um árið. vúps! hefur ekkert með "Omar Vega" að gera, nafn sem ég hef sett í vitlaust samhengi í meili til Stellu og auðvitað er ástæða fyrir því ... en Omar Vega kennir á CITA - hátíðinni í ár; með milonga sem sérgrein. Það er Omar Viola sem hefur verið með milongurnar á Cannes á mánudögum og föstudögum (e.t.v. þriðjudögum líka) og á Catedral við Sarmiento nr 4006 einu sinni í viku og stundum við Suipacha nr. 842 (culto orillero) en síðdegismilongan fræga Confideria Ideal var (og er kanski enn?) við sömu götu nr. 384
upplýsingar má finna á www.parakultural.com.ar
Omar Viola omarviola@parakultural.com.ar
Informes y reservas al 4342-4794

Að leita uppi minnisvarða Evitu i Recoleta – Cementerio de la Recoleta – reyndist mér gott efni í gönguferð milli margra ótrúlega flottra minnisvarða! Centro Cultural Recoleta er þar nálægt.

Annars man ég engin sérstök ráð nema þau sem standa enn í gömlum fréttum "news" á heimasíðunni minni. Eins og að:
1.taka eftir hvar maður stígur niður þegar komið er yfir í fátæklegar gangstéttir með holum og hundaskít;
2. muna að hafa til öryggis með sér eigin klósettpappír á milongur og í aðra leiðangra; að hafa ekki stóra seðla og vera með tiltæka skiptimynt að gefa ...;
3. að vanda sig við val á leigubílum og nota remise taxi eða "radio taxi" svonefnda.
4. Og svo ef tekið er út í hraðbönkum, að huga að því hvort ekki þurfi að pota í sérstakt kommando til að biðja um visakortið tilbaka eftir úttekt!!!! Þetta segi ég af gefnu tilefni, því vinur minn varð fyrir því að gleyma sér nýlega við hraðbanka í Buenos Aires og rankaði við sér þegar kortið kom ekki og hélt áfram að koma ekki ... of seint biðja um það til baka. Hann varð að panta nýtt kort í pósti frá Svíþjóð og svona tekur tíma.

Góða Skemmtun Tangóarar - Rosa Góða Skemmtun!!

Tuesday, March 08, 2005

Skóbúð í San Telmo, plötubúð, gamalt kaffihús og bókabúð

Stella systir á leið til Buenos Aires sem og spænskumælandi mágur minn Kristinn, fljúgandi í heilum hóp af Tagnódansandi Íslendingum og ég er að kvikmynda þau í huganum alveg frá því að þau vakna við að vélin er að búa sig undir lendingu síðsumars seinni partinn í vikunni og þar til þau vippa sér uppúr fyrstu haustdögunum til baka austur og norður fyrir Söhöru ...

Stella bauð mér að ljóstra upp hvar ég hefði verslað og ef ég væri með einhvur eigin extra þjóðráð handa tangóurum svo ég bjó til minnislista í dag og hann varð fyrirferðamikill útaf blaðrinu í mér. Til að hann valdi ekki yfirvigt lauma ég honum hingað beinustu leið útí heiminn. Í tveim eða þrem bútum.

Bútur eitt:

Ég nefni bara eina af mörgum þekktum skóbúðum, hef af eigin reynslu aðeins samanburð við Ítalann sem maður þurfti að mæla sér mót við og sem mér fannst ekki vanda sig nóg þrátt fyrir góðan orðróm og verð í hærri kantinum.

Skóbúðin þar sem mér fannst gaman að versla, eða réttara sagt láta taka mál og panta aðra sérsaumuðu skóna mína, úr mjúku rússkinni, er í San Telmo, við Piedras nr. 843 nálægt horninu á Estados Unidos. Og snúi maður í átt að Dorregotorginu - markaðstorginu þar sem El Indio og co. dansar á sunnudögum þegar ekki rignir - og gangi yfir götuna Estados Unidos þá er milongan Dandy á vinstri hönd alveg við hornið: Piedras nr 936 Þar var alltaf góð loftræsting og opið síðdegis, (yfirleitt námskeið í gangi) hægt að smjúga inn og forvitnast; öll nýustu tangóupplýsingablöðin lágu þar frammi.... (og Línuhúsið sem ég bjó í um tíma var bandaríkjamegin á sama horni).
En í skóbúðinni við Piedras 843 * Delié Calzados Especiales * var sum sé hægt að panta eftir eigin hugmynd um samsetningu; skoða módel; þreyfa á efnunum (ýmis leður og líka plastglamor!) og segja ég ætla að fá þetta model,por favor, en þennan hæl í þessari hæð (4 -11 cm) og þetta skinn o.s.frv. Og auðvitað var hægt að versla tilbúna skó ef eitthvað hefði nú passað ... Ég áttaði mig aldrei alveg á opnunartímanum svo það gæti verið sniðugt að hringja!
Síminn er (054) 4300-8521 delieshoes@hotmail.com og líka hægt að kíkja á model á heimasíðunni
http://www.delieshoes.com.ar/

Cafe Tortoni
Að staldra við á hinu sögulega kaffihúsi Cafe Tortoni er vænti ég á óskalista leiðsögumanna,en svona til öryggis: adressan er Avenida de Mayo 825, milli Plasa de Mayo og Av. de 9 Julio á hægri hönd ef maður snýrbaki í Plaza de Mayo http://www.cafetortoni.com.ar/
Staðurinn á sögu frá 1858 og er talað um sem elsta kaffíhús landsins. Hér reyndist alltaf svalt í lofti og upp um alla veggi safn með mynda af þekktu fólki úr tangósögunni. Á kvöldin eru oft sýningar eða tónleikar (tangó og jazz) í littlum töfrandi sal.


Tónlistarbúð með góðu úrvali og vinsældarlista; búð sem einnig hefur reynst vel að versla við á netinu er: Zival´s S.A. Tangostore adr. Av. Callao 395 - C1022AAD sími 54.115128.7500 sjá heimasíðu á http://www.tangostore.com/home

Bókabúð
Libería Gandhi við Av Corrientes nr. 1743
bókabúð með menningarbar á hæðinni fyrir ofan; stundum tangónámskeið, stundum bókmenntakvöld: en el Bar de Libería Gandhi.

Monday, March 07, 2005

Marslyckan á Hamingjunnar Herragarði

Í gær fékk ég þriggja vikna undurfagra Tovedóttur í fangið! úti í Österlyckan, hamingjunnar herragarði c.a. 30 km hér fyrir austan Gautaborgina.(sjá Marslyckan á heimasíðunni www.verdemar.org)
Þar var tangó um helgina og ég er yfir mig lukkuleg getað dansað aftur, bæði föstudagnótt og sunnudagssíðdegi. Hélt að allur tangó væri horfinn úr mér en svo fann ég að "heimsinsbestu tangóarar" réðu alveg við að stjórna mér! Riku; Konstantin; Gunnilla ...

Var svo heppinn að snúa ökla á mínum hressari fæti á föstudagskvöldi, þannig að ég var með bláa og bólgna bremsu og hvíldi mig allan laugardaginn (sem var gott fyrir hælsinuna á hinum fætinum) og gat notið mín þeimun betur á síðdegismilongunni í gær.

Riku kominn tilbaka frá Buenos Aires og argentínskum fjallaferðum, hlaðin tónlist og endurnýjaðri dansgleði; Tugur Stockhólmara mættur ásamt Elínu elegans, par frá Þrándheimi og Þjóðverjar frá Kaupmannahöfn og Dani frá Berlín ... hljómar eins og engin tolli í sínu upprunalega landi, að það eigi líka við um dagsins evrópska tangófólk.
Abrazofólkið Åke, Mats og Ann mættu á Österlcykan til að kveðja, á leið til Buenos Aires, fimm manna hópur lagði á stað héðan á laugardaginn.

Sjálf er ég búin að verða mér úti um gistingu í Lundi um páskana, til að vera með á tangóhátíðinni í Málmey, http://malmotangofestival.com/ með Milongum fimm kvöld og nætur í röð. Paul Utters ársgamla hljómsveit leikur fyrsta kvöldið og DJ allar nætur: Konstantín frá Berlín; Magie frá Cile og Lundi og Riku frá Finnlandi og Gautaborg ...