azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Saturday, December 31, 2005

Annállinn minn 2005


Nokkrir tangótengdir hápunktar frá 2005 og aðrir óviðráðanlegir atburðir.

Myndin er frá "Rio de la Göte" bryggjutangó við Gautelfur með
Indíafarann uppgerðan á reynslusiglingu um fljótið ... en 2. október sigldi skipið áleiðis til Kína.Posted by Picasa

Annállinn minn 2005-12-31 :

Meðan ég fer á mis við
Pablo Verón sýna listir sínar á tangóhátíðunum í Stockhólmi og Amsterdam, matarboð í Kaupmannahöfn og áramótamilongur beggja megin við Eyrarsundsbrúna … huga ég að því sem ég ekki fór á mis við árið 2005 ...

Man mest tragedíur framan af: Náttúruhamfarirnar í Tælandi, jarðskjálftinn og flóðbylgjan, það var í fyrra. Fréttamyndir viðtöl og umræður, biðin eftir þeim sem komu heim eða komu ekki, er það sem ég man ... 26.12. 2004 hurfu um 225þúsund manns ... 543 frá Svíþjóð. Þann 8. janúar kom svo kom stormurinn Guðrún æðandi um sjálfa Svíþjóð, svipti burt heilu skógarsvæðunum, rafmagnslínum og olli vægast sagt vandræðum meðal fólks sem varð einangrað, og rafmagnslaust í vetrarhörkunum.

Leshringurinn íslenski hér við "Rio de la Göte" hittist snemma í janúar hjá Ingibjörgu Pálsdóttur sem hafði tekið þátt í hjálparstarfi, vegna eftirlifandi Tælandsfara á leið heim.

Tangótengda tragedían var bruninn í Buenos Aires. Flestar milongur þar lokaðar í janúar og fram í febrúar.

Febrúar:
Á kvikmyndahátíð Gautaborgar í febrúarbyrjun sá ég argentínskar myndir og hitti kvikmyndaleikstjórann Maria Victoria Menis, frá Buenos Aires, höfund uppáhaldsmyndarinnar El Cielito - little sky - , Hún kynnti mig fyrir Vicente Oieni ...

Bókmenntafélag Kambódíu og Svíþjóðar fundar í Gautaborg hjá Zabbar Neang og Anita (sjá undir fréttir á heimasíðu félagsins) og við fáum eintök af ljóðabók Önnu Mattson, Det snöar i Kambodja, sem er þriðja bókin gefin út í nafni félagsins. Síðar á stormasömu ári félagsins kemur út bók með ljóðum Edith Södergran túlkuðum á Khmer.

Mars:
Ég byrja að dansa með varúð eftir nærri 6 mánuða hlé fyrst á Tango Österlyckan 4-6 mars og um páskana 24 – 28 mars þegar tangóhátíðin í Málmey var haldin í annað sinn.

Apríl:

Flaug til Munchen; mættum fjögur saman í boði Ralphs Hangleiter, tangóvinir frá Gautaborgarárunum hans helgina 8 – 10 apríl.
Apríllok, vika í Stockhólmi í leikhús, lista- og tangóheimsókn: Fór á frumsýningu hjá Jan Maagaard á Dramaten, Min fru går igen, eftirNoël Coward; hitti Elin og Birgitta Holm; dansaði á Pelé og Bristol; hitti Stina og fór á Kaupmanninn i Feneyjum á Dramaten ... o.s.v.

Maí:

Um hvítasunnuna, 12 - 16 maí, tangóhátíð í Kaupmannahöfn haldin í fyrsta sinn. Í Radiohuset á Frederiksberg. Í maílok var ég DJ á bryggjunni við Röda Sten, horfði á östindiefaran sveima um fljótið .. (sjá mynd) og setti Cornelius á fóninn.

Júní:

Fleiri hátíðir: fjögurra daga tangóhelgi á Österlyckan í byrjun mánuðarins; tango í Lekhuset i Näs sem er höll í sjálfu sér med hljómsveitinni Tangarte, á undurfögru kvöldi rétt fyrir jónsmessu og midsommer; þarnæst heitasti hápunktur tangóársins: TangoCamp i Tylössand á vesturströndinni.

Júlí:

Tveir fínir viðburðir sem ég var svo lánsöm að geta notið:
a) hinn árlegi hlöðutangó hjá Johan Järlehed, þ.e. tveggja daga einkatangópartý á sveitabæ í skerjagarðinum í hlöðu með dansgólfi í öðrum endanum, sauna í hinum og sólskin í túninu ...
b) dagana 28-30 júlí dans- og heimstónlistarhátíðin í Krokstrand norður við Idefjörðinn við landamæri Noregs. Þess á milli heimsóknir: Johanna frá Bryssel og Anna frá Phnom Penh.

Ágúst:
Sólarhrings tangóbrúðkaup varð einn hápunktur sumarsins þegar Ann Elkjär Hansen flautuleikari frá Sunne í Vermlandi og Mats Gustafson barnageðlæknir giftu sig í fallegu Hagakirkjunni á hádegi áttunda ágúst; buðu ættingjum á tangónámskeið eftir víslu og tangóvinum að hjálpa til; síðan í 90manna velskipulagða veislu sem lauk með tónleikum kaffi og gjafaupptöku um hádegið daginn eftir ...

Ég skrópaði á Stockhólmshátíð í ágúst vegna undirbúnings við Íslandsferð, með Carlos Quilici þann 19. ágúst, með röð atburða, fyrst dagskráin í
Norræna Húsinu, með ljóðunum mínum um tangó og bandóneonleik Carlosar í hátt á annan tíma ...Og síðan þann 20. ágúst kvölddagskrá í Iðnó.
21. ágúst, heimsins skemmtilegasta gullnahringsferð með fulltrúum íslenska tangófélagsins og argentínskum gestum í sólskini og kalsa.

September:
þann 1-4 var Tangóhátíðin í Reykjavík elegant að vanda en ég sjálf haltrandi í aðeins of mörgum hlutverkum: blaðamaður, bókaútgefandi; dreifingaraðili og höfundur; nemandi á námskeiðum ...

Fór strax eftir hátíðina norður Kjöl með Boggu systir sem sótti mig og tangóvinina Ralph og Riku. Fór oní í Hveravallarlaugina ljúfu á bikini og með húfu og trefil.

(Í fyrsta sinn sem ég fer alla leið norður og oní byggð en... fór suður Kjöl með Boggu og Adda á Sölvabakka árið 1978.) Við vöknuðum við Húnaflóa úfinn og bláan og lékum okkur í sandinum.

Um miðjan september gerði ég það sem ég hélt að ég gæti ekki: stóð í Melabúðinni og bauð bók til sölu að hætti Elísabetar Jökuldóttur. Létti við að sjá hve margir gamlir kunningjar eru enn að kaupa í matinn (!) og flestir til í tangóbók með matnum!

Fór á bókastefnuna í Gautaborg í lok mánuðarins. Komst að því að breska rithöfundinum Jeanette Winterson er meinilla við blaðamenn og bregst skringilega mótsagnakennt við þegar hún hittir þá í einrúmi; er kurteis og ræðin á blaðamannafundum, en best á obinberum fyrirlestrum.


Hlustaði á skáldið Adonis og leikskáldið Dario Fó.

Sömu daga og Bókastefnan stóð yfir hélt Verdemargengið (Johan og Samira) þriðju Österlyckan hátíð ársins! Svo ég dansaði.

Október-Nómvember:

Tveir tónlistarviðburðir haustsins: a) heimsókn bandoneonleikarans Luis Stazo (f.1930), bláklæddur og hvíthærður, 75 ára snillingur sem leikur svo áreynslulaust að það er engu líkt. Hann var gestur Tangarte og lék með þeim bæði á Skáni og í Gautaborg. Eftir að vinur hans og starfsfélagi José Libertello lést fyrir ári síðað, settist hann að í Berlín og stofnaði tríóið StazoMayor !!! (Sjá meira um Luis og José hjá Todotango).
b) Annar stórviðburður, einleikur
Daniel Turano þann 24 . nóvember á Club continental. Hann á fáa sína líka. Hann bauð uppá tangóspuna á píanó, sama kvöld og Almatrio frá Argentínu tróð upp.

Tveir nýjir tangóstaðir opnuðu og blómstruðu í Gautaborg fyrripart vetrar: Síðdegismilonga á laugardögum við Esperantoplatsen “Las Tardecitas” og ný Practika/tangóæfingakvöld annan hvorn miðvikudag í Folkets hus Fräntorp.

Desember:
1-2 desember: Fór á tvær fínar samkomur um leið og ég heimsótti Stellu og Kristinn í Kaupmannahöfn í byrjun adventu: 1. des. í Jónshúsi á bókmenntakynningu og söng. Ég las upp, Ingu Huld Hákonardóttir sagnfræðingur kynnti bækur og höfunda; Böðvari Guðmundssyni, las úr nýjustu ljóðabókunum, en hann var forsprakki kvöldsins í samvinnu við kórinn Stöku.
Föstudaginn 2. des. var svo “julefrukost” á Tingluti með tangókvintettinum hans Carlosar Quilici frá Rosario, Los Tauras sem gerðu mikla lukku!

Fann Marianne sama dag, nýkomna frá ljóðaupplestri í Chile. Hún hélt því fram að hún hefði litið inn í Argentínu úr fjallaþorpi nálægt landamærunum.

14.-15. desember þáði ég boð í sextugsafmæli fyrrverandi eiginmans míns nr. eitt,
Jan Maagaard Hansen (sjá líka hér) Lúxusveisla fyrir þrjá í sóffunum á Mortens Kro í Álaborg.
Var með ísl. Kórnum í ár á “Julsång i City”. Sungum m.a. fallega maríulagið hennar Báru Gríms: Eg vil lofa eina þá.

Leiksýningar: Sá tvær góðar á offdramaten síðla árs: Sanning og Konsakvens eftir Lars Norén á Boros Stadsteater í boði Mats Personar leiktjaldahönnuðar, frábær leikur! Og sérkennilega sýningu með tónlist eftir Atla Ingólfsson við texta eftir Jon Fosse á Atalante núna í desember. Suzannah, heitir verkið eftir samnefndri eiginkonu Henrik Ibsens.

Af ritstörfum mínum er það að segja að ég hef skrifað í annað hvert númer af Danstidningen árið 2005 (=3 af 6). Ef Norræna húsið er ekki orðið áskrifandi þá er það ekki mér að kenna!

Bloggað síðan í febrúar. Með höppum og glöppum ... sé ekkert um brúðkaup og lítið um Ísland!

Bréfaskipti okkar Elísabetar Jökuls jukust svo um munaði þegar við báðar vorum orðnar sítengdar ... og minnir mest á gamla daga þegar hún skrifaði hugleiðingar frá Heimabæ í Hnífsdal og ég úr Vesturbænum í Reykjavík, fyrir rúmum aldarfjórðungi.


Nú árið er liðið ...





Monday, December 26, 2005

Gleðileg jól

Partille kirkja er upphaflega frá þrettándu öld, þótt hún hafi verið endurbyggð nokkrum sinnum. Þar var bænastund á aðfangadag kl. 17 þar sem séra Jörgen Magnússon þjónaði eftir að vera búin að skemmta múslimum frá Túnis og Íran, kaþólikkum frá Kúrdistan og Bagdad og norrænum jólasveinum frá klukkan eitt í safnaðarheimilinu með jólasöng sínum og tali þann dag.
Fleiri myndir og fróðleik um Partille má fá glimt af hér Posted by Picasa
Þrátt fyrir stórinnkaupastöðina sem verið er að byggja og aðrar tilheyrandi breytingar má horfa framhjá því og einblína á gamlan arf ... og hafa í huga að Partille er merkileg meðal annars fyrir það að hingað lá fyrsta símalínan í Svíþjóð, og hér lá fyrsti járnbrautarspottinn nefnilega út í Jonsered fabrikker.

Gleðileg jól!

P.S.
Mér datt í hug að blogga þegar ég fékk jólaósk á nóvemberblogg! Takk Aldís frænka.

Jól í Partille eða Par till Eden?

... svona var birtan á fjórða tímanum í dag annan jóladag yfir Partille Herragarði sem leit út eins og draugahöll í síðdegisroðanum, þegar ég fór út að fótógrafera í snjófölinni.

Viðurkennd merking nafnsins Partille er "portið milli hellnana" eða leið milli kletta inn á Gautaborgar svæðið hið forna ... en
skemmtilegasta tilgátan sem ég hef séð um nafnið er spunnin í sögu af pilti og stúlku sem fyrst urðu til að slá sér niður á svæðinu sem þeim þótti svo fagurt að nefnt var Eden og út frá því var sagt : Par till ed -(en) og fyrst datt endirinn en í burtu og seinna déið.

Þótt undarlegt sé að búa í 33000 manna bæ og vita varla hvað nafnið þýðir er e.t.v. enn einkennilegra að halda jól á hverju ári og vita ekki hvað orðið þýðir!!! Það er ekki síður umdeilt og engin veit með vissu ... Posted by Picasa
Góðu gestir, er ekki einhver sem getur frætt mig á því samt, hvað "jól" þýðir? er það orð sem varð eftir í málinu þegar hætt var við miðsvertrarblótin eða hvað ... er þetta gömul enska há- þýska, kínverska eða hvað! þetta er eins á öllum norðurlandamálum, jól og jul, og minnir ekkert á jesús eins og christmas gerir ...

Og hvað finnst ykkur um höllina mína sem ég er svo montin af sérstaklega í dimmu!?? Og takið eftir: Hér er ekkert verið að bruðla með jólaneitt sem gæti truflað sólarlagið!