azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Wednesday, February 10, 2010

Ingmar Bergman international debut award 2010


Amsterdamska Esther Rots

Á Gautaborgarhátíðinni (sem lauk á mánudaginn var)
eru ýmis konar verðlaun veitt til að örfa og gleðja kvikmyndagerðarfólk á byrjunarstigi í bransanum; ein þeirra eru Alþjóðlegu Ingmar Bergmans verðlaunin "Debut Award", sem var úthlutað í lokahófi laugardagsins.

Það gladdi mig að hollenska myndin
Can Go Through Skin (Kan Door Huid Heen), hlaut þau verðlaun í ár, því sú mynd fylgir mér áfram marandi í meðvitundinni enda meiningin að draga áhorfandann inn í heim aðalersónunnar bæði þegar hann litast ofskynjunum og paranoju og þess á milli hvunndagsraunsæi. Í byrjun myndarinnar verður aðalpersónan fyrir nauðgun og eftir það leitar hún athvarfs og einangrunnar á eyðibýli sem hún tekur til við að gera upp að innan, og sjálfa sig um leið.

Ég átti ekki von á neinni afbragðs mynd, fór að sjá hana af rælni snemma á hátíðinni af því vinur minn Mats fór að sjá hana og af því það er gott pláss fyrir fæturna í Bío Caitol. Svo ég var steinhissa þegar upp var staðið hve einfaldur söguþráðurinn gat fléttað mig inn í raunveruleikabrengl sem reyndist sálfræðileg hugvekja á mörkum tryllis.


Esther Rots er leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar Can Go Through Skin (2009) og raunar einnig próducent. Hún býr í Amsterdam, er menntuð í The Dutch Film Academy og er hefur áður gert þrjár stuttmyndir.

Monday, February 08, 2010

Kvikmyndahátíð verðlaunamyndir og Cracks

Norrænu kvikmyndaverðlaunin

Í gær sunnudaginn 7. febrúar dreif ég mig á dönsku verðlaunamyndina
R, eftir Tobias Lindholm og Michael Noer, sem dómnefndin úrskurðaði bestu norrænu myndina af átta tilnefndum. Áhorfendur völdu hinsvegar Engelen av Margareta Olin. Og debutverðlaunin "Startsladden" fékk My Sandström fyrir myndina Nudisten, bráðskemmtileg stuttmynd um vonsvikna og úrilla unga konu sem neitar að klæða sig, finnst hún ekki vera hún sjálf í fötum og aðrir reyna að sannfæra hana um að fólk sjái hana ekki sem persónu þegar hún gengur um nakin, sjái bara nektina ... hún einangrast og gengur um ekrurnar í gúmístígvélum einum saman.

Myndin hans Dags Kára, The Good Heart slapp þó ekki verðlaunalaus frá hátíðinni: því hún færði Rasmus Vidbæck verðlaunin Kodak nordic vision award fyrir bestu myndatökuna.

Danska myndin R er ekkert mjúkmeti. Lögmálin innan fangelsisveggjanna virðast óhagganleg og geta leitt hvern sem er í opinn dauðann, þegar "rétt breytni" er ekki til nema frá einum sjónarhóli. Það er ekkert sem fegrar myndina af fanglesisdvölinni í Horsens, ekkert fyrir augað nema þá tattóveringarnar á vöðvafjöllunum. Hins vegar fékk ég aldrei á tilfinninguna að það væri verið að skemmta mér með átökunum, allt var bláköld alvara og engin húmor sem mildaði áhrifin. En vildi myndin mér eitthvað eða var þetta bara öðruvísi hrollvekja?

"Mannfræðileg stúdía", stendur í kynningunni og "filmens hårda osentimentalitet närmar sig smärtgränsen och betonar rigiditeten i fängelsesystemet" sagði dómnefndin.

Höfundarnir Michael Noer (f. 1978) og Tobias Lindholm (f. 1977) eru báðir menntaðir í danska kvikmyndaskólanum og hafa áður vakið athygli fyrir heimildamyndir, en R er fyrsta leikna myndin í fullri lengd.




Cracks

Til að fá smá jafnvægi í kvöldið og kaldranaleg áhrifin eftir karlasamfélag fangelsisins, skellti ég mér á
Cracks, mynd sem gerist á heimavistarskóla fyrir stúlkur á fjórða áratug síðustu aldar. Myndin er eftir hina bresku Jordan Scott, byggð á skáldsögu eftir Sheila Kohler sem kannar einangrað samfélag stúlknanna. Líkt og í R þegar ný manneskja bætist í hópinn, breytir hún dæminu með tilveru sinni og það á dramatískan hátt. Við fáum engan happy end eða feel good sögu. Hinsvegar er fullt af fegurð í Cracks; fjallafegurð og grænir skógar eru mun mildari fyrir augað og hugmyndaflugið en fangelsisveggirnir í R. Stöðuvatnið fær líka flott hlutverk hjá Frú Scott, en sögsviðið hafa handritshöfundar flutt frá Suður Afríku til Írlands.

Jordan Scott er fædd 1978, leikkona, ljósmyndari og kvikmyndagerðarkona. Hún hefur unnið við gerð auglýsingamynda og Cracks er fyrsta bíómyndin hennar, frumsýnd í september 2009 á Toronto Film Festival.

Saturday, February 06, 2010

Valdís Óskarsdóttir á Kvikmyndahátíðinni

Þegar mynd Valdísar Óskarsdóttir, Sveitabrúðkaup, hlaut tvenn verðlaun (!) í Riga í Lettlandi síðastliðið haust, sem besta norræna myndin - þ.e. ekki aðeins samkvæmt dómnefnd heldur hlaut hún einnig áhorfendaverðlaunin - þá komst Valdís ekki til að taka á móti verðlaununum.
Í gær, nærri hálfu ári síðar fann Sonora Broka, stjórnandi kvikmyndahátíðarinnar í Riga, loks Valdísi og gat afhennt verðlaunin. Það gerðist á Norræna kvikmyndamarkaðinum þar sem Íslendingar kynntu myndir sínar, m.a. Valdís ásamt Davíð Óskari Ólafssyni að kynna myndina
Kóngavegur, sem verður frumsýnd á Íslandi um páskana.

Sonora Broka og Valdís Óskarsdóttir

Friday, February 05, 2010

Kvikmyndahátíð eða dans ?

Tók fjögurra tíma tangórispu í gær, langþráðhreyfing, því mig verkjaði í líkamann af kyrrsetu í bíó. Það gerist eftir ákveðinn skammt eða ef ég sé lítið spennandi mynd ... Var að hugsa um að lokka Sally Potter með á milongu á Oceanen í gærkvöldi því ég sá á gestalista kvikmyndahátíðarinnar að hún á að hafa lent hér einmitt í gær. Tangóáhugafólk kannast væntanlega við myndina hennar Tango Lesson (frá 1997) þar sem hún lýsir eigin námi og dansar við Pablo Veron. Ekkitangóarar muna kanski betur eftir myndinni hennar sem hún gerði útfrá samnefndri bók eftir Virginia Woolf fyrir tuttu árum eða kannski OrlandoThe man who cried frá 2001.

En, nei ég lagði ekki í það, enda ekki að fara beint á milonguna sjálf (heldur í tíma) og svo áttaði ég mig á að stór hluti þeirra sem mæta byrjuðu ekki í tangó fyrr en á þessari öld og hafa kannski hvorki séð Sally Potters Tango Lesson, né Sauras Tango, sem kom á svipuðum tíma.

Hef þó verið nokkuð heppin með mitt myndaval á hátíðinni þegar á heildina er litið, séð mest Afrískar myndir, með smá viðkomu í Þýskalandi, Íslandi, Svíþjóð og USA. Meira um það síðar ...

Sá nýjustu myndina hennar Frú Potter í gær Rage, fer og hlusta á hana í dag á "masterclass".

Og svo kemur Valdís líka í dag, Valdís Óskars!!


Wednesday, February 03, 2010

Kvikmyndahátíð V. Günter Wallraff og Dagur Kári

Svartur með hléum

Gærdaginn byrjaði ég í tjaldi með Günter Wallraff.
Hann hélt þar (í samkomutjaldi kvikmyndahátíðarinnar) "masterclass" og var spurður um hvernig honum líði þegar "Wallraffar" þ.e.a. segja notar þá rannsóknaraðferð sem hann er löngu þekktur fyrir: dulbýr sig til að reyna á eigin skinni hvernig viðmót hann fær, að þessu sinni sem flóttamaður frá Sómalíu. Günter sem er rithöfundur og blaðamaður (kallar sig helst "reporter") og lætur sér stundum nægja að breyta um nafn titil, varð kannski hvað frægastur þegar hann gerðist tyrkneskur gestaverkamaður, til að skrifa um hvernig tyrkneskt vinnuafl var meðhöndlað í Þýskalandi.

Myndin Black on White er heimild um hvernig hann enn á ný kannar kynþáttafordóma í Þýskalandi. Falinn myndavél festir augnablikin og þar er Walraff afrískur í útliti, svartsminkaður og með sannfærandi hárkollu.

Í rúmt ár stóðu tökur yfir og Wallraff var svartur með hléum. En hann sagðist ekki hafa farið svo glatt útúr hlutverkinu í þessum hléum, það viðmót sem hann varð fyrir sem svartur gat hann ekki þvegið af sér, tók t.d. á sig sveig til að forðast óþægileg atvik á götum úti, atvik sem hann gat séð fyrir útfrá sjónarhóli svarta mannsins. Hann flúði sumsé yfir á hinn kantinn áður en hann vissi af, þótt hvítur væri.

Etv. mætti halda að kynþáttafordómar og andúð á aðkomufólki væru ekki stórt vandamál meðal "upplýstra" evrópubúa í dag, en Günter Wallraff fullyrðir að þótt þeir hafi minnkað mikið á seinustu 20 árum þá sé slíkt hugarfar einkennanndi fyrir um þriðjung þýsku þjóðarinnar. Í Vesturþýskalandi einkum hjá eldra fólki og meira eða minna dulið.
Kveikjan að Black on White var flóttamaður sem hann kynnist persónulega og skaut skjólshúsi yfir, ásamt vitundinni um innflytjendur frá Afríku sem ekki voguðu sér að segja frá þegar þeim þótti trampað á sér. Fólk sem hann hefur kynnst gegnum fjölmiðlaheiminn.
Eftir að hafa kvikmyndað atvik þar sem hann kom upp um fordóma fólks, bað hann um leyfi til að nota og sýna það heiminum og fólk skrifaði undir.
- það er svo auðvelt með nútíma tækni að misnota möguleika og mikilvægt að bera virðingu fyrir rétti fólks, sagði herra Wallraff m.a. í rúmlega klukkutíma löngu spjalli.

Günter Wallraff er umdeildur fyrir aðferðir sínar, hefur til dæmis verið gagnrýndur fyrir huglægni (subjetivitet).
- Að sjálfsögðu vinn ég á huglægan hátt, svarar meistarinn fullyrðir að sé einhver að trúa því að hlutleysi sé hægt, þá sé það alger blekking.

Það er venja að spurja höfunda hvað sé næst, hvað þeir séu að vinna að, en af kurteysis spyr maður ekki Günter Walraff hvaða þema hann ætli að walraffa næst.



Dagur Kári á Drekanum

Er það hér sem verið er að sýna myndina mína, spurði Dagur Kári og lét fara lítið fyrir sér bak við biðröðina í kvikmyndahúsinu Drekanum, en þar er aðeins einn stór sýningarsalur. Á hádegi á þriðjudegi var myndin hans sýnd í annað sinn á Gautaborgarhátíðinni.

Það er hjónaband húmors og ljóðrænu, hins kómíska og tragedíunnar sem er mér hugleikið, segir Dagur Kári þegar hann svarar spurningum að lokinni sýningu. Hann er ekki aðeins leikstjóri myndarinnar The Good Heart heldur einnig höfundur handrits.
- Ég vinn ekki þannig að ég spinni söguþráð frá upphafi, heldur byrja ég með lítil atriði, safna atvikum víðsvegar að sem ég síðan púsla saman ...
Hvers vegna velurðu New York sem sögusvið?
- Sagan gerist í stórborg, það eru ýmis atriði í myndinni sem hefðu ekki orðið sannfærandi í Reykjavík. Ég skrifaði handritið á ensku frá upphafi og ég valdi borg sem ég þekki. Þótt ég hafi aldrei búið í New York þá hef ég oft komið þangað. Það var mikilvægt að velja stórborg sem ég er í tilfinningatengslum við og ég ber tilfinningar til New York fram yfir aðrar bandarískar borgir. Hvað varð um April, aðal kvenpersónuna í myndinni?
- April var miklu fyrirferðameira hlutverk í handritinu. Þar endaði myndin á að hún tók yfir barinn. En við urðum að velja, klippa þriggja tíma mynd oní 95 mínútur.
Tónlistin með Slow Blow er stórkostleg. Og þú gerir hana sjálfur?
- Já, það er nú eitt af því besta við að gera kvikmyndir, þegar ég sest niður í ró og næði og leyfi tónlistinni að spretta fram, ég nýt þess í ríkum mæli.
Ætlarðu ekki að gera fleiri myndir með Ísland sem sögusvið?
- Jú næstu mynd ætla ég að taka upp á Íslandi. Nú er ég búin að gera myndir á þrem ólíkum tungumálum, Nói Albinói á íslensku, Voksne mennsker á dönsku og The Good Heart á ensku svo það er komið að mynd á íslensku.

Fram að þessu hefur The Good Heart verið sýnd á ýmsum kvikmyndahátíðum en í mars verður hún sýnd í kvikmyndahúsum víða um heim og þá einnig frumsýnd á Íslandi.

Næsta sýning (á Gautaborgarhátíðinni) á föstudaginn 5. febrúar kl. 17:30 á Bergakungen 2.

Monday, February 01, 2010

kvikmyndahátíð IV & Kambódía rauðu khmeranna


Að horfast í augu við þjóðarmorð



Í gær varð ég vitni að heimsfrumsýningu myndarinnar Facing Genocide - Kheiu Samphan and Pol Pot.
Heimildarmynd eftir Svíana David Aronowitsch og Staffan Lindberg, um nánasta samstarfsmann Pol Pots og andlit Rauðu Khmeranna út á við. Ekki fyrr en árið 2007 var Kheiu Samphan ákærður fyrir þjóðarmorð á árunum 1975 - 1979, þá 77 ára gamall. Til liðs við sig fékk hann franskan lögfræðing og félaga frá námsárunum í París, náunga sem stundum er nefndur lögmaður djöfulsins eftir að hafa varið þekkta stríðsglæpamenn, svo sem Saddam Hussein. Og sá kann að búa til seinagang! (T.d. með því að heimta þýðingu á skjölum sem ekki liggur í augum uppi að þurfi o.s.frv.)

Við ákváðum að ná sambandi við Kheieu Samphan áður en það var um seinan, meðan hann enn var frjáls ferða sinna, sagði David Aronowitsch, sem mætti á frumsýninguna á Gautaborgarhátíðinni ásamt samstarfsfólki (nema Staffan sem var í loftinu og náði ekki að lenda meðan á sýningu stóð), og sagði að þau hefðu lokið við myndina svo seint sem á miðvikudaginn var.
Hann sagðist hafa furðað sig á hvernig K S gat skipt um hlutverk, hoppað milli hins sjarmerandi gestgjafa, vingjarnlega föðurs og afa og vísindamannsins sem skoðar sjálfan sig í sögulegu samhengi, hlutlægt o.s.frv. Hvernig gat þessi maður haft þvílíkt þjóðarmorð á samviskunni og því er mannvonska svona lítið auðsæ? var ransóknarefnið frá upphafi. Myndin fylgir K S og gefur honum orðið mikið af tímanum, þó ekki án gagnrýnna athugasemda, sögulegra myndbrota. Raddir vitna sem lifðu af árin ömurlegu þegar fimmta hver manneskja í Kambódíu dó, úr þrældómi, hungri, tortúr eða skipulögðum aftökum, koma líka fram.

Sterka rödd í myndinni á lögfræðingur, kona um fertugt sem var barn að aldri þegar hún horfði á eftir móður sinni í dauðann í einu af mörgum fangelsum rauðu khmeranna. Ung komst hún af sem flóttamaður til USA og fékk þar menntun sína og er í dag meðal þeirra sem ekki líða þöggun þjóðarmorðsins. En ein skýring þess hve mjög það hefur dregist á langinn að stefna hinum seku, kann að vera að hefnd á ekki heimaí buddhatrú . Eitt af sterkastu augnablikum myndarinnar er þegar þessi lögfræðingur mætir á fund eiginkonu K S og dóttur. Frúin hefur fallist á þá ósk, en virðist ekki hafa átt von á að vera álitin ábyrg né álíta að hún þurfi að biðjast afsökunar á neinu. Óneitanlega mjög merkileg heimildarmynd, sem segir óhugnanlega og flókna sögu, og trúlega alveg fyrir utan og ofan skyldunám í vestrænum skólum.

Kvikmyndahátíð II Fókus Afríka - Gleymdu Afríku


Fókus Afríka
- Hvert ætlarðu með mig?

Hagabíóið átti heiðurinn af að sýna fyrstu mynd hátíðarinnar frá Afríku á föstudagskvöldið og sama kvöld tvöfalda röð (=í tveim sölum samtímis) af styttri myndum frá Afríku ... og öll sæti uppseld.


Where are you taking me? nefndist fyrsta myndin og tilheyrði deildinni Fókus Afríka. Það reyndist litrík heimildarhugvekja frá Uganda. Hvert ætlarðu með mig? "Til New York" var svarið mjög snemma í myndinni. Höfundur myndarinnar, kvikmyndagerðarkonan Kimi Takesue ferðast á götum Kampala og í strjálbýli Hope North, myndar vegfarendur, veislur og vinnustaði, hárgreiðslulist, brúðkaup og heimsækir skóla fyrrverandi barnahermanna sem lifðu af borgarastyrjöld; sýnir okkur inn í persónuleg rými sem og almenn; kannar víxlverkun þess að sjá og að sjást.
Áhorfendur og þau sem horft er á, hvernig er margslungna sambandið þar á milli? eða réttara sagt hugmyndin um slíkt samband. Barnahópur fékk að leika sér fyrir framan myndavélaraugað og segja sitt til ímyndaðra áhorfenda í lok myndarinnar, eftir að ein aðal söguhetjan spyr: Hvers vegna ertu að þessu, hvers vegna ætlarðu að taka mig með til New York, söguna mína?

Eina beina svarið sem við fáum er kveðja barnanna og bergmálið í eigin brjósti.



"Gleymdu Afríku"

Hvað þá gleyma? hvernig ber að skilja þennan samnefnara, er þetta einhver ögrun? Ég sný mér að sessunauti í næstminnsta salnum í Hagabíóinu og hann kemur óðar með skýringu: Gleymdu öllum þínum gömlu hugmyndum um Afríku.

"Allar fréttir frá Afríku eru vondar fréttir ... " hljómar kynning hátíðanefndarinnar um þessa Afrísku deild; sessunauturinn hefur fattað þetta hárrétt.

Ég var ljónheppin, auðnaðist að sjá þrjár hálftíma myndir frá Suður Afríku. Tvær þeirra voru eftir kvikmyndagerðarkonuna Chui Mui Tan (fædd í littlu fiskimannaþorpi í Malaysíu, og menntuð í fjölmiðlaháskóla í Malaysíu):
No Woman Born og Sarah and Omelga. Sú síðari er heimildarmynd byggð á viðtölum við tvær kvikmydagerðarkonur í Suður Afríku og spurningunni hvernig gera hvítir og svartir allt útaf fyrir sig? Sarah er hvít, Omelga svört.
Önnur söguhetjan Omelga Mthiyane var á staðnum í eigin persónu, enda átti hún þriðju myndina á þessari sýningu Thank You Mama, sem segir sögu ungrar ekkju og 10 barna móður.

Í viðtalsmyndinni nefndi Omelga meðal annars hve undarlegt það hefði verið þegar hún gek í skóla að fá ekki að læra neitt um sögu Afríku, sögukennslan fjallaði fyrst og fremst um Evrópu, við áttum að kunna eitt og annað um til dæmis Þýskaland en um löndin í Afríku var allt á huldu. Aðspurð taldi Omelga þetta hafa breyst og svarið við hver væri hennar aðal uppspretta við eigin kvikmyndagerð var Afríka, löndin með eigin sögum, persónulegar sögur.