azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Tuesday, February 20, 2007

Draugur eða ekki draugur - í búningsklefa orðanna


- Ég er nú hreint ekki sammála þeim íslenska sérfræðingi sem ekki sá nein nein sár, tilkynnti Doktor Nymann mér þegar hann var búinn að skoða mig og tína af sér speglana. Hann var alls ekki með á draugaverkjakenningu þeirri sem var verið að gleðja mig með heima um áramótin. Ljósi læknirinn minn hann Nymann staðfesti þar með að ég finn ekki endilega til útaf vanstilltum taugum ... frekar útaf sárum sem enn vilja ekki gróa, þó allt líti mjög vel út lækningalega séð ... og ekkert alvarlegt mein á ferðinni lengur. Júbbý!!! Ég er varla búin að átta mig á léttinum ...

Það sem angrar mig eru sum sé þrátt fyrir allt bara þrálátar aukaverkanir af krabbameinsmeðferðinni, í þessu tilviki einkum Brachyterapíunni.
Ég er með tvö sár - þau teiknaði hann fyrir mig með rauðu inn í mynd af munninum - akkúrat þar sem þræðirnir sátu annar í tungunni og hinn í hálsinum rétt hjá. - Þarna fékkstu öflugustu geislunina, útskýrði dr. Nymann og sagði það gerast stundum að sár tækju sig svona upp, ef um sýkingu væri að ræða. - Þá getur tekið nokkra mánuði að gróa - kannski þrjá - svo það er bara um að gera að hlúa að þannig að líkaminn geti læknað sig sjálfur, sýking eins og flensa tefur að sjálfsögðu batann ... Doktor Nyman var sumsé eins og hugur minn, fannst flott ég skuli vera að fitna og studdi mig eindregið í þeirri kenningu að best væri að sleppa því að pína sig með óþægilegum og svíðandi mat og drykkjum og um leið geta sleppt því að deyfa sig með verkjalyfjum. (Hann bara einsog hló í hljóði þegar ég talaði um tunguleikfimina og baslið við að fá krabbameinið úr kollinum ... hafði t.d. aldrei heyrt talað um að það gæti stokkið uppá hvirfil.).

Svo nú held ég bara áfram að borða elskulegan mat og ekkert sem meiðir, enda búin að átta mig á að munnurinn - með öllu sem í honum er - er einn elskulegasti hluti líkamans ... hann er ekki bara búningsherbergi orðanna ... eða þannig.

*

Eftir vorviðrisdaga fór allt í einu að snjóa í kvöld! En á morgunn tek ég lestina til Stokkhólms. Ætla ekki bara að sjá Dauðadansinn á Dramaten ... því um helgina er Tangómarathon í höfuðborginni ... þá er dansað í 42 tíma, frá föstudagskvöldi til sunnudagssíðdegis. Hundrað og fimmtíu tangóarar náðu að tryggja sér pláss áður en auglýst var sagt stopp því staðurinn er ekki stór ... en þáttakendurnir koma frá 18 löndum. Svo er bara að sjá hvað maður endist!

Og ef einhvern langar að sjá smá tangó á netinu þá er nóg af upptökum með stærri og smærri stjörnum ... eða hvað finnst ykkur td. um þessa með amerískum Hómer og hoppandi Charity

Kannski frekar klassískan tangóvals með argentínska parinu Julio Balmaceda y Corina de la Rosa?

Sunday, February 18, 2007

Loðið landslag


- Ertu að bíta saman þegar þú sefur? Hvernig ertu venjulega vakandi, spennir í kjálkanum kannski? og hvar er tungan? þrýstirðu tungunni venjulega fram … Nei venjulega er maður ekki með tannaför á tungunni en þú ert með tannamynstrið allt á tungunni, þess vegna spyr ég …

Það er alltaf svo gaman hjá Evu á sársaukadeildinni (kliniken för oriofacial smärta, á tannlæknaháskólanum, við Sahlgrenska), Evu Edström sem lítur á líkamann sem eina heild, ekki sem samsett brot eða tætlur án sambands sín á milli. Ég var hjá henni á fimmtudaginn var og um leið og ég nefndi eymslin og takmarkaða hreyfigetu í tungunni þá setti hún mig í tunguleikfimi, meira eða minna byggð á hugmyndafræði Feldenkrais (Moshé Feldenkrais (1904 - 1984))

Hún lagði áherslu á hve mikilvægt að er að þjálfa taugarnar og að það getur maður gert
með því að hugsa sér hreyfinguna, en sleppa því að gera hana nema að því marki sem það er sársaukalaust ... annars festist sársaukinn í minninu ... svo þó ég hugsi mér bragðgóðan ís á nefinu sem mig langar að setja tunguna í þá kann að vera betra að fara ekki alla leið!

Hún lét mig þvo og sópa munninn með tungunni; skrifa nafnið mitt upp í góminn með tungunni, mála mynd ... ég byrjaði strax á Vatnsdalsfjallinu, og gekk mjög vel með Jörundarfellið og allar hlíðar fyrir neðan - líka nátttröllin – en þegar ég var komin út á Öxl, versnaði málið, eða málverkið réttara sagt, því þar fann ég til svo Öxin og Axlaröxlin varð ansi loðið í línunum ...

En það opnaðist sum sé nýr heimur þarna í gómnum sem óx við æfingarnar. Gómheimar haha.

Það versta er að ég sé doktor Jan Nymann stundum fínglottandi fyrir mér þegar ég finn til í tungunni vinstra megin þar sem hann stakk mig fyrir c.a. átta mánuðum síðan – ég man nefnilega ekki betur en hann væri hinn ánægðasti á svipinn í september þegar hann skoðaði mig og sagðist sjá greinileg verksummerki enn! En nú fer ég til hans þann 20. febrúar og verð örugglega á varðbergi og mun meitla öll hans svipbrigði í minnið :-).

*
Feldenkraissíður á ensku http://www.feldenkrais-resources.com/ og http://www.feldenkrais.com/

Monday, February 12, 2007

dans - minningar - aðrir dagar

Ég er aftur byrjuð að dansa ... flensa með tilheyrandi hitaköstum búin að vera!

Fór og heilsaði uppá tangófólkið á síðdegismilongu laugardagsins Las Tardecitas, að vísu var nefrennslið á góðri leið með að stoppa mig því það fór á fulla ferð um leið og ég ... nema hvað, dansinn virkaði þó eins og bremsa ... á nefið. Eftir að hafa þagað í c.a. viku brá mér dálítið að heyra hljóðið í sjálfri mér, það voru rámir tónar og ryðhljóð sem ruddist úr mér þegar ég hitti fólk sem ég hafði ekki séð lengi ....
Í gær sunnudag demdi ég mér svo í salsatíma. Sá tími var svo fljótur að líða að ég náði ekki einu sinni að svitna.


Annars stendur mér ekki á sama hve föst ég er í kakóinu og kannski umfram allt rjómanum, er haldin þeirri þráhyggju að ég komi engu niður nema með rjóma, helst þeyttum.

Diana Toxværd, tangódansari í Kaupmannahöfn m.m. var að deyja úr krabbameini, þann 31. janúar s.l. Það kom fram á www.tango.dk að hennar var minnst á föstudagsmilongunni á Tingluti.

Tónleikar í minningu Manuelu Wiesler - sem barðist hetjulega árum saman við sitt krabbamein - eru haldnir í dag hér í Gautaborg, á Artisten en hún var prófessor við Tónlistarháskólann hér seinustu árin og forstöðumaður diplomdeildarinnar, þótt hún byggi í Vínarborg, væri fædd í skógarjaðri í Braselíu og hafi lengst af lífgað uppá Ísland ...

Blessuð sé minning þeirra.

*

Ann Elkjär flautuleikari spurði hvort mér yrði ekki öðruvísi bilt við þegar fólk allt í kring er að deyja úr krabbameini eftir að hafa verið veik sjálf og ég heyrði mig svara með einhverri langloku um að mér finnst ekki lengur að verið sé að plata mig ... með þessum týpísku hringlandafréttum: veikur - ekki veikur, dauðvona - hress og bjartsýn, veik - ekki veik, dáin. Nú veit ég að það er sjúkdómurinn sem "platar" mann ... veit að það er hringlandinn og óvissan sem litar lífið með krabbameini meðan maður er að læknast af því, læra að lifa með því til bráðabirgða og kannski varanlega ...

Hver dánarfregn verður meira eins og áminning um að maður tilheyri þeim heppnu; ég verð ekki hræddari en áður, en kannski þakkátari fyrir lífið ... kannski loks búin að læra að hugsa passlega langt fram í tímann og þakka fyrir hverja stund sem hægt er að njóta. Soldið spúkí ferli þetta með að verða aftur frísk og fá svigrúm og krafta til að fatta hvað maður gekk í gegnum.

Nýlega datt ég inn í dagbók kornungs manns, sem er að ganga í gegnum geislameðferð á háls og höfuð og lýsir ferlinu, með tilheyrandi næringarvandamálum og þreytunni sem ekki er hægt að hvíla sig frá ... hann heitir Kári, og er hreint ótrúlegur í þroskaðri afstöðu sinni, - eins og fleira ungt fólk sem virðist ná sambandi við það kraftaverk sem það er um leið svona átök byrja - en þessi drengur er auk þess slunginn penni svo unun er að lesa.

Síðastliðið vor þá fann ég ekkert blogg á íslensku sem lýsti þessu ferli, þegar maður hættir að geta nærst og hvílst ... hvað þá að einhver væri yfirlýstur kakóholic :-); ég er strax farin að hlakka til þegar Kári opnar nýjan stað, þar sem hægt er að velja tegund og styrkleika á súkkulaðinu, rétt eins og hægt er að velja hvernig maður vill fá kaffið ... ég saknaði þess í Reykjavíkurskamdeginu þegar ég var heima og þræddi kakóstaði miðborgarinnar, yfirleitt kom ekki til greina að biðja um ööörlítið sterkara; bannað að bæta extrasúkkulaðiflísum útí!

Wednesday, February 07, 2007

P.S. 30. Kvikmyndahátíðin í Gautaborg


1 . Til að sjá fréttir með mynd af nýja framkvæmdastjóra Kvikmyndahátíðarinnar - Marit Kapla - má t.d. smella
hér.

2. Og ef einhverjum þykir dularfullt að haldið er uppá þrítugsafmæli hátíðarinnar í ár, þá er til skýring: Hátíð milli nr. 12 og 14 var aldrei haldin af (hjá) trúarlegum ástæðum.

3. leiðrétting: það var víst (!) norsk mynd með í keppninni um Norrænu kvikmyndaverðlaunin: Den brysomme mannen eða The Bothersome Man
, leikstjórn Jens Lien og handritshöfundur Per Schreiner (Norge, 2006). Myndin vann alþjóðlegu gagnrýnendaverðlaunin/kritikerpriset.

Jens Lien (f.1967) er menntaður í London, fór þangað sem hljóðfæraleikari - rokkenrollari - og kom til baka sem kvikmyndaleikstjóri, með bíómyndina Jonny Vang.

Þetta þýðir að í allt kepptu átta myndir til úrslita um Norrænu kvikmyndaverðlaunin. (Bloggari biðst velvirðingar á fyrri rangfærslum.).

Monday, February 05, 2007

Darling og ein dönsk ... í Gautaborg

Í gær, sunnudag sá ég verðlaunamyndina Darling (Svíþjóð 2007). Var ekki viss framanaf ... líkt og tómleikinn og kuldalegt viðmót unga velklædda fólksins við Sture Plan væri smitandi ... og ég fór að hugsa að íslenska myndin Foreldrar hefði nú verið betur að miljóninni komin (þessi verðlaun eru upp á 100 þús. sænskar) en svo fóru galdrar að gerast ... Eva (unga stúlkan, og önnur aðalpersónan) byrjaði meira að segja að brosa þegar hún fór út fyrir ramman, klúbbrammann og dekurbarnarammann og neyddist til að standa alfarið á eigin fótum. Það einsog rann upp allt annað andlit í samleiknum við aðra einmana sál á hamborgarabarnum (eldri verkfræðing í kreppu) þar sem bæði unnu til af fá inn fyrir leyguhúsnæði, eftir að hafa lifað í alsnægtum ... Einföldustu atriði voru gerð þannig að ég bráðnaði fullkomlega, og var ekki lengur hissa á að dómnefndin hafi gert það líka.

Leikstjóri myndarinnar er eins og áður hefur komið fram: Johan Kling, sem einnig er handritshöfundur. Aðrar myndir sem kepptu um titilinn besta norræna myndin: Kid Svensk, leikstjórn Nanna Huolman(Svíþjóð 2007), um finnskt barn sem flytur með móður sinni til Gautaborgar og tekur sér eftirnafnið Svensk; Prague, leikstjórn Ole Christian Madsen (Danmörk 2006), með borgina sem sem spegil fyrir ákveðið hugarástand ... í upplausn;
Kunsten at græde i kor/The Art of Crying, sem gerist á jótlandi í byrjun áttunda áratugarins og er frumraun dansks leikstjóra, Peter Schønau Fog, Danmark, 2006; Den nya människan, leikstjórn Klaus Härö (Svíþjóð 2007); Rock´n Roll Never Dies, leikstjórn Juha Koiranen (Finnland 2006) og Foreldrar Ragnars Bragsonar.

Engin norsk mynd var með í keppninni í ár og engin færeysk ... enda lítil gróska þar í kvikmyndaframleiðslunni í fyrra, 6 manna dómnefnd var frá Noregi, Finnlandi, Danmörku og 3xSvíþjóð ... hm kann að vera að maður dæmi ómeðvitað öðruvísi þegar sjónarhóllinn er nálægt manni?

Myndin Kid Svensk hlaut verðlaun Sænsku Kirkjunnar og kvikmyndatökumaðurinn Harald Gunnar Paalgard hlaut The Kodak Nordic Vision Award fyrir myndina
Kunsten at græde i kor/The Art of Crying.

Fréttir af öllum verðlaununum má sjá t.d. á síðunni hjá Svenska Filminstitutet.

Og til gamans: Áhorfendur völdu
Paraguayan Hammock eftir Paz Encina, Paraguay sem bestu bíómyndina og Kunskapens pris - balladen om den vilsne vandraren, eftir Anders Muammar .

Og minnisatriði fyrir okkur sem erum gleymin: Kvikmyndahátíðin í Gautaborg er talin sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndum; haldin árlega síðan 1979; sýnir hátt á fimmta hundruð myndir á 10 dögum, (yfirleitt 3x hverja); opnaði sérstaka Markaðsdeild fyrir nokkrum árum mm.
Hún býður uppá fyrirlestra hinna ýmsu meistara og hafa margir íslenskir kvikmyndarar nýtt sér hátíðina sem stökkbretti gegnum árin ... og áfram út í heim ...

*

Ég var með dansskó í rauða kvikmyndahátíðarpokanum og ætlaði á salsanámskeið ... en var of lin eða slöpp og hélt áfram í bíó. Notaði því tækifærið að sjá eina af c.a. tuttugu nýjum myndum frá Danmörku sem sýndar voru í ár ... One To One eftir Anette K. Olesen (handrit Kim Fupz AAkeson). Hún var sýnd í deildinni Nordic Light, og raunar fyrsta - og því miður eina - myndin í leikstjórn konu, sem ég sá í ár! One To One eða En til en, er nútímaleg Rómeó og Júlíusaga; lýsing á ástarsögu og árekstrum milli innfæddra unglinga annars vegar og hinsvegar ungmennum muslimafjölskyldu (= dönsk unglingsstúlka á palestínskan kærasta). Spennandi mynd, fallega gerð og mikilvæg ... en var víst frumsýnd í Danmörku þegar teikninga- tjáninga- og trúarréttardeilur gengu sem hæst í fyrra, og fékk þá takmarkaða athygli. En sjón var sögu ríkari segi ég bara og er þakklát fyrir að hafa séð mynd þessarar snjöllu Anettu Olesen. Hún hefur áður gert stuttmyndir og verðlaunaðar heimildarmyndir og bíómyndirnar Minor Mishaps (2002) og In Your Hands (2004).


Saturday, February 03, 2007

Af kvikmyndahátíð - á fundi með M.Forman














Milos Forman
á Kvikmyndahátíð Gautaborgar, í bakgrunninum Jannike Åhlund framkvæmdastjóri.

Myndir: © Kristín Bjarnadóttir
kb.lyng@gmail.com


Af gömlum vana fer ég meira eða minna í blaðamannshlutverkið á svona hátíð; smellti af nokkrum myndum í dag þegar ég komst nálægt manninum bakvið Gaukshreiðrið og Amadeus, Milosi Forman (fyrir miðju á neðri myndinni) og félaga hans, handritahöfundinum Jean-Claude sem í tvo áratugi hefur unnið með Peter Brook en nú með Milos í þriðja sinn (áður Valmot og Taking off 1971). Lengst til vinstri á myndinni er framkvæmdastjóri kvikmyndahátíðarinnar Jannike Åhlund, í sólskinsskapi að stjórna umræðum við meistarana sem lágu ekki á sínu við að skemmta og fræða upprennandi kvikmyndara og aðra áhugasama. Svo var Milos rækilega umkringdur af fólki á öllum aldri sem bað um eiginhandaráritun ... hann er sjálfur 75 ára í ár. Og þó hann hafi komið með spánskar afturgöngur í farangrinum (Goya's Ghosts) þá flaug hann hingað frá Prag þar sem hann er að setja á svið jazzóperu! sem vinir hans sömdu ... vinnur að henni með tvíburasonum sínum, en hann er sagður eiga tvö pör af slíkum ...

Saga Milosar er merkileg: fæddur í Caslav skammt frá Prag; níu ára varð hann foreldralaus þegar foreldrarnir lentu í Auschwitz.
Seinna Hollywo0d leikstjóri.
Segir drifkraftinn vera þörfina að sega frá ... og endursegja.
Finnst enskan enn þvælast fyrir sér ...

Vinnur með spuna og leikur gjarna kvenhlutverkin - sem hann á erfiðast með að skilja - til að finna "sálina" í þeim og skynja kringumstæður. "Vinnan með leikurunum er í aðalatriðum búin þegar upptökur hefjast, já áður en skipað er í hlutverk", segir Milos, "það er baráttan fyrir hlutverkinu sem gerir leikarann stórkostlegan, svo þegar hann fær hlutverkið þá er hann þegar orðinn eitt með því. Ég byrja ekki á því að setja í hlutverk því þá missum við af þessu ferli ..."

Seinasta myndin
Goya's Ghosts er framleidd á Spáni - en leikin á ensku. Þemað er valdamisnotkun og kúgun þar sem hoflistamaðurinn Goya lúffar fyrir valdinu.
Segist hrífast af því sem er absúrd og af því hvernig sagan endurtekur sig. "Það sem gerðist í inkvisationen, varð ég sjálfur fyrir vegna nazismans. Og eitthvað álíka endurtók sig í nafni kommúnismans ... Það sameiginlega er að hverju sinni er sakleysið það fyrsta sem fórnað er", segir Milos. "... stranga hjúkrunarkonan mín í Gaukshreiðrinu var kommúnistaflokkurinn. Í þrátíu ár var mér tilkynnt hvað ég ætti að gera og hugsa, hvert ég ætti að fara og hvenær. Svo ... ég kannast vel við lífið undir þannig kringumstæðum."

Ráð hans til upprennandi kvikmyndaleikstjóra sem vilja eitthvað: "segðu sannleikann - en án þess að vera leiðinlegur". Nokkuð sem hann segir jafnframt vera flóknara en það hljómar.
Hann segir sannleikann hafa orð á sér að vera miklu leiðinlegi en nonsens, og með nonsens meinar hann til dæmis ævintýri ... "þau eru bull en þakklátt og skemmtilegt bull sem getur orðið mjög vinsælt".

Í augnablikinu er Milos upptekinn af jazzóperunni sem hann ætlaði að "hvíla sig" með, áður en hann komst að því að það er ekkert minna krefjandi að vinna fyrir leiksvið en kvikmynd, svo þegar hann er spurður útí næsta kvikmyndaverkefni segist hann bara ekki geta hugsað um það. "Nú er ég giftur þessari óperu, þá hugsa ég ekki um hverjum ég ætli að giftast næst ... ég get ekki verið giftur mörgum í einu!" En eitt af því sem er á döfinni er mynd byggð á sögunni Embers eftir ungverska höfundinn
Sándor Márai.

Jean-Claude segir Milos heimsins besta casting-leikstjóra. Kýs að vinna náið með leikstjóranum á frumstigi, og svo aftur þegar kemur að klippingu. "Ég vil fá að varpa fram hugmyndum og fá viðbrögð á stundinni sem vísa veginn. Er hann með óánægusvip eða? Ef leikstjórinn er ekki með á hugmyndum mínum er engin ástæða fyrir mig að halda fast. Það er þrátt fyrir allt hann sem kemur til með að gera myndina". Hann kemur helst ekki nálægt upptöku nema eitthvað sé að.

*

En fyrir hádegi, þ.e. fyrir Milos og Jean-Claude fór ég í tíubíó! (Tók kaffitár með mér í skínandi kaffitársferðakollu frá Kaffitári, sem er varasamt þegar maður heldur hún haldi kaffinu í sér útafliggjandi, ef loku er fyrirskotið :-)).

Og það var mikið af góðum hlátrum á Drekanum í morgun, þegar Lars von Triers, Direktören för det hele var sýnd í tíubíói ... fínkúltúrskómedían með Friðriki Þór í einu framkvæmdastjórahlutverkinu og Benedikt Erlings sem túlk. Þétt setinn hlægjandi Dreki, semma á laugardagsmorgni.


Sænska myndin Darling, eftir Stokkhólmarann Johan Kling vann Norrænu verðlaunin í ár ... verið að úthluta í partíinu núna í kvöld.

Jannike Åhlund framkvændastjóri er framkvæmdastjóri hátíðarinnar er að hætta af persónulegum ástæðum ... þreytt á að búa í Stokkhólmi og vinna í Gautaborg ...
Marit Kapla er sögð næsti framkvæmdastjóri en það verður gert obinbert á morgunn.

Mister Bragason og svo kemur Milos

Ég er kvefuð og held mig frá öllum dansi þessa vikuna, sem væri ákveðið afrek fyrir tangófíkil ef ekki væri hausverkurinn og heimagerðu og náttúrulega óviðráðanlegu nefdroparnir. Hef engan faðmað fyrren í dag ...(= daginn sem leið og er nú þegar í gær), þá fór ég í bíó með Önnu Mattson og við hittum Elínu T. og Helgu Jóns.

Held ég sé best í bíó en þó ekki hvaða bíói sem er :-) heldur þar sem eru mjúkir stólar með rauðu plussáklæði og nóg pláss fyrir fæturnar líka ... eins og á Drekanum við járntorgið. Þar sat ég lengi dags og sá þrjár myndir frá því kl. 15 síðdegis. Tvær eftir Ragnar Bragason, Börn og síðan þá nýju: Foreldrar. Sú síðari er framlag Íslendinga í norrænu kvikmyndakeppninni ... hún reyndist mér dramatískt daufari en sú fyrri, aðeins grárri og mýkri í sér og á ... Fínar myndir, sú fyrri ægisterk, margslungin og manneskjuleg ... sú síðari soldið erfiðari fyrir kollinn kannski? Leikstjórinn var mættur með eina aðalleikonuna og meðframleiðenda, nýkomin frá Rotterdamhátíðinni og geislandi af ánægju á sviðbrúninni. Þau lýstu skorinorð vinnunni við myndina sem byggð er á spuna og það árum saman!


Og á eftir Ragnari kom Milos Forman með nýjustu stórmynd sína Goya´s Ghosts (2006) með Jean-Claude Carriére sem handritshöfund. Þeir gefa spánska málaranum Francico Goya aðalhlutverkið (Stellan Skarsgård) að ógleymdri Natalie Portman sem leikur fleiri en eina mikilvæga vofu í lífi listamannsins ... og svo kaþólsku kirkjunni uppúr 1790 með þeirra tíma rannsóknarétti, og einnig með frönsku byltinguna sem sögusvið áður en yfir líkur. Skálduð saga með sögulegum hlutverkum.

Svo litríkt listaverk að mig tók að syfja þegar verst lét í blóðugum átökum og pyntingum.

Eiginlega fékk ég sæti fyrir slysni, sem er mér gáta því fullkomlega uppselt var fyrir löngu á þessa sýningu (verður fyrst frumsýnd í sænskum bíóum 13. apríl). Hélt ég þyrfti að láta mér linda það bíó sem það er að standa c.a. klukkutíma í biðröð, gafst upp og festi kaup á heimildarDVD fyrir "heimabíóið" og bók um kvikmyndagerð í Latínameríku, í en þá gerðist galdur ...

Leikstjóri og handritshöfundur á staðnum, þeir ætla að sitja fyrir svörum um hádegið á laugardegi. Já í dag sum sé því nýr sólarhringur hefur hafið göngu sína. Þá er auglýstur "masterklass" og mætti segja mér að fólk fari snemma í biðröð og að þakið rifni svo af Respect, sem spjallbar kvikmyndahátíðarinnar. Hm ... best að sofa smá.

*
p.s.

Það eru í allt 7 myndir fá Íslandi á dagskrá: Foreldrar, Börn,
Anna og skapsveiflurnar (2005, teiknimynd byggð á handriti eftir Sjón), Köld slóð og Astrópía (verk í vinnslu) sem verða með á lokuðum sýningum Markaðsdeildarinnar, auk kvikmyndanna Hrafninn flýgur og Börn náttúrunnar sem eru á 30 ára yfirlitssýningu hátíðarinnar.

Thursday, February 01, 2007

Hvíti silkikjóllinn - frá Vietnam

Ég er komin heim og hér er komin kvikmyndahátíð, 30:e Göteborg International Film Festival, sem stendur til 5. febrúar ... ég frétti það í spænskutíma í fyrrakvöld að argentínska myndin El Camino De San Diego (The road to Saint Diego), eftir Carlos Sorin 2006, væri hin ljúfasta og fjallaði um fátækan Maradona-aðdáanda.

Ég mætti fyrst á hátíðina í gærkvöldi - miðvikudagskvöld - sem er nokkrum dögum of seint en samt varð ég hissa á að eiga að borga "förseningsavgift"! Svo kom skýringin, það var ekki útaf hvað ég mætti seint heldur af því ég hafði skráð mig seint ... :-)

Leit við á fyrirlestri í tjaldinu fyrir utan Folkets Hus og heyrði leikarann Sven Wolter halda því fram að leiklist leiksviðsins væri list leikarans, en kvikmyndin list leikstjórans. Á rabbfundi á öðrum hátíðarbar voru ræddar myndir um ungar stúlkur og þar fuku slagorð einsog: Alltof lítið af reiðum ungum konum í kvikmyndum! og: Flest ofbeldisverkin vinna stúlkur sjálfum sér! (held konan sem hélt þessu síðasta fram hafi þá meint með því að gefa eftir, láta undan ýmsum þrýstingi og gera það er þeim í raun á móti skapi).

Svo sá ég stórmynd kvöldsins, Hvíta silkikjólinn (Tehe White Silk Dress, 2006) eftir vietnamesíska leikstjórann Huynh Luu og handritshöfundinn Luu Huynh. Hún er ein af þrem nýjum myndum frá Vietnam á hátíðinni, en í allt er boðið uppá átta myndir þaðan (!), þar af þrjár eftir Tran Anh Hung, höfund myndarinnar Cyclo frá 1995. (Hefði þó varla tekið eftir þeim nema af því ég var að leita að myndum frá Kambódíu ... og fann enga!)

Höfundur Silkikjólsins er lærður í Minnesota og Californíu og þrautþjálfaður í gerð tónlistarbanda og auglýsinga ... líklega vil ég ekkert segja um myndina; hún var svo yfirþyrmandi fögur og grimm og fegurðin alltaf að springa í loft upp, tærustu vatnsdorpar breyttust í blóðbað, þrautsegja í gleði ... sem gat verið banvæn ... sterk mynd að segja sorgarsögu fallega þar sem saga þjóðarinnar er látin speglast í fjölskyldudrama.

*

Hef ekki bloggað síðan fyrir Íslandsferð og bið afsökunnar á eyðunni. Hef hugsað mér að fylla uppí hana með því að líma einhverskonar annál inn hér fyrir neðan yfir seinustu mánuðina ... ég á bara eftir að rifja upp hvað var að gerast.

Á meðan ég man: Íslandsdvöl mín endaði loks með lendingu í Kaupmannahöfn fyrir rúmri viku þar sem ég datt inn á tvær milongur á Nörrebro áður en vikan var liðin, dansaði meira að segja á skóm með nokkurra cm hælum á þeim báðum!(Fann mjúka dansskó með stillanlegri vídd í Kaupin og púða undir "þófana"). Kom bókinni minni á Hovedbiblioteket; leit við hjá systursyninum Jóni Kristjáni á Vesterbro og fór á leiksýninguna En Vrangforestilling - í sviðsetningu Ulla Koppel - úti á Amager, í boði Marianne Larsen sem átti texta í því verki. En Kaupmannahafnardvöl mín endaði á snjóhvítum afmælisdeginum hennar Marianne þann 27. janúar og að kvöldi þess dags hélt Nína Björk Elíasson uppá stórafmæli sitt. Hún bauð til veislu í kirkju nokkurri og bræddi fólk saman með frumlegum dönsum og skemmtiatriðum milli rétta. Sem dæmi þá kom Mister Silla frá Íslandi og kórónaði kvöldið með söng sínum.

Á sunnudeginum settist ég svo upp í sænskan expressbuss og svaf þar til í Gautaborg.