azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Thursday, December 31, 2009

árið sem leið - fyrsti hluti 09

Nú árið er liðið ... næstum.
Það er gamlársdagur - nyttårsafton skv. sænskri lógik sem er afar ólógísk fyrir íslending - sólskin og glitrandi frost i allan dag en orðið æði dimmt nú klukkan 4 síðdegis.

Ég þarf að skrifa til að muna hvað gerðist á árinu, hef bloggað lítið, og ekkert í 6 mánuði, dagbókarslitrur sem ég skrifa annarstaðar finn ég yfirleitt ekki aftur nema af tilviljun. Þannig eru bækurnar mínar, hugmyndir, drög að ljóði eða grein, draumar, dagbókarbrot, minnisatriði af ólíkustu gerð allt í sömu stílabókinni. Kafka gerði þetta víst líka en hefur öruglega haldið bókunum sínum betur til haga, nýtt síðurnar betur og etv takmarkað sig smá. Enda verið að gefa hans bækur út en ekki mínar.

Tvo merka viðburði í eigin lífi man ég að sjálfsögðu; bókin mín Ég halla mér að þér og flýg kom út á sænsku: Jag lutar mig mot dig och flyger, og ég fór í mína fyrstu Asíuferð, sem ég raunar bloggaði soldið um, frá Battambang, Siem Reap og Phnom Penh. Það var í júní og síðan ekki bloggsöguna meir.

Í stórfjölskyldunni fjölgaði þegar þegar dýralæknirinn hún Freyja Kristinsdóttir (dr. freylittle) eignaðist Fríðu Maríu í mars, þá nýflutt heim frá Englandi. Stella systir varð þar með amma í fyrsta sinn. Á Akureyri fæddi vatnavísindadoktorinn hún Jóna Finndís frá Sölvabakka sitt fyrsta barn þann 15. júlí, son sem skírður var Hreggviður Örn.
Og Lalli littlibróðir varð afi í annað sinn þegar Aldís Rún eignaðist drenginn Björn Kára í danaveldi, fyrir miðjan december s.l.. Eyrún Lára varð um leið stóra systir og gott ef fjölskyldan er ekki þegar að flytja úr námsmannaíbúðinni og norður í Kokkedal (útaf að doktorsnemar á launum eru engir alvöru námsmenn skv. reglugerðunum). Ég ætla að vippa mér í könnunarferð og sjá nýja frændann í janúar.

Í dansheiminum reyndist sumarið röð af hinnstu kveðjum, ekki bara moonwalkmeistarinn, konungur popptónlistarinnar Michael Jackson kvaddi óvænt 25. júní. Pina Bausch, frumkvöðull nútíma dansleikhúss, lést einnig í lok júní. Enn ein stórstjarnan Merce Cunningham, sólodansari við Martha Graham dansflokkinn (1939 - 1945) og síðan danshöfundur með eigin stíl, lést í lok júlí. Hann var að fram eftir öllum aldri, gerði dansverk við tónlist eftir Radiohed og Sigur Rós fyrir ekki alls löngu og oftar en einu sinn vann hann með John Cage. Merce Cunningham átti sama afmælisdag og Elísabet Jökuls 16. apríl og seinasta verkið var sýnt fyrir síðasta afmælisdaginn hans Nierly Nienty.

Gleðifrétt: á fundi í Dubai þann 30. september hlaut rioplatensískur tangó (=tangó sem kendur er bæði við Argentínu og Uruguay) samþykki sem heimsmenningarlegur arfur á listanum hjá UNESCO (=List of the Intangible Cultural Heritage of Humanity).

Mig langar að muna árið sem leið, púsla því saman áður en það hverfur ...

Kvikmyndahátíð
+ útgáfu- og tangóvorið endar í Suðaustur Asíu

Man að ég byrjaði á námskeiði í Suðuramerískum fræðum í upphafi árs, fjarrnám (því kennarinn rauk til Buenos Aires). Ég skilaði fyrstu verkefnunum en svo þótti mér þetta of einmanaleg námsaðferð, vinnan við bókina tók athygli mína og þegar leið á vorið fór ég óneitanlega að hugsa meira í hina áttina, þ.e. suðaustur.

Man líka að ég stundaði bíó á hinni hefðbundnu Kvikmyndahátíð Gautaborgar um mánuðarmótin janúar febrúar og var meðal annars mjög ánægð með myndina Drottningin og ég, eftir Nahid Persson Sarvestani, heimildarmynd um Farah Diba, fyrrverandi drottningu í Iran, landsflótta síðan bylting kollvarpaði konungsveldinu fyrir 30 árum. Þá var Nahid ung og byltingarsinnuð.
Naut þess líka að horfa á Slumdog Millionaire og íslensku heimildarmyndina Kjötborg (The corner shop) um búð í Vesturbænum eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur og Huldu Rós Guðnadóttur. Svo kom Valdís Óskars og ég horfði á hennar Sveitabrúðkaup í annað og þriðja sinn, auk þess sem ég slógst í fylgd með henni svosem einsog einn sólarhring. Varð m.a. vitni að því þegar sænskir sjónvarpsgaurar yfirheyrðu hana og eltu á röndum útaf íslenskri pólitík, bankahruni og baráttufundum ... milli þess sem við reyndum að átta okkur á nýjustu fréttum að heima ... hvað var að gerast!!! Lenti líka í kvöldverðarboði á útsýnisveitingastaðnum við ána Hotel Riverton, baðaði mig í ljósi kvikmyndastjarna og sat til borðs með Jan Troell og konu hans.
Suðuramerískar myndir voru eitt af þemum hátíðarinnar, ég lét mig hafa að sjá nokkrar, man ég sá eina sem var annáluð fyrir fegurð og hún var svo falleg - snjór og tré og snjór og endalaus argentínsk auðn og einmana fólk - að ég steinsofnaði. (Sá sessunaut minn á milongu það kvöld, konu frá Málmey, hún fullyrti að hún hefði líka sofið.).

Í byrjun apríl kom svo bókin mín (sjá Sobre Tango) úr prentun, rétt mátulega til að koma með mér á tangóhátíðina í Málmey, eftir allra fyrstu kynningu á El Abrazo í Gautaborg. Fín hátíð að vanda, ég tók workshops með einum uppáhalds gautaborgartangóaranum, svaf í svefnsal ... eða öllu heldur vakti, nema þegar ég fann hljóðari stað að kúra á: í fatahenginu.
Skrifaði klausu um hátíðina fyrir Danstidningen ... sem svo birti brot af þegar nokkuð samanþjappaðri grein. hm.

Á vorönn var ég á námskeiði að læra að leiða í tangó, hjá Riku og Samira (á World Dance Company) og þegar kom að lokasérmoníu með sýningu 24 apríl, stóðum við uppi aðeins tvö pör úr mínum hópi til að fara á svið, tvær konur sem dönsuðu saman og tveir herrar sem dönsuðu saman. Úr því varð gerð happening vi lagið Siete Palabras (=Sjö orð) með kóreógrafísku ívafi og partnerskiptum í miðjum dansi, sem vakti athygli á sviðinu í Musikens hus.

Þar sem sýnt var að ég myndi missa af TangoCamp um Jónsmessuna í ár, vegna Kambódíuferðarinnar, þá reyndi ég að standa mig í að mæta á aðrar innanlandshátíðar vorsins og að sjálfsögðu með bókina í farteskinu.

*

1.maí var ég mætt á vorhátíðina Tango Prima Vera í Stockhólmi, sem er haldin á Skeppsholmen ... bara það að koma á Skeppsholmen er nautn. Líka líka leiðin gegnum landið, að bruna á bíl með skemmtilegum ferðafélögum, dansandi presti og myndlistakonu hans með viðkomustöðum í sveitinni. Í Stockhólmi bjó ég hjá tangókonu á Kungsholmen og heimsótti Buena Madera milonguna m.m.

13.maí var ég aftur komin til Stockhólms á frumsýningu hjá Mats Persson og Teater Stella, Ovedret eftir Strindberg, leikrit sem ég eiginlega vissi ekki að væri til, um það að eldast og átta sig á því hve lítið maður ræður við að hanna eigið líf.
Um miðjan maí (14. -17.) var svo Queertangóhátíðin í sömu borg og í loks lánaðist mér að taka þátt, en sú hátíð var frá upphafi haldin um páskana, samtímis Málmeyjarhátíðinni. Bjó "Söder om Söder" rétt hjá Globen í slagtogi með Mikael frá Lapplandi, sem er dansandi hárgreiðslumeistari hér í bæ. Allar nætur komum við flissandi og pískrandi heim, vöktum systur hans til að syngja fyrir hana Bíbí og blaka og láta eins og táningar á tístuskeiði.

Um hvítasunnuna, þegar að Kaupmannahafnarhátíðinni kom sat ég hinsvegar heima yfir fyrirlestri um fagurfræði fyrir Nou Hach.

1.júní lá leiðin enn til höfuðborgarinnar, að þessu sinni til að taka flugið frá Arlandi 2. júni og lenda í Kuala Lumpur og síðan Phnom Penh þann 3 juni. Og þá með ljóðin mín bæði á íslensku og Khmer upp á vasann ásamt smá fyrirlestri um fagurfræði til að flytja á bókmenntanámskeiði í lok ljóðahátíðarinnar 20.júní. Engar orðlengingar hér, en ferðin varð mér merkileg reynsla sem ég er enn að hlúa að.

Sumar við sjóinn og sundið

Snemma í júlí, nei 11. til 15. skrapp ég til Kaupmannahafnar að heilsa upp á Lárus bróður og fjölskyldu, lenti í garðveislu eitt kvöldið og í matarboði hjá fyrrverandi eiginmanni annað kvöld. Bjó hjá Marianne og við skiptumst á myndum og hugrenningum úr Kambódíuferðinni, en slepptum sumarhúsaferð.

Helgina 17 -19 júlí var síðan kominn tími til að gá hvort ég myndi hvað tangó væri og ég skellti mér á dansæfingar í Kajskjul 46 við fiskihöfnina í umsjón Gilda Stilbäck ásamt herra að nafni Lucho. Við ána var að vanda dansað á sunnudögum, á bryggjunni við Röda Sten, en júlíveðrið fannst mér ekkert yfirmáta vingjarnlegt hér, þótt mér hafi brugðið soldið að sjá hvað allir voru léttklæddir og hálfberir þegar lenti í Svíþjóð eftir dvölina í Kambódískri hlýju, þar sem berar axlir þykja yfirleitt hálfdónalegar.

Í stað Íslandsferðar í ár, þá náði ég stefnumótum við fleiri nákomna í Kaupmannahöfn. Miðvikudaginn 5 ágúst tók ég lestina á ný, þá á fund Stellu og Kristins, sem höfðu leigt sér íbúð á Vesterbro, dvöldu þar í sínu fríi ásamt Fríðu og kærasta. Það reyndust sólríkir og ljúfir dagar, raunar dansríkir líka. Eftir tvo daga með Stellu og co og útitangó við Peplingesøen, dansaði ég áfram eitt kvöld í kaupin, þegar hún flaug heim, og vippaði mér síðan yfir til Málmeyjar á Langa Milongu (frá kl. 12 á hátdegi laugardag til kl. 08 á sunnudagsmorgni). Dólaði mér á sandströnd á sunnudegi í góðum félagsskap og rétt náði þreki í sunnudagsmilonguna hjá Maya Wiehe . Hélt heim mánudaginn 10 og gott ef það tók mig ekki viku að jafna mig eftir þessa törn.

Og í stað tangóhátíða síðsumars lukkaðist mér með ljúfa sumarheimsókn í sveitina hér norður með sjó, við Hamburgsund og Hunnebostrand í Bohuslän. Eða var það Bovallstrand? Fórum tvær vinkonur saman að heimsækja þá þriðju, Johanna Hedenberg sem brunaði með okkur um sætustu sænsku klettastrendurnar ... þegar við vorum ekki að staulast á eigin fótum á ystu nöf, eða borða á lúxusveitingahúsi í lúsxusbátahöfn. Eða skoða listalífið sem er talsvert á þessum steinbrotsslóðum. Aðeins einu sinni áður hafði ég komið á svæðið, sumarið 2006, þá með Stellu og Kristni sem voru á brunandi heimleið frá Kaupmannahöfn og stefndu á Bergen, en með viðkomu á dans og tónlistarhátíð í Krokstrand vid Idefjorden (skamt frá Strömstad). Þar er talið að tangó hafi hvað fyrst borist til Svíþjóðar fyrir einni öld, trúlega með þeim sem fröktuðu sænska grjótið í götugerð Buenos Airesborgar, höfðu tónlist með sér heim og hugsanlega nokkur spor (?). Hátíðin nefnist Man Must Dance og var í fríi í ár, en hafði annars vaxið og dafnað vel síðan 1999. En þarna, sum sé fyrir þrem árum, skoðuðum við safn steinbrjótanna og nutum litríki sænskra klettastranda áður en við skelltum okkur í útilegu og dans norður undir norsku landamærunum. Ég með sondu eins og bjálfi og kannski aðalega morfínisti (!!!), gat ekki nærst nema upp við vegg á vellingnum sem bíllinn bar fyrir mig norður. Man hvað systir mín var seig að halda mér félagskap, finna eitthvað hæfilega hátt með snaga og svona, og hvernig mér tókst að gleyma öllu þróttleysi þegar ég dansaði við tangóvininn Ralph sem kom frá Munchen. Sérstaklega í taktvissu milongunum þá nótt, ég hafði á tilfinningunni að ég gæti haldið áfram endalaust og það var svífandi góð tilfinning. Í sumar sem leið nærðist ég semsagt á gömlum hátíðum í bland við júníævintýrið í austri.

Leið svo haustið ... og nú er nótt en ég held áfram með þessar nótur, til að tína ekki árinu sem leið ...

= framhald árið 2010

Gleðilegt ár!!!