azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Saturday, September 09, 2006

Frumsýning


Sumarið búið og samt þessi hlýja: flugvélin grafkyrr í stillunni yfir ásnum og risavaxin brjóstmynd stendur uppúr ánni; flýtur þótt úr steini sé!


Ég var boðin á frumsýningu; fór í stuttbuxur og stígvélaskó; fór með lest og þaut þá sem haustfugl gegnum skóginn ... birnir dönsuðu fuglar sungu hestar og hundar sorgmæddir að sjá.

*


Saturday, September 02, 2006

Veðrið klukkan átta

Posted by Picasa











Veðrið klukkan átta:

I.


ekkert gerist af sjálfusér ekki einu sinni grasið grær einsamalt og úr engu allt er háð öðru
eins og kvöldsólin himninum og því að einhver horfi og hugsi: kvöld; nú er kvöldið í kvöld

ég er háð sólarhringnum háð því að hugsa mér framhaldslíf strax á morgunn

ég gerist ekki einsömul ég er háð mínum kringumstæðum og mínu fólki eins og grasið sinni mold og mátulegri vætu já og mátulegri birtu því ég er eitthvað sem gerist; ég geng og gerist.


II.

Ef ég væri sonnetta myndi ég líklega drepa á dyr hjá einhverju skáldinu og biðja það að yrkja mig uppánýtt; en ég er ekki sonnetta og þarf engan sonnettubúning því ég er með lykla að húsinu mínu og get ráðið mér sjálf.

Ef ég væri saffóarháttur er óvíst hver myndi þekkja mig og þá myndi ég heilsa öllum með handabandi og hoppa eftirfarandi takt niður skólavörðustíginn: haha haha hahaha haha haha
þrisvar sinnum og síðan hahaha haha og svo aftur frá byrjun alveg oní bankastræti.

En ég er enginn háttur ég er ljóð sem liggur á eggjum sínum á haustin.