azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Friday, May 11, 2007

Afrískur tangó eða finnskur?


Einmitt meðan ég bíð eftir að Pekkalampi í Helsingfors tillkynni það annað kvöld að Gautaborgarörkin með Ola Salo syngjandi sitt eigið lag verði númer eitt tvö og þrjú, já eða þá bara einhvur framlög austurlanda nær - úr því hárprúður fulltrúi Íslands fær að taka því rólega líkt og Danir og Norðmenn - þá kemur lánið til mín í pósti, að þessu sinni í bókarformi.

Fékk í dag tvær bækur sem ég pantaði á netinu, fyrir það fyrsta: TANGO, the art history of love eftir Robert Farris Thompson professor í listasögu við Yale. Bókin kom upphaflega út 2005 og mér var bent á fróðlega gagnrýni um hana í Times í fyrra og hef lengi verið á leið að panta hana, nú fæst hún í pocket frá New York forlaginu Vintage Books. Thompson hefur m.a. skrifað African Art in Motion (1974) och ef ég las rétt snérist gagnrýnin í Times um það að prófessorinn hafi gengið of langt í að tileinka Afríku og Afróargentínurum upphaf og jafnvel eitthvað í framhaldslífi tangósins ... Ekki meira um það fyrr en ég hef lesið bókina og þá sögu sem herra Thompson er að segja.

Hinsvegar gerði ég það af skömmum mínum úr því ég var að panta bækur á annað borð að panta eina eftir finnska M.A. Numminen, mér skildist það væri róman, já það stóð í kynningunni “... en roman så älsklig att till och med en passionerad tangohatare som undertecknad faller pladask”.

Ég þoli hvorki skáldsögur né finnskan tango - ég hef mikla fordóma gagnvart honum eins og sönnum unnenda argentínska tangósins ber að hafa - svo úr því bókin var ekki bara á gjafvirði, heldur hét þeim ósvífna titli : Tango on intohimoni sem samkvæmt sænsku þýðingunni þýðir Tangó er mín ástríða (Tango är min passion), þá ákvað ég að láta hana fljóta með til að fá staðfest þó ekki væri nema brot af mínum fordómum.

Nema hvað, ég þarf ekki að lesa margar síður af í allt 343 til að átta mig á að þetta er bókin sem ég hef beðið eftir! Bara án þess að vita af því. Bókin sem er með svörin við öllum þessum spurningum sem ég fæ frá sjálfri mér og öðrum um hvað finnskur tangó sé þá eiginlega úr því hann er svo ólíkur þeim argentínska og þjóðaríþrótt í Finnlandi. Þetta er sumsé öðruvísi listasaga með orðalistum og sögulegum upplýsingum um finnska tangótónlist, tangókónga og prinsa,drottningar og prinsessur í Finnlandi frá 1985 og öldina á enda. En ekki bara það, heldur líka djarfar fullyrðingar um hversvegna dansinn er eins og hann er ... Höfundurinn M.A Numminen er bæði tónskáld og rithöfundur, þekktur m.a. fyrir tónlist við heimspekitexta Wittgensteins.

“Margir spyrja eftir tilgangi lífsins. Ég veit hann er tangó.” Segir sá sem hefur orðið frá upphafi og lærði tangó þrettán ára og bjó sér til dansfélaga með stíliseraðar mjaðmir og höfuð úr einhverju úr kústaskápnum ... Strax á fystu síðunni lýsir hann yfir skelfingu sinni við að sjá flókinn dans argentínubúanna á kvikmynd. La Cumparsita var alltof erfið tónlist. Og honum finnst Toivo Kärki hafa fundið réttu lausnina þegar hann “kombinerade rysk romans och tysk marsch till finsk tango”. Hm. Rússnesk rómantík plús þýskur mars = finnskur tangó!

Og hann talar mikið um að “trampa tango” , er hrifinn af því sjálfur og það er alveg sérstakur dansstíll sem oft leiðir til hjónabands ... segir sagan. Hinsvegar er taktskyn meðalfinnans svo lélegt skv. sögumanni, að slái engin bassatromma taktinn, þá getur hann eða hún ekki dansað! Tromman og nikkan eru þau hljóðfæri sem þarf í finnskan tangó og allt annað er punt. Nema auðvitað söngvarinn. Söngurinn er mikilvægastur af öllu ...

Og með í söguna drífur hann eitthvað um Platon, Picasso og Luis Bunuel.

Ég sé ég að mér ætti ekki að leiðast biðin. (Ætla reyndar á ballett sýningu annaðkvöld, svo það kannað vera að ég missi af Pekkalampa og úrslitunum).

Kannski kemur að því ég láti tilleiðast að heimsækja og skrifa um tangóhátíðina í Finnlandi, hinn árlega tangómarknað þar sem tangókóngafólkið er krýnt, fyrir besta sönginn. Ritstjórinn á Danstidningen í Stokkhólmi hefur nefnt slíkt og þá hef ég fengið bólur.

"b erör mig" og annar dans

Hef líklega hætt að hugsa á íslensku síðustu vikurnar. Það gerist þegar ég er að vinna á sænsku.

Ég truflast ef ég fer að láta mig dreyma of mikið á móðurmálinu og þá hefur ritstjórinn ekki við að leiðrétta mig. Danskan er þó verst, hún læðist inn í sænsku stafsettninguna um leið og ég hugsa hálfa hugsun á danamáli, svo lúmskt að stafsettningarforritin sjá ekki við því.

Það kom grein eftir mig um dans á Íslandi undir fyrirsögnini Det våras för dansen på Island, með viðtalali við Ólöfu Ingólfsdóttur í seinasta númerinu af Danstidningen í Stockhólmi. Blaðið á að vera til á Bókasafni Norræna hússins, þ.e. tölublað nr. 2, 2007 . Og svo er auðvita ð hægt að panta áskrift á netinu:
http://www.danstidningen.se/

Í næsta blaði, júníblaðinu sem er 3 tölublaðið í ár, kemur grein eftir mig með viðtali við Gilda Stillbäck, nútíma dansara, danshöfund og tangódansara í Gautaborg, um sýningu sem hún hefur samið í samvinnu við argentínska dansarann Ezequiel Farfaro, undir titlinum b rör mig.

Það verk var frumsýnt í desember 2006 og er búið að heimsækja Buenos Aires, var sýnt á Cambalache hátíðinni þar. Ég sá sýninguna svo seint sem í fyrrakvöld, á Pusterviksteatern. Fín sýning. Mjög mögnuð á köflum, og aldrei leiðinleg, (meira að segja tangófólkið í Gautaborg stóð upp og fagnaði innilega!). Nútíma Dansleikhús sem einsog klæðir tangóinn úr yfirhöfninni og snýr svo fóðrinu út ...


Í upphafi voru hendur að dansa naktar í vatninu.

Í upphafi voru hendur að dansa fætur í vatninu.

Í upphafi voru hendur að dansa áttur í vatninu.


*

PS. Ezequiel dansaði um árabil við Milena Pleps, og um tíma við Lucía Mazer en í ár kennir hann á tangóhátíðum í Evrópu með Eugenia Parrilla, sem dansfélaga.