azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, March 01, 2009

Fór í leikhús og sá ekki sýninguna sem ég fór á

Tvær frumsýningar og milonga við fiskihöfnina.
Þvílík lúxushelgi, eftir látlaust kvef og hálsbólgu alla vikuna!

Ég skellti mér í bæinn á föstudaginn, með frumsýningarmiðann uppá vasann, á verk eftir Joan Didion í sænskum búningi: Ett år av magisk tänkande, með Agneta Ekmanner. Eintal um eigin viðbrögð við því að verða ekkja fyrirvaralaust og eiga veika einkadóttur. Ár af göldróttri sorgarvinnu, með stjörnu frá Stokhólmi á á Stadsteatern. Agneta er þekktur perfeksjónisti.

Lipurt, fínt, perfekt, hugsaði ég þegar mér tókst að teygja hálsinn þannig að ég bæði sæi og heyrði leikkonuna framhjá höfði sem var einkar óheppilega staðsett í röðinni fyrir framan mig.

Og ca tíu mínútur inn í verkinu kom loks verulega löng og ótrúlega mögnuð kúnstpása. Fannst mér. Svo komu fleiri, og eitthvað var að. Afsakið ég verð að taka mér hlé hér, sagði leikkonan og var ekki að leika. Hún var studd út af sviðinu og listrænn stjórnandi leikhússins birtist skömmu seinna og bað fólk að spjalla saman. Leikkonunni var óglatt og beðið var eftir hvort myndi treysta sér til að halda áfram.

Dramatískt atriði og það réttt oní lýsingu á dauðsfalli og áfalli sem eintalið hefst með.

Man ekki eftir álíka dramatískri bið í leikhúsi síðan fangarnir frá Kumla komu til að sýna Beðið eftir Godo, einmitt á þessu sama sviði. Enginn kom þá á sviðið lengi vel. Loks kom leikstjórinn upp á sviðið og sagði leikarana hafa flúið.
Hann hélt þá eintal samið á staðnum um samvinnuna og ferðalagið. Skrifaði seinna bók um það og flóttann líka og setti upp verk Bekkets í öðru fangelsi.

En Agnenta Ekmanner flúði ekki, hún stóð aftur á sviðinu ca stundarfjórðungi síðar og bakkaði smá í textanum. Ég saknaði fyrstu kúnstpásunnar. Og fékk sjálf hóstakast. Var að hugsa um að flýja en var króuð inn í miðri sætaröð. Hætti að teygja mig til að sjá. Slappaði af og sofnaði, milli þess sem ég var að kafna við að kæfa hóstann. Ég sem sagt hvorki fór né var.

Þegar ég las gagnrýnina í gautaborgarpóstinum (gp.se) í dag fékk ég staðfestingu á því að leikkonan var dramatískari en textinn.

*

Laugardagurinn reyndist sólskinsdagur sem endaði á praktiku og milongu niður við Fiskihöfnina við Gautelfur. Daniel Carlsson íslandfari var í heimsókn og kvaðst ánægður með Ísland á Vetrarhátíð. Og hann sá hana systur mína. (Gleymdi að spyrja hvort hann sá eitthvað af landinu utan þjóðleikhússkjallarans:)).

I dag er líka sólskinsdagur og ég er á leið í Óperuna á eftir, að sjá tvo nýa balletta, sem voru frumsýndir í gær. Herzschmerz eftir norska danshöfundinn Jo Stømgren, og Black Biist eftir begíska Wim Vandekeybus. Báðir samdir fyrir dansflokk Gautaborgaróperunnar.