azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, November 23, 2008

Vikan sem leið

Enn tínast dagarnir inn í líf manns og keppast um að vera hver öðrum skemmtilegri. Kennararnir í spænskudeildinni fara á kostum í hverjum tíma og eru alltaf að finna upp leiki til að auðvelda okkur að tala saman á máli sem við kunnum bara smá hrafl í; krakkarnir alltaf tilbúnir að útskýra þegar ég sein að fatta (það er ég næstum alltaf), og hafa ekkert á móti því að hafa okkur eins og tvö þrjú í trúðarhlutverkinu, okkur eldri púkana og einn hinna yngri svona uppá punt.

Á þriðjudagskvöldið tók tangóinn við mér á bæjarins best sóttu milongu, El Abrazo á Bellmannsgötunni.

Á fimmtudagskvöldið lauk ég upplestrarhringsóli nóvembermánuðar, og þá í safnaðarheimili Íslendinga í Gautaborg. Það voru séra Ágúst og Guðný Ása sem áttu frumkvæðið að því að fá ljóð um dans eftir kyrðarstund í kirkju, og kvöldið reyndist hið ljúfasta, með svo mikið af góðum straumum að frá hverjum og einum streymdi minnst tíu manna meðalstraumur ...

Svo kom fyrsta föl vetrarins og loftið varð ferskara en ferskt þann morgun.

Í gærkvöldi var ég í fínindis boði hjá tveim fínindis gáfukonum sem gerðu sér glamordag, buðu vinkonunum að koma í uppáhaldspússinu, og voru sjálfar silki- leður- og silfurbúnar. Ég fór í dansbuxur og mjúku draumlitu remix blússuna mína, frá því í hitteðfyrra, því hún er uppáhalds í ár, og hálsfesti sem ég fékk þegar ég fermdist (!), löng festi úr perlum og glerkúlum með þykjustu gull á milli sín, alveg glerfín. Ég rakst á hana um daginn í Tornedalskistlinum mínum þegar ég var að svipast um eftir bréfinu frá Brodsky, og datt í hug að kominn væri tími á hana ... hún væri góð í glamúrheimi. Svo fór ég í dansskóna ... og þegar upp var staðið bara ánægð með mig yfir að geta verið sósíal án þess að dansa! Bara borða og spjalla klukkutímum saman inná hvítljómandi heimili í hjarta borgarinnar. Og við svo fínar allar að ég hugsa við hefðum alveg getað passað inn í sparifatadaginn í Norðlingaholti.



Wednesday, November 05, 2008

Óbamadagurinn mikli og upplestrarvika í VesturSvíþjóð


Þvílíkur dagur! 

Ég var svo heppin að vakna fyrir kl. fimm (sænskum tíma) í morgunn, alveg mátulega til að sjá Barack Obama í beinni frá þar sem hann mætti með fjölskylduna og fagnaði ... eða réttara sagt tók þátt í fögnuði kjósenda sinna í Grant Park í Chicago. Sumir höfðu verið í biðröð í 25 stundir til að vera sem næst honum þegar hann héldi sigurræðuna. Mér fannst ég næstum standa þar líka þegar ræðan loksins kom : ).
Svo nú er bara að halda áfram að óska heiminum til hamingju ... og vona hið besta þegar hann tekur við embættinu og vandanum ...
*

Ég er að lesa upp annanhvern dag í þessari viku þannig kvöldið í kvöld varð líka sögulegt í mínu lífi með upplestri í Musikens Hus í Gautaborg,  með sænskum stjörnum bókmenntaheimsins: þeim Jonasi Hassen Khemiri og Katarina Frostenson,  frá Stockhólmi. Svo við tvö héðan af svæðinu, Gösta Carlson og ég (íslenskur Gautaborgari!). Dagskráin nefndist "Stenarna där barn jag lekt" (eftir ljóðlínu sem fengin er að láni úr Ensamhetens tankar,  eftir sænska skáldið Verner von Heidenstam) og ég naut þess að lesa bæði ljóð um tango og úr Því að þitt er landslagið, því þar er nóg af steinum til að tengja við þemað. Ég naut þess að lesa, fékk svo fína áheyrn, og komment frá sjálfri Frostenson sem mér þótti mjög vænt um " jag tyckte om din tango" sagði hún (enda las ég titilljóðið úr bókinni Ég halla mér að þér og flýg). Þar sem ég var fyrst í röðinni gat ég notið þess óspart að hlusta á hin það sem eftir var kvöldsins. 

Katarina Frostenson er með nýja ljóðabók í ár: Tal och Regn. Og Jonas Hassen Khemmiri - heimsfrægur á Íslandi síðan á bókmenntahátíðinni í fyrra - er með leikrit í tveim leikhúsum núna í haust og bókina Invasion!. Heimasíðan hans er HÉR.

Jonas fæ ég reyndar að hlusta á þrisvar þessa viku (!) því við vorum bæði að lesa upp á Bókasafninu í Skövde á mánudaginn var og á föstudaginn kemur erum við boðin til Vänersborg við Vänern. Allt á vegum Forum för poesi och prosa

Hér er eitthvað eftir okkur Gösta.