azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, February 04, 2008

Músarholuleikrit með tveim blómum

Ablóm: hún er alltaf að leita að sjálfri sér

Béblóm: leita að sjálfri sér?

Ablóm: já að sjálfri sér ... eða sínum innra manni eða hvað veit ég.

Béblóm: og hvernig leitar hún?
Ablóm: hvernig?

Béblóm: já og með hverju, leitar hún?

Ablóm: já þú meinar það. Ja... náttúrlega ekki með sjálfri sér.

Béblóm: nei. Hún er sum sé eins og annað fólk?

Ablóm: ætli það ekki ... svona með skott.

Bblóm: Já, ég þekki engan sem fer að leita að sjálfum sér og finnur sig

þannig, það þarf einmitt skott til að eltast við.

Béblóm: eða penna ...

Ablóm: þú meinar mús.

Béblóm: ég meina mús.

Nacido sin og Eva Norðanvindur

“... eins og mig vantaði eitthvað”.

Ein myndin frá Mexíkó -í deildinni Nýja Mexíkó á kvikmyndahátíð Gautaborgar - var eftir konu sem ég kynntist í Buenos Aires. Hún var svona too-much-týpa, alltaf með eitthvað soldið ótrúlegt á prjónunum. Í kynningunni sá ég að hún var ekki lengur á lífi, þar stóð leikstjóri og framleiðandi Eva Norvind (f.1944 d. 2006). Dóttir hennar Nailea Norvind, leikkona í Mexíkó hafði lokið við myndina. Ég vissi ekki að Eva hefði lagt út í kvikmyndagerð fyrir alvöru, þótt hún hefði menntað sig til þess og gert stuttmyndir. Þegar ég kynntist henni var hún að vinna sem kynlífsfræðingur fyrstog fremst og halda fyrirlestra, og svo hin hliðin sem einhverskonar “ dominatrix”, þar sem hún var með svipuna og allt. Hún sagðist vera fræg og var alltaf á fullu að vinna í Línuhúsi, tangóhótelinu þar sem við bjuggum, með tölvuna í rúminu frá morgni dags og sífellt í sambandi við aðra heima. En ég sá ekki heimildarmyndirnar sem höfðu verið gerðar um líf hennar, og las ekki enn bækurnar þar sem hún var skáldsagnapersóna, ég sá hana fyrst og fremst í sínu hér-og-nú-lífi. Og vissulega þekkti hún frægt fólk, ekki aðeins að henni tækist að drífa mig með sér í langbestu sætin á opnunarmilongu alþjóðlegu tangóhátíðarinnar CITA í Buenos Aires 2002, heldur gerði hún sér lítið fyrir og kynnti mig fyrir rithöfundinum Luisa Valenzuela, þegar við vorum allar á sama bókmenntakvöldi svona eins og af tilviljun eitt kvöldið.


Undarlegt að sjá "eins og fyrir tilviljun" að það var mynd eftir hana á hátíðinni. Enn undarlegra að sjá að hún hafði dáið 2006, áður en hún lauk við myndina sem hafði bersýnilega verið frumsýnd 2007, Nacido sin/ Born Without.


Og ekki minna merkilegt hvað þetta reyndist vera áhrifamikið heimildarmynd. Ég grét af hluttekningu með manninum sem grét af gleði þegar hann sá nýfædda barnið sitt, sjöunda barnið. Líka þegar hann sagði frá gleði sinni við að sjá fyrsta barnið sitt koma heilt í heiminn. Hann var ekkert venjulegur þessi maður. Hann er “blóm”, heitir Josó Flores, fæddur án handleggja og handa; engin hné bara örstuttar fætur og vantar nokkrar tær; ekki séns að leika á hljóðfæri með tánum beinlínis (hann gat notað vinstri fótinn á músina samt). Myndin lýsir hvernig hann vinnur fyrir sinni stóru fjölskyldu með munnhörpuleik, oftast á götunni, hvernig hann leikur við börnin og konuna sína og þau við hann og hvernig venjulegir dagar ganga fyrir sig. Sambandinu við stórfjölskyldu og vini og jafnvel vinnuveitendur er líst með heimsóknum og samtölum. Þessi mynd um líf hans var ekki sú fyrsta sem hann lék í og sjálfsagt hefur það auðveldað vinnuna hvað hann er góður leikari og skemmtilegur persónuleiki. Og leikstjórinn Eva Norvind hefur verið mjög dugleg við að láta hann og konuna hans semog fyrrverandi vinkonur lýsa ástalífnu hispurslaust og nægilega til að maður gat ímyndað sér það sem rætt var. Nacido sin/Born Without eða Fæddur án, var kosin besta heimildarmyndin í Mexíkó á síðastliðnu ári og er búin að ferðast á ýmsar heimsins hátíðar...

Eva kynntist José fyrst þegar hann var 18 ára götumúsikant í Mexíko City og 30 árum seinna var hún tilbúin að gera mynd um hann.

“Eftir að ég kynntist José fannst mér það væri mig sem vantaði eitthvað”, er haft eftir Evu í norska Dagsavisen. “Hann lifði lífinu til fulls ... Með myndinni langar mig að örva fólk til að gera það besta úr lífinu”.

Svo fann ég minningargreinarnar á netinu og sá að hún hafði drukknað við straumharða strönd í Mexíkó, 14. maí 2006.

Undarlega Eva sem var fædd Eva Johanne Chegodayeva Sakonskaya, og sem Luisa Valenzia kallaði Ave í bókunum sínum. Þær höfðu kynnst í New York og ég fattaði ekki þá hve Eva átti mörg nöfn, og enn fleiri hlutverk í lífinu. Hún dó líka frá annarri mynd sem hún var að gera: um tangó í Buenos Aires, einkum kennara sinn meistara Carlos Gavito, sem raunar dó á undan henni (1.julí 2005). En ég er afskaplega þakklát dóttur hennar í Mexíko City fyrir að ljúka við myndina Nacido sin, Fæddur án.

*

Saturday, February 02, 2008

7 galdrar á kvikmyndahátíð

Nú eru átta dagar síðan Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Gautaborg byrjaði og hún byrjaði svo vel að ég veit ekki hvar ég hef verið síðan. Man bara að ég hugsaði: hvaða galdur ætli gerist á þessari hátíð og svo byrjuðu þeir að rúlla sér að manni. Þannig varð laugardagurinn (fyrir viku) einn samhangandi galdur þegar upp var staðið. Í stuttu máli:

1. Ég vakna nógu snemma til að vera mætt á Respekt við Járntorgið og fá mér kaffelatte áðuren Gael García Bernal birtist.

2. Gael mætir skv. áætlun þrátt fyrir næturvinnu. (Viðtalið mitt við hann kemur í Sunnudagsblaði Mbl. ég held meira að segja með myndum sem ég tók sjálf!)

3. Ég kemst í hádegisbíó inn á opnum deildarinnar Nýa Mexíkó, sem byrjaði með mynd Gaels Déficit (=mínus eða halli), átti ekki von á því útaf af að blaðamannapassi veitir ekki forgang þegar uppselt er á sýningar, maður fer í blaðamannabiðröð að berjast um fáein frátekin sætin.

4. Mér tekst að finna sporvagn númer sex og mæta í tæka tíð á Bergakungen, hátíðarbíóið sem er lengst í burtu frá Járntorginu, til að sjá heimsfrumsýningu á heimildarmyndinni Andstæðingar dagdrauma (mín þýðing) eftir Helga Felixson og Titti Johnson.

5. Ég finn þau i eigin persónu strax í andyrinu.

6. Myndin reynist einn klukkutímasamhangandigaldur. (ÉG sendi klausu á MBL í Af listum, birt 31.1)

7. Mynd eftir látna kunningjakonu (sem ég kynntist í Buenos Aires 2002) Eva Norvind, Nacido sin/Born Without, reynist algjör og ótrúleg og fullkomlega yndisleg ... verð að gera sér blogg um það seinna ...

því nú er ég að rjúka í bæinn til að gá hvor ég finn Valdísi Óskars á hlaupum með brot úr Bóndabrúðkaupi ... afsakið Sveitabrúðkaupi (!) sem hlýtur að verða mynd ársins á Íslandi! Ég er a.m.k. yfir mig forvitin ...

bless á meðan ...