azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, August 24, 2008

Talandi tré, tónlist fyrir augað, hreyfing til að hlusta á ...

The walking talking tree

Svartklætt tré fikrar sin inn á sviðið. Það hriktir í greinum þess. Það er að berjast við eitthvað, fást við mótlæti sem er manneskjuaugum mínum hulið í augnablikinu. Ekki víst því líði neitt vel. Hvenær líður trjám vel? Þetta tré er eitt á ferð og það á eftir að skipta um lit, sýna sig og miðla af þrjúþúsund ára reynslu. Erna Ómarsdóttir ljær því andlit líkama rödd, á þann hátt sem aðeins hún getur gert í sínu gangandi talandi tré, sem breytir um lögun, fer hamförum og yglir sig, sýnir sinn innri mann. Tætir af sér eplin deilir þeim með sér. Reynir það. Sum umbreytast í gullepli. En flest má endurvinna ... líka gull. Og tréð fær gullandlit, gullhendur, því vex gull undir greinum. Tréð á líka sinn þræl. Trénu líður ekki vel. Mér líður ekki vel. Ég finn til í talandi syngjandi hlægjandi grátandi æpandi trénu þar sem ég sit á fremsta bekk. Flestir sitja á fremsta og næstfremsta bekk, því aðrir standa og sýningin er eins og tréð sem syngur sögur og eðlilega lagar það sig að aðstæðum.  

Með Ernu á sviðinu er belgíski tónsmiðurinn og meðhöfundurinn Lieven Dousselaere.

- Sýningin er að breytast, hefur verið að breytast frá upphafi segir Erna og lýsir stemmingunni þegar hún sýndi á lofti Landnámssetursins í Borgarnesi um síðustu helgi, svo gjörólíkt því að sýna á Röhsska safninu í Gautaborg rétt fyrir miðnætti á föstudegi.

Ég hitti Ernu fyrir tilviljun í gær, laugardagskvöld, útaf að þegar ég ætlaði heim var ekki hægt að komast yfir götu vegna 7500 manns á 10 km miðnæturkapphlaupi um bæinn! Svo ég dreif mig á Club Love á Röhsska, þar voru götudansarar frá Japan, Kína París og New York á sviðinu þar sem Erna var kvöldið áður. Og í öðrum sal: Lokatónleikar með  sænsku tónlistarkonunni Lisu Nordström, sem hafði hreiðrað um sig í glerhúsi og þaðan stjórnaði hún verki sínu sem var bæði fyrir augu og eyru. Og á tröppunum í hlýlegri síðsumardimmunni stóð Erna, eini íslenski danshöfundurinn á hátíðinni í ár. Um starfsemi hennar má annars lesa eitt og annað á bráðskemmtilegri heimasíðu HÉR

Skólinn sem Erna útskrifaðist úr fyrir 10 árum síðan P.A.R.T.S. í Bryssel, er einn af heimsins þekktustu  fyrir nútímadans, og hún fræðir mig á að nú hafi þrír íslenskir dansarar fengið inngöngu í ár! Í mínum eyrum hljómar það álíka stórt og íslenskt gull í Kína. OK, segjum silfur.
Útskriftarnemendur skólans í ár voru raunar í heimsókn á hátíðinni, sýndu 13 stutt verk á þremum kvöldum. Og stofnandi skólans (1994) danshöfundurinn Anna Teresa De Keersmaeker er eitt af stóru nöfnum hátíðarinnar, með verkið Steve Reich Evening sem fær dúndrandi fína dóma bæði hjá Önnu Ångström í Svenska dagblaðið og Lis Hellström Sveningson í Gautaborgarpóstinum og Önnu Ångström í Svenska Dagbladet, með yfirskriftinni nautn frá upphafi til enda.
(Aðeins fáeinir af um 20 sýningarhópum hátíðarinnar fá blaðaumfjöllun).


Að horfa á tónlist

Ég ætlaði í Óperuna í gærkvöldi að sjá og heyra Charlotte Engelkes með verkið Silungurinn og ég, á littla sviðinu. Hún byrjaði kl. 21:00. Og ég missti af sýningunni!
Ástæða: Ég var lokuð inni í Borgarleikhúsinu, Stadsteatern við Gautatorgið þar sem Póseidon pissar fyrir utan ...  
Afleiðing: Ég náði að sjá allt verkið Steve Reich Evening með Anna Teresa De Keersmaeker, Rosas dansfloknum frá Belgíu og tónlist Steve Reichs!

Hugmyndin var annars að sjá bara tvo fyrstu hlutana af fjórum. Dreif mig útaf að rússnesk tangóvinkona á dansandi dóttur í flokknum. Með þessu móti myndi ég ná að sjá hana dansa og hina rómuðu Keersmaeker líka, síðan ætlaði ég að laumast út um næstu dyr milli atriða og niður á Óperu fyrir kl. 21:00. En þegar ég reis úr sæti og réðist á dyrnar, þá bifuðust þær ekki. Fann ekki betur en þær væru læstar. Snéri því sem snúa mátti, hnúum og því sem fyrir mér varð en ekkert dugði. Næsta atriði að byrja og allar aðrar dyr virtust virka (fólk smeygði sér af og til út eða inn), bara ekki þær sem ég sat fyrir innan. Ég ákvað að fá ekki panik, heldur setjast og anda rólega og fá síðari hlutann með. 
Og það var eins gott, því annars hefði ég misst af nýjasta verkinu og öllum karldönsurunum, sem Keersmaeker er nýbúin að semja heilt verk fyrir.(Rosas dansflokkurinn var upphaflega kvennadansflokkur en í dag eru þar jafn margir karldansarar). Og rússneska dóttirin - Elisaveta Penkova - naut sín enn betur í síðasta atriðinu. Belgíski danshöfundurinn Keersmaeker og bandaríski tónsmiðurinn Steve Reich hafa unnið saman í 25 ár og sýningin speglar samstarfið í 4 verkum frá ólíkum tímum.  

tónlist er hreyfing varð augljós hugsun í sýningunni frá upphafi, þegar tveir risapendúlar hanga yfir miðri sviðsbrún og sveiflast yfir einhvurskonar traktir eða brunna sem gefa frá sér hljóð. Pendúllinn er ekki bara pendúll en um leið hljóðnemi sem veiðir hljóðið sem sveiflast og stöðvast svo, í verkinu Pendulum frá 1968. Tónlistin er flutt af belgísku nútímamúsiköntunum í Ictus, sem eru til staðar upplýstir á ýmsa vegu á sviðinu, allt útfrá hvað verkið kallar á.
  
Að hreyfing kallar á hlustun  var ekki heldur um að villast þegar tvær konur í hvítum hnésíðum kjólum og hvítum hosum, tóku að snúast í hringi, á þann hátt sem minnti á súfidans ýmist eða börn að leik. Þær héldu áfram að snúast í hringi allt verkið, sem virtist einfalt í tærleika sínum, eins og tónlistin, þar sem hin minnsta breyting gefur algerlega nýjan rythma, nýja mynd. Stundum var þverstopp, næstum aggressivt stopp í dáleiðandi mjúkum og samræmdum hreyfingum dansaranna tveggja. Skuggar þeirra margfölduðu myndina, oftast fjórir. Þegar tveir þeirra runnu saman, svo úr urðu þrír skuggar þá var sá hinn þriðji svo dökkur miðað við hina ... 
Þetta var hugleiðandi verk frá 1982 og annar dansarinn var höfundur þess Anna Teresa De Keersmaeker. Verkið heitir Fase og gerði hana fræga á sínum tíma.
Tuesday, August 19, 2008

Hvað er nýtt, hvað er dans, hvað er heima?


Hvað er nýtt? hvernig skilgreinum við þetta nýjasta, óþekkta og mikilvæga sem við teljum okkur sækjast eftir, er spurning sem Astrid von Rosen vekur upp í pistli um Dans- og leiklistarhátíðina í Gautaborg. (sjá heimasíðu Danstidningen).
Hún bendir á að kannski er það eitthvað gamalt og margtuggið í nýjum búningi, því hið fullkomlega óþekkta gætum við hvorki skilið né skynjað á meðvitaðan hátt, það hlyti að fara fyrir ofan garð og neðan hjá okkur.  Aðeins fáein prósent af óþekktu í bland við hið þekkta, náum við víst að meðtaka þegar við upplifum eitthvað sem verandi nýtt.

*
Í kvöld var ég á Storan, sá sýningu Akram Khans, bahok, með fimm dönsurum úr hans eigin nútíma dansflokki í London, þjálfaða í hans sérstaka "contemporary kathak" stíl, ásamt þrem klassískt skóluðum dönsurum úr kínverska þjóðarballettinum. 

Hvað er dans? 
Er biðin dans? var ein fyrsta hugsun mín þegar ég sat í þægilega rauða bólstraða sætinu mínu á tíunda bekk og beið. Tónlistin var hafin, tjöldin dregin frá og dansararnir á sviðinu. En í biðstöðu. Í einhverskonar hljóðri talandi biðstöðu. Á skilti yfir þeim stóð Gjörið svo vel og bíðið, eða réttara sagt: Please wait. Eftir ca mínútu bið í þögn og fullkomnu hreyfingarleysi, virtist hver hvunndagsleg hreyfing einsog það að standa á fætur mikilfengleg.

Þegar einn kínverski dansarinn hóf sólódans gerðust undur. Þvílík snerpa. Þvílík mýkt. OK þeir kunna þetta í Kína, hugsaði ég þá en það voru ekki bara kínversku dansararnir sem framkölluðu göldróttan léttleika með greinilegu akkeri þyngdarinnar þegar þufti, því dansararnir hans Khans voru gæddir svipuðum galdri í hreyfingarmynstrinu. Mynstri sem smásaman sameinaði dansverkið í heild, í allri sinni snerpu og mýkt, léttleika og húmor. Líka í öllum ruglingi, misskilningum sem verða þegar sameiginlegt mál er enn ófundið, í biðsal sem gat verið á flugvelli, járnbrautarstöð, hjá útlendingaeftirliti ... 

Smátt og smátt skýrðist saga hvers og eins í hinum margmenningarlega hópi ungs fólks, samankomin úr ólíkum heimsálfum, með ólík túngumál, bæði talmál og það mál sem ólíkar danshefðir eru. 

Þau eru strand. Vilja komast áfram og út frá því taka hlutir að gerast milli þeirra. Þau gera sig skiljanlega á ýmsa óvænta vegu og miðla reynslu, draumum, og minningum um eitthvað sem heitir "heima".

Ég hætti að hugsa: hvað er dans? og hugsaði: ÞETTA ER DANS.
Danslist eins og hún gerist best. 
Og: HEIMA ER ÞAR SEM ÉG ER.


Bahok var frumsýnt í Peking 25. janúar 2008. Bahok getur þýtt burðarmaður eða sá sem ber, á bengölsku, móðurmáli hins breska Akram Khan (f í London 1974), og vísar hér líklega í minningar og reynslu sem líkaminn ber með sér (body-memory) . Fína lýsingu á verkinu má lesa á ensku t.d. HÉR

Dansararnir eru með ýmiss konar bakgrunn, ekki bara frá Kína og London, en líka Kóreu, Indlandi, Slóvakíu, Suður-Afríku og Spáni.

Akram Khan hefur m.a. gert sýningar í samvinnu við Sidi Larbi Cherkaoui og þykir meðal merkustu danshöfunda Evrópu.  sjá heimasíðu hans hér.


*

Þessi alþjóðlega Gautaborgarhátíð er svona lúxus sem gerist í átta daga seint í ágúst, annað hvert ár (síðan 1994) og spyr með sýningum sínum hverju sinni: hvað er sviðslist einmitt nú?

Hátíðin í ár fær heilmikið hrós, m.a. fyrir opnunarsýninguna með þýsk-breska leikhópnum Gob Squads á föstudaginn var. "Hátíð sem fjallar um möguleika sviðslistar hefði ekki getað byrjað betur", fullyrðir gagnrýnandi á Dagens Nyheter.
Sýningin heitir Gob Squad´s Kitchen og byggir á kvikmynd Andy Warhols, Kitchen frá 1965, og afbyggir hana um leið. Leikararnir eru að vinna við kvikmyndaupptökur, bak við tjaldið sem speglar hvað gerist bakvið það; þeir eru ýmist fyrir framan tjaldið eða bakvið, ýmist í hlutverkum eða komnir úr hlutverkum ... allt í vinnunni við að afbyggja goðsögnina um, hetjur, stjörnuleik og píramída; hver sem er getur orðið stjarna.


*
P.S.
Á föstudagskvöldið var, sá ég nokkra engla fyrir miðnætti í einskonar hreiðri gert úr risastálkönguló sem hékk á Gústav Adólfs torginu ... og á sunnudaginn sá ég þrjár sýningar, sem ég reyndi að blogga um, en þegar ég ætlaði að líma klausurnar inn í bloggsíðuna, fóru þær eins og utanhjá! Já líkt og englafiðrið á föstudaginn sem mér sýndist fara meira eða minna til fjandans ... en bara skemmtilega. Ég verð sum sé að skrifa beint í bloggformið eins og tæknin er hjá mér núna, ekkert lím og klipp. Kannski koma klausurnar inn seinna (hér fyrir neðan) í einhverju formi.

Alveg rétt, þemað á hátíðinni í ár er: frásagnir fólks
og lykilorðið  er intimacy (sem kannski má þýða trúnaðartraust), hefur listrænn stjórnandi hátíðarinnar gefið upp, Birgitta Winnberg Rydh, sem stóð sjálf og reif af miðunum á Storan í kvöld.

Góða nótt