Mynd:
Tilbúnar á Milongu í Kaupmannahöfn 1. júlí s.l. Stella systir t. h. Kristinn mágur tók myndina og sést því ekki ... Eins og sjá má ef rýnt er í þessa mynd hafa gerst undur á mínum hálsi; ég er komin með nýja húð! Og sú nýja er ekki einu sinni flekkótt, hvítu flekkirnir sem sjást er 1. stk eyrnarlokkur úr perlumóður og svo sondan ... ég fann húðlitan plástur í apótekinu til að punta mig með - eftir ábendingu frá Frú Fagrafjalli (tannsérfræðingnum mínum) - í stað hins hvíta sem hefur haldið sondunni i skefjum. Og seinasta ævintýrið gerðist í framhaldi af hinum heilsubætandi miðsumartangó; mér datt í hug að ég ætti auðvitað að halda áfram að dansa mig fríska og skella mér á maraþontangó í Kaupmannahöfn í vikunni á eftir. Ég nefndi það við Stellu en rann þó á rassinn með þá hugmynd eftir því sem dagarnir liðu; m.a. óx mér í augum að burðast með heilan kassa af apótekarvelling með mér á rútuna fyrir utan ballföt, skó, meðul og dót. Í miðri viku bauðst hún svo til að sækja mig þennan spöl sem er á milli okkar, nánar tiltekið c.a. fjögurra tíma keyrsla! Mér fannst það klikkað en of skemmtilegt til að segja annað en já takk ... og svo komu þau hjónin - Kristinn og Stella - brunandi ... og til baka samdægurs með mig sem farþega. Við fórum á síðustu tvær maraþonmilongurnar, þ.e. föstudagskvöld og laugardagskvöld, báðar á Tingluti og sú fyrri var raunar i umsón La Milonga (sem eru fimmmenningarnir Monica & Lasse; Celeste & Trygve og Jorge) og lokaballið þeirra fyrir sumarfrí. Síðan haustið 2005 hafa þau gefið út aðdáunarvert tangórit og fjórða heftið var nýkomið út með greinum og viðtölum um sögu tangósins; um dansinn og tónlistina ...
Á laugardagskvöldið 1. júlí, sýndu kennarar maraþonhátíðarinnar, mínus Constantín frá Berlín sem var rokinn af svæðinu. Esteban og Evelin frá Montevideo voru hápunkturinn. Með látlausu yfirbragði dönsuðu þau svipmikinn Tango Nuevo. Ungt par frá Rio de la Platasvæðinu með dæmigert suðurameríkanskt útlit og mun minna evrópskt en megnið af Buenos Airesbúum verða að láta sig hafa. Þau komu mér skemmtilega á óvart, alveg nýtt par í mínum heimi. En nú sé ég á netinu að þau voru meðal úrvalskennara á heimsins stærstu tangóhátíð CITA í Buenos Aíres í vor; Þegar ég sá þau dansa fór mig að dauðlanga á námskeið hjá þeim og það sem fyrst 
***
Þetta var fyrsta langferðin mín síðan í janúar og trúlega síðasta heimsókn mín til Stellu og Kristins á Emdrupvej því þau eru að flytja aftur til Íslands um næstu mánuðarmót. Heima hjá þeim varð Stella allt í einu einsog á hjólum í kringum mig í hvert sinn sem ég nærðist; ég er bersýnilega orðin svo háð hjólastatífinu sem ég hengi næringuna mína uppí hér heima, að ég kann ekki lengur að hreyfa mig á eigin fótum með vellingspoka í hendi - ef mér dettur í hug að mig vanti eitthvað - bara útaf að hann hangir á einhverjum völdum stað í loftinu ... á herðatré!
Þegar Marianne vinkona kom hjólandi út í Emdrup kom í ljós að ég var mun duglegri til gangs en ég hélt; við könnuðum Utterslevsmose í sólskininu einn daginn og strandlengjuna við Charlottenlund - með S&K - hinn daginn. Og þegar vellingsferðabyrgðirnar voru búnar á sunnudaginn var, tók ég rútuna til baka til Gautaborgar og síðan hefur heit vika liðið.
***
Ég átti tíma hjá nýjum tannnlækni á tannlæknaháskólanum í byrjun vikunnar - yfirlækni á deild sem ég hef ekki verið á áður - og eitt það fyrsta sem bláókunnugur maðurinn segir var á þessa leið: Og þú ætlaðir að dansa miðsumarhelgina; var það ekki? Ég skildi straks að doktor Fagrafjall hafði undirbúið komu mína vel. Og þessi ókunni doktor var svo ánægður með játandi svar mitt og persónulega lýsingu á tangónótt bara viku eftir að ég staulaðist úr síðustu sjúkrahúsvistinni að ég kunni ómögulega við að bera í bakkafullan lækinn með frásögn af tangóleiðangri til Kaupmannahafnar!
***
Næsta tangóhátíð í "nágrenninu" er á Krokstrandsfestivalen við landamæri Noregs, í lok mánuðarins. Og þar sem mér varð á að lofa að skila rapport til Danstindningen í Stockhólmi strax fyrstu vikuna í ágúst, þá sá ég mér til hrellinngar að ég er með því búin að útiloka sjálfa mig á sögulegan viðburð: norrænu hátíðina Tango del Norte í Kaupmannahöfn 2 - 6 ágúst. Nema þá hugsanlega á síðustu nóttina ...