azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Saturday, December 29, 2007

Annáll ársins ... brot


Áður en ég bregð mér til Borgarinnar við Sundið má ég til með að blogga áramótakveðju með smá upprifjun og framhaldi af Skammdegissögum.

Ég byrjaði árið 2007 heima á Íslandi á mögnuðu augnabliki uppi á mögnuðum hól með Unni vinkonu í Heiðmörk. Þegar ég hætti mér inn í reykmettaða höfuðborgina síðar á nýjársnótt var hún ótrúlega réttnefnd, allt í reyk ...
Milongan í Iðnó 2. janúar er mér eftirminnileg, fullt af tangóvinum tryggðu sér eintak af nýju bókinni minni Ég halla mér að þér og flýg, og lagerinn kláraðist áður enn ég yfirgaf landið, bara fáein dýrmæt eintök eftir í búðum og kannski Kramhúsinu, enda birtist brátt skemmtilegur dómur í Morgunblaðinu.

Í skammdegisdvöl minni á Íslandi náði ég að taka viðtöl við tvo íslenska dansara og danshöfunda, sem birtust bæði Danstidningen í Stockhólmi í ár: Ólöfu Ingólfsdóttur og Ernu Ómarsdóttur. Þegar ég lít yfir janúar eru fleiri atburðir sem standa uppúr, t.d. fæðingardagur Jóns úr Vör þegar ég dreif mig á dagskrá í Salnum í Kópavogi, ég hafði ekki mætt í það fræga hús fyrr, en þann 21. janúar er Ljóðstafurinn afhentur nýum verðlaunahafa ár hvert og þá boðið upp á rausnarlega dagskrá. Dagurinn sá stendur í sérstakri birtu af fleiri ástæðum: loksins varð af því að ég heimsótti nöfnu mína Hjörleifsdóttur í Garðabæ, sem bjó lengi með fjölskyldu sinni á klettabrún hér í Bergsjön og þá bara skógur einn á milli okkar.

Hún sótti mig nývaknaða í vesturbæinn til Stellu systur og dreif mig m.a. í gönguferð, sýndi mér Heiðmörk frá sínum sjónarhólum og skúmaskotum í ótrúlegri og tindrandi vetrarbirtu ... hún var raunar nærri horfin eitt óhugnanlegt augnablik beina leið niður í alla fegurðina sem breyttist í lífshættulega gjótu ... en bjargaði sér með klókindum og kom heil upp á yfirborðið áður en ég sá nokkurt ráð í hendi mér. Það var snjór og við örkuðum ótroðnar slóðir í hinum ægifagra íslenska vetri.

Dagurinn endaði á leikhúsferð með Elísabetu vinkonu og hálfnöfnu -Ellu Stínu skáldkonu og fjallablómi - og merkilegu miðnæturspjalli heima hjá henni á Framnesveginum ... Ég bloggaði ekkert þá tvo mánuði sem ég dvaldi heima (hér= á Íslandi!) og röð af atvikum og andlitum blossa upp í huganum en fá ekki pláss í bókstöfunum núna ... Svo flaug ég áleiðis til Gautaborgar og um það bil beint inn í bíómyrkur kvikmyndahátíðarinnar , sem er fastur liður hér í janúarlok.

Megnið af hápunktum mínum á árinu ætti raunar að vera skráð hér á blogginu líka ferðir mína vikurnar fyrir jól og hér fyrir neðan með minnisatriðum úr annars óskráðri dagbók (sjá Skammdegissögur meiri hluti), já svona minnistextar fyrir sjálfa mig fremur en pælingar eða bein skemmtiatriði ...

Gleðilegt ár 2008!

Skammdegissögur, meiri hluti



Til Dyflinnar

Þann 26. nóvember kom ég fljúgandi frá Dyflinni með Heilræði lásamiðsins í farangrinum og heima beið mín sending úr Heiðmörk, frá Unni Jökuls: Hefurðu séð huldufólk. Bækur sem hvor um sig væri verðugt efni í meira en eina doktorsritgerð ... Dublinarferðin - eða ferðin til Djúpu lindar í Dyflinnarsýslu í ríki Mary McAleese - er hiklaust einn hápunktur ársins, intensíf helgi í faðmi írskrar menningu og Elísabetar Jökuls sem var í háskólanámi þar á hauststönn. Ég lenti í fullu tungli og fannst fjöllin íslensk á svip í sólarlaginu síðdegis á föstudegi þann 23. nóvember. Elísabet hafði essemmessað að hún væri lasin, og ég til baka að hún skildi taka því rólega, en viti menn, hún birtist flaksandi fín á svörtum frakka á flugvellinum, beið mín í villtum dansi svo fjaðraskraut okkar beggja truflaðist þegar ég skáskaut mér inn um hliðið. Ég vissi ekki þá að hvorki var fyrir hvítan mann né svartan að rata heim til hennar í Fagrastræti, í hvílíku nýmóðinshverfi að leigubílstjórar kunnu ekki á það og þurfti nákvæma leiðsögn hins heimavana. Hefði hún ekki sótt mig væri ég enn að villast, reikandi ein um stræti Dyflinnar, sem reyndust sjarmerandi og söguleg enda svæði margra snillinga, sem ég hafði ekki tengt sérstaklega við Dublin. Oscar Wilde sé ég mest fyrir mér í fangelsi, ef ekki á heimsreisu um Evrópu og grafinn í Frakklandi, gleymi að hann var fæddur hér og nam við Trinity eins og Beckett sem hélt til í Parísar o.s.frv. Annað með Joyce sem notar Dyflinni sem bakgrund í sínum frægustu verkum. Landlordinn hennar Elísabetar reyndist ljúflingur og kennari í skapandi skrifum, og skrúfaði frá hitanum um leið og beðið var um það.

Strax fyrsta kvöldið rúlluðum Elísabet í bæinn og út að borða. Ég fékk að sjá Liffley by night og fleiri valda staði, horfa á tunglið þaðan sem gestgjafi minn
skáldkonan kvað það best: úr Trinity háskólagarðinum. Ekki varð komist hjá fáeinum ævintýrum svona rétt á leiðinni í kvöldmatinn, eins og að lenda á óformlegum skipulagningarfundi leikskáldsins EKJ og framkvæmdastjóra Beckettleikhússins við Trinity; þar næst í útgáfuveislu nemenda með nýútkomið 58. hefti af Icarus, Contemporary Writings from Trinity, textar átján ungskálda. Elísabet kann að búa til spunaþætti með orðum og fólki og stofna ný heimsveldi á staðnum og einn meðleikarinn var ungur maður sem mér sýndist ætla að verða nýr James Joyce, hann birti texta sem hann kallaði Portrait of a Freshman After Five Weeks in Trinity. Nei, ég er ekki rithöfundur, Im not a writer, Im a skripler. Nýtt hugtak handa mínum haus svo ég hló og hló fannst skripler svo skondið, en ég kann ekki á kokteilsamræður og það lýsti sér í því að ég sofnaði nánast samstundis í sóffa, veit ekki hvort það var af skelfingu eða þreytu eftir flugið (með Rayan Air sem var með óþægilegri flugstóla en ég hef áður kynnst). Ég vaknaði á völdum matsölutað þar sem Elísabet var allt í einu komin með þjón í fullt starf við að segja sögur við okkar borð! Ég hélt hann myndi gleyma að gefa okkur að borða fyrir bragðið og biðja um sögulaun, en það var eins og allt væri innbakað í heimsins ljúffengasta hollusturétt sem hann töfraði á borðið fyrr en varði.

Áður en helgin var liðin náði ég líka að að skoða hið heimsfræga bókasafn við Trinity háskólann með
The Book of Kells, gersemi borgarinnar, varðveitt handrit frá c.a. 800 e. kr. verk munka frá eyjunni Iona í Skotlandi að því er talið; munka sem fluttu til Kells í greifadæminu Meath til að forðast árásir víkinga. Ég sá ekki betur en þetta væru listaverk í sama stíl og handritin okkar með öllum mögnuðu upphafsstöfunum! Það var að Elísabet sem kom vitinu fyrir mig á síðustu stundu, þótt hún væri sárlasin heimavið á sunnudeginum og líka að búa sig undir að kveðja Dyflinni; hún vissi hvað var merkilegast að skoða og ég slapp inn í musterið rétt fyrir lokun á sunnudegi; fann stoð að styðjast við í lotningu minni þegar ég kom upp á efri hæðir safnsins með The Long room sem varðveitir tvö hundruð þúsund elstu bækurnar.

Dyflinni er rétt eins og Barcelona með tvö tungumál sem blasa við á hverju götuh0rni, hér eru götunöfn og leiðbeiningar bæði á Ensku og Írsku, málinu sem keltar ortu hetjusögur og drápur á hér áður.


Auðvitað fann ég tangó í höfuðborg Íra, búin að hafa samband áður en ég fór að heiman (hér = Gautaborg). Var á ferð á réttum tíma fyrir the big Winterbal á fæðingardeildinni, þeirri fyrstu sem byggt var yfir í Evrópu að því er segir í túristabókum, deildin stofnuð 1745! Jamm, ég er ekki að búa þetta til, Milongan hjá írska tangóveldinu var til húsa í hátíðasal á sjúkrahússvæðinu Rotunda Hospital við Parnell Torg, ekki langt frá Writers Center, þar sem Elísabet stóð fyrir bókmenntakvöldi nokkrum dögum síðar, las upp úr Lásasmiðnum og öðrum verkum sínum. Hún dreif sig með mér á Milongunna, náði fínu sambandi við eina manninn með rauða nellikku - eftir að hafa töfrað alla aðra í kringum sig - það var Andrew leikari sem ég held hún hafi síðan ráðið í vinnu sem upplesara og gott ef ekki kynni. Annars sáust varla Írar fyrir útlendingum og innflytjendum, þýski háskólakennarinn hann Kristófer fullyrti að í tangósamfélagi Dublinar væru aðeins 20 til 30 % Írar. Af dansherrum mínum voru þó einir þrír mjög írskir kannski innfæddir, og því eldri því færari! Ég á alltaf von á að lúxusdansararnir leynist meðal hinna yngri í Evrópskum borgum, því tangóbylgjan síðari frá Argentínu er það ný. Það var undir lokin að ég náði athygli roskins tangóara með tagl og sem hafði vakið athygli mína fyrir fallegt faðmlag og lipran stíl. Ég sá hann aldrei sitja. Hann hafði dansað í nærri áratug og verið í BsAs oftar en einu sinni. Hljómaði írskur. Það er innileikinn, hinn orðlausi innileiki tangósins sem virkar eins og lífgjafi í dansinum. Ég er ekki viss um að nokkur geti séð það utanfrá. Sýningartangó er allt annað mál ... Salurinn, The Pillar Room, tilheyrði Gate Theater sem ég áttaði mig aldrei á hvort einnig var innbyggt í Sjúkrahúsið.

Daginn eftir hitti ég svo argentínsku Veronicu, þegar ég var búin að túristast, líka í Temple Bar og villast soldið viljandi, þá mæltum við okkur mót við spíruna The Spire sem er auðveldara að rata á en nokkuð annað í Dyflinni. Veronica hafði ekki verið á vetrarballinu mikla, þótt margir nemendur hennar væru þar og bað mig að segja sér allt ... Hún hefur dvalið langdölum í borginni við að kenna tangó, og ferðast raunar um allt Bretland og víðar sem tangókennari. Hún var soldið óþolinmóð fyrir hönd Dublinarbúa, þótti þeir flækja málið um of með pælingum um klassiskan tangó og tangó nuevo, en í Limerick þar dansar fólk tangó!


Leshringsvinir


Miðvikudaginn eftir Írland var eitt hinna ljúfu leshringskvölda. Þá var meira en ár síðan við í íslenska leshringnum höfðum hittst heima hjá mér; í fyrra fann ég ekki bragðið af matnum ég þóttist vera að elda og vissi ekkert hvað ég var að gera þegar ég var að krydda pottrétt, varð að biðja um aðstoð. Núna virkaði eigin bragðskyn og pottrétturinn pottþétt ókey fullyrtu allir sem einn. Við sátum við borð úr kirsuberjatré og ræddum snilldarverkið Sumarljós og svo kemur nóttin, eftir Jón Kalman Stefánsson, en líka um Huldufólk og heimana ýmsu sem ekki eru alltaf til sýnis. Leshringsfundirnir virka soldið eins og helgistundir - enda er presturinn okkar hann Ágúst með ásamt læknunum Vigdísi, Elínu og Guðnýu Ásu og hjúkrunarkonunni Helgu - þar sem tal um tilfinningar kafnar ekki í menningarmúr heldur vex eins og blóm á vel ræktuðu grasþaki þar sem þau verða helgisögur.

Stokhólmur í endursýn ... bráðadeild tangósins á Södermalm og 1.des í Vesterås

Þann 29. nóvember þaut ég til Stockhólms hélt ég en var minnst 7 tíma í lestinni útaf bilun og bið. Þá var orðið dimmt og ég var með lykil að fínu garðhýsi nálægt "tangoakutten" á Hornsgötunni á Södermalm, gistitað sem mér var hætt að lítast á að leita að í myrkrinu. Svo Sasha tangóvinkona frá Pétursborg bjargaði mér með ákveðni sinni þegar hún SMSaði: Koloistuga! Ertu galin, komdu hingað í staðinn. Þar með voru þau búin að taka mig að sér hún og Tommy tangóari sem búa í Kista og ég ætlaði fyrst að ónáða daginn eftir eftir heimsókn á bráðadeild tangósins sem er sérstök praktika opin síðasta föstudag hvers mánuðar á undan andfélagslegu Milongunni "antisocial tangoklub" sem Peter Bengtson tónskáld og tangóportalstjóri stjórnar á sama stað. Þá reynir hann að fá fólk að fylgja hefðbundinni reglu cortínunnar sem heimtar að fólk skipti um dansfélaga á fjögura dansa fresti, og óskar þess að gestir klæði sig soldið extra tangófínt.
*
Helgin rann í mig og með mér rétt einsog rjómasúkkulaði hjá nöfnu minni í Garðabæ; ég fann Stinu Ekblad heima á föstudeginum og horfði á hana baka Lúciuketti - sem við og sonur hennar Adrian borðuðum dáldið af - og þegar hún fór til Uppsala um kvöldið á skólasýningu frænku sinnar við leiklistadeild þar, þá fór ég beint tangóbráðadeidina. Eins gott því það vantaði kavaléra, ég bauð mig fram sem slíkur, og dansaði við konu sem ég hef aldrei séð fyrr en hinsvegar kvikmynd eftir hana: Mitt namn var Sabina Spielrein/Ich heiss Sabina Spielrein, sem Helgi Felix framleidddi 2002. Merkileg mynd um merkilega konu sem var fyrsti sjúklingur C.G. Jungs og sálfræðinemi, konu með framtíðardrauma og sterkan vilja sem ekki dugði til í gjánni milli vísindakonunnar og borgaralegs fjölskyldulífs; milli Frauds og Jungs, Stalíns og Hitlers .... "Meðan á meðferð stóð var sjúklingurin svo óheppinn að verða ástfangin af mér" er haft eftir Jung. En daman mín skrifaði kvikmyndahandritið og heitir Yolande Knobel.

Fullt af dansævintýrum gerðust þessa helgi, með fleiri fínum endurfundum en ég átti von á og ferðalagi til Vesterås, á hátíðamilongu þann 1. desember með hljómsveitinni Tangarte. Tangófólkið í Vesterås hélt uppá 10árin sín undir áhrifum.
Tangarte var betri en nokkurn tíma og með glænýjan CD á boðstólnum. Og skelfing er notalegt að búa hjá fólki sem líka þarf að hvíla sig eftir milonguna ... ég borðaði morgunnbat á miðjum degi með Söshju og Tommy og við horfðum á tangóupptökur ... mér fannst ég ansi röggsöm að taka lestina áleiðis í heimsókn inni í miðbæ fyrir kl. fjögur síðdegis. Við Medborgarplatsen var eins og höfuðborgin skryppi samna þegar ég heyrði nafn mitt kennt við Ísland rétt fyrir aftan mig. Þar stóðu Riku og Elín, á leið út að borða, Riku var ráðinn DJ á nýlegri sunnudagsmilongu, sem reyndist full af sjarma og góðum dönsurum ...

Konunglegur Mánudagur í Stockhólmi.

Á mánudagsmorgni mætti ég hjá Stínu á Dramaten. Hún hafði boðið mér í hádegismat, var annars á fullu að undirbúa kvöld með leiklestri á verkinu Final, "skådespel i tre akter af
Ernst Ahlgren och Axel Lundegård", sem þýðir nokkuð síðbúið leikverk eftir Victoriu Benedictsson(1859 - 1888). Og ekki bara það heldur var konunglega leikkonan samtímis að skipuleggja heilmikla dagskrá um Dorris Lessing á konunglega sviðinu í vikulokin, rétt fyrir nóbeldaginn 10 des.

Stina finnur staði sem ég finn aldrei ein, við sátum alltí einu í annað sinn á þvílíkum unaðs kaffiketti í gamaldags og heimilislegum stíl uppá annari hæð í húsi uppí klettabrekku bak við Dramaten ... sátum þar og hlógum og grétum. T.d. yfir hvernig það er öðruvísi að vera ekki alveg ung lengur, hverskonar einmanaleiki það er sem getur þá laumast í mann eins og ný tegund af tilveru þegar horft er fram. Og þegar litið er til baka hvernig hinar ótrúlegustu gjafir lífsins láta; bíða á öruggum stað eftir að þeim sé pakkað upp og deilt með öðrum sem muna eða muna ekki með manni. Undarlegt annars hve sjaldan ég heyri eldra fólk beinlínis lýsa tilfinningum sínum gagnvart fröken elli, ég var fertug þegar ég heyrði í fyrsta sinn þeytta konu segja það hreint út: Jag tycker inte om att bli gammal. Og svo heyrði ég frú Lessing orða það eitthvað á þessa leið í sjónvarpsviðtali: It is a hard work being a writer, but believe me, being old is harder, that is a very very hard work.


Ég flutti nær aðaljárnbrautarstöðinni þennan mánudag til Mats leiktjaldahönnuðar á Söder og tók svo lestina heim þriðjudaginn 4. desember. Heimsótti garðhýsið - kolonistugan - við Zinkensdam í björtu og setti á hita fyrir eigandann sem var væntanlegur á svæðið. Sjarmerandi með svona garðsvæði inni í miðri borg, örugglega fínn staður að búa á að sumarlagi.


Endurfundir og ættleiddur makki!

Tangovinurinn Ralph kom til Gautaborgar frá Munchen helgina 9. - 10. desember svo ég bjó til "jólaboð" með fiskisúpu og heimabökuðu brauði og fór í heimsóknir með Riku og Ralph; ekki bara á La Tardecita, síðdegismilonguna á Språkcaféet - þar sem ég komst að því að ég gat vel dansað á hælaháum skóm nonstop í klukkutíma og vel það við Ralph sem er kraftmikill dansari - en líka í sunnudagste til þriðja drengsins, Johans í gamla sjómannahverfinu Majorna. Johan Järlehed var tangókavaljérinn minn 2003 - 2004, áður en hann fann þýska kærustu á síðustu Carpe Diem hátíðinni í Skáni - sögulegur tveggjavikna sumartangó í ágúst 2004 - og flutti til Berlínar. Nú býr hann aftur hér, búinn að doktorera í spænsku í ár og eignast sitt fyrsta barn, Lonu Stellu, með yndislegu Charlottu sem er sálfræðingur og búin að læra sænsku á mettíma. Ég var vön að kalla þessa þrjá drengi lillpojken, storpojken og stora lillpojken, þeir eru á þeim aldri að geta verið synir mínir. Stundum ruglaðist ég í hver er minni en annar og þá tekur Charlotta snaggaraleg til í kollium á mér með sinni sálfræðilegu uppbyggingu. Við höfðum ekki hittst öll saman síðan hjá Ralph þegar hann bauð okkur Gautaborgarvinum sínum til Munchen í apríl 2005. Ég fékk að ættleiða gömlu fartölvu stóradrengsins, makkann hans Ralphs. Kemur sér vel, t.d. fyrir næsta sumar þegar ég verð í vinnudvöl í litlu rauðu húsi á Íslandi. Jamm nú ætti fartölvuleysi ekki að hindra mig í að sitja og vinna á fleiri völdum stöðum í heiminum, né heldur að fara að æfa mig sem tangó Dj! Skringilega tímafrekt að sortera tangótónlist, mér endist ekki þetta ár til að koma mínum diskum í aðgengilegt kerfi ...


Friday, December 28, 2007

Benazir Bhutto var myrt í gær


Heimur í sorg og Pakistan í kaos


http://www.timesonline.co.uk/tol/global/

http://www.dn.se/DNet/



*

Wednesday, December 26, 2007

Jólin 2007 við Rio de la Göta

Íslenski kórinn söng svo skemmtilega á jólatónleikum heilan hálftíma fyrir messu að ég gleymdi mér næstum í Frölunda kirkju að jólaguðþjónustu lokinni. Þökk veri hjálpsamri fjölskyldu á fjölskyldubíl komst ég heim í rokinu og rigningunni (aðeins rauða regnhlífin mín varð eftir) ... mátulega til að ná að snúa mér við og fara á jólatangó í gærkvöldi. Það var kvikmyndagerðamaðurinn Muhammed Ghamari forsprakki einnar Milongunnar í Gautaborg ásamt vinkonu sinni henni Rebekku lögfræðingi - sem auglýstu svo hressilega út frá þemanu glæpur og refsing, að ég beit á agnið. Auglýsingin var svona:
Brott: Frosseri, den sjätte synden med Straff: Tango på juldagen ...

= "Glæpur: Ofát, sjötta syndin ... Refsing: Tangó á jóladag. Ofát á aðfangadagskvöld er ekkert til að skammast sín fyrir Tangóleynifélagið býður uppá sálfræðilega úrvinnslu með Tangóleynifélaginu, Tango Secreto Storgatan 3, Göteborg".

(Þetta var rétt eins og hugsað út frá jólafrétt í Morgunblaðinu í dag um 100 manns í Danmörku sem át yfir sig og þurfti á sjúkrahúsaðstoð að halda og einhverja á Íslandi sem Slökkviliðið bjargaði víst á síðustu stundu.)


Ég fann sálfræðing á dansgólfinu og hann mig, þjáningabróðir í tangó sem ég tók eftir hér í borginni við Gautefur talsvert áður en argentínski tangóinn náði í skottið á okkur, eða fyrir rúmum tuttugu árum. Þá frægur fyrir að hafa ásamt félaga sínum stofnað fyrsta karlatahvarf borgarinnar og gott ef ekki í görvöllu konungsríkinu. Það var ætlað körlum í tilfinningalegri kreppu og ég ég tók heilmikið viðtal við talsmann kreppumiðstöðvarinnar fyrir Morgunblaðið. Á Milongunni sá ég líka litríkum geðlækni bregða fyrir ásamt litríkri eiginkonu sinni ... þótt það tíðkist ekki að spyrja fólk útúr um lífið utan Milongunnar, þá lærir maður með tímanum soldið á sitt heimafólk, nánast einsog óhjákvæmilega ... en sumsé vel mætt á þennan helgidansleik og ekki bara af nýbúum frá Argentínu Bandaríkjunum Bretlandi Íslandi og Arabíulöndum heldur líka innfæddum Svíum.

P.s. Dauðasyndirnar/erfðasyndirnar eru raunar skrítinn spuni: sjá vísindavefinn HÉR

Monday, December 24, 2007

Gleðileg Jól









Á myndinni er Partille kirkja, upphaflega byggð 17 hundruð og eitthvað ...




Gleðileg Jólahelgi til allra sem líta hér inn ... og líka þeirra sem ekki líta inn..
Myndaalbúm eru að spretta upp, velkomin að líta við:

http://picasaweb.google.com/kb.lyng

og útgáfuboggið er: http://lyngogtango.blogspot.com/

Raunverulegt heimilisfang: Hubertusvägen 3 A; 43333 Partille ; Sverige

Með hátíðarkveðju frá Kristínu kb.lyng@gmail.com

Saturday, December 22, 2007

Skammdegissögur, fyrsti hluti

Ætti ég nú að blogga í bloggátt eða vera trú Krónonsi gamla og segja frá krónólogiskt?
Bloggáttin er þegar atriðin eru rakin afturábak inn í fortíðina og má segja að það sé sama átt og dansátt sem er einatt rangsælis um dansgólfið þegar pörin dansa í hring. Svo er hægt að snúast í allar áttir í kringum hvort annað ...

Ég þarf að sættast við samvisku mína og slaka á tjáningatauginni með því að blogga nokkra hápunkta úr síðastliðnum mánuði. Samkvæmt bloggátt ætti ég að byrja á síðustu tangóhelgi fyrir jól: Tangomarathon á Grenibakka á Skáni Granbacken i Löberöd 14 - 16 desember. Þá kom Lára Valentino frá Íslandi og tók fullt af myndum sem hún sýnir HÉR. Ég sem hélt hún hefði dansað allan tíman. Á loftinu í Málmey miðaði hún svo á MIG!
Meðalaldurinn var kannski nær 30 en 60 og það fannst mér fínt meðan ég var á staðnum, en að sjá mig og örfáa aðra aldurshöfðingjana
á mynd svona eftir á fyllir mig aldursótta við fyrstu sýn, samt veit ég að ég verð aldrei eldri en mér fannst ég vera þegar ég varð fertug. Ég hélt ég hefði orðið níræð og rétt við það að steypast í gröfina.

Það þarf meira en tvo í tango skrifar Karin Thunberg í Sænska Dagblaðið þann áttunda des.


Önnur krukka og túnið sem hvarf

Nei annars, ég held ég byrji í hinn endann, þar sem frá var horfið síðast enda er ég mikið að spá í að kaupa mér aðra krukku og að þessu sinni mun ég setja einlita seríu í krukkuna, sú marglita er truflandi til lengdar hugsa ég svona rauð og blá og græn upp um alla gúmíplöntu sem sýnist þá of jólatrésleg til að hafa allt árið og ég vil hafa ljósin mín allt árið. Hinsvegar er það mér ráðgáta að ég skuli kaupa útiseríur til að hafa innandyra og það inní krukku a.m.k. að hluta til, eins og ég kunni ekki að lesa í búðinni eða ætli að leika útigangsmanneskju heimahjá mér en kannski verða allar krukkurnar uppseldar áður en ég ákveð mig og þá get ég hengt einlitu seríuna úti, ég hef aldrei hengt neitt svoleiðis á húsið mitt og nú er eins útiskrautið blómakassinn minn á svölunum hrokkinn uppaf.

Ég heyrði mikla skruðninga dag nokkurn í desember og þá var kraninn sem hefur verið að djöflast á túninu hjá mér undanfarnar vikur kominn í svalarkassann, lyfti honum upp og burt með skruðningum! Ekkert tún og engin svalarkassi. Ég öskraði og benti kranaköllunum með heyrnarskjólin að gjörasvovel og settja blómakassann minn við bæjardyrnar og þar fann ég hann svo mölbrotin, en með mold og eitthvað af dánum blómum. Ég er að hugsa um að biðja um skaðabætur. Já, ekki bara fyrir blómakassann og túnið sem hvarf heldur eiginlega fyrir að fá að búa hér. Soldið absúrd kannski! Ha? Maður er orðin svo háður því að ætla sér eitthvað (svo sænsk ætti ég kannski að segja), reikna með að rafmagnið virki, hitinn ljósin og talvan og vatnið, tevatnið tannburstavatnið baðvattnið og þvottahúsið. Þegar ég sé kolmórautt vatnslíki í baðkarinu verð ég móðguð og sár. Ekki nóg með að vatnið sé tekið af útaf breytingum heldur er það næstum svart þegar það kemur. Að bjóða manni í civiliseruðu þorpi að búa við svona vatn sem minnir á það sem silaðist stundum úr leiðslum frá dýinu í flóanum heima fyrir fimmtíu árum!

Eftir að ég missti túnið get ég bara skammast yfir smáatriðum eins og þegar gröfustrákarnir grafa óvart í sundur rafmagnsleiðslur og ég þarf á næsta bæ (= á Partille Bo skrifstofuna, þeim sem ég leigi hjá) til að þurrka dúnjakkann minn sem ég var að jólaþvo. Og þakkað fyrir að þurfa ekki svo mikið sem ýta á takka til að afþýða frystirinn, og fyrir að fá tækifæri til að nota ennisljósið sem ég er svo montin af að geta látið tolla á höfði mér yfir þriðja auganu og látið lýsa beint þaðan. Og fyrir hver vel ég hef sloppið við alvarlega hvirfilvinda jarðskjálfta, stríðástand eða skyndilegan heimilismissi af öðrum ástæðum fram að þessu.


En ég skildi ekki hvað var að gerast, skildi ekki teikninguna sem ég fékk senda með lýsingum á yfirvofandi framkvæmdum, ekki fyrr en daginn eftir að Mats kom í heimsókn í nóvember og spurði hvað ætti að fara að byggja á grasflötinni milli húsanna hér ... Byggja! það er ekki hægt að byggja hér, þetta er túnið mitt! Mikilvægur þáttur í mínu lífi með litlum trjálundi ...


Svo komu þeir með gröfurnar rifu allt, tré og gras allt sem er grænt. Það á að breytast í bílageymslu. Það kemur gerfigras á þakið er mér sagt. Það geta víst vaxið blóm á gerfigrasinu sagði mér stúlkan hjá Partille Bo. Megum við þá vera úti á þaki eins og í Buenos Aires? Nei, við vorum soldið að spá í það þegar við skipulögðum, en hættum við. Gerfigrasið verður mjög viðkvæmt alla sína tíð, verður að fá að vera í friði til að blóm geti vaxið ...