azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Friday, January 29, 2010

33.Kvikmyndahátíð Gautaborgar I


Hátíð í hálku



Í blossandi fögru föstudagsveðri byrjaði
Kvikmyndahátíð Gautaborgar nr.33 í dag. Snjóhvít jörð, bláhvítur himinn og sólin breiddi úr sér í roða sem sást ...

Þetta verður hál hátíð, hugsaði ég og rann í rykkjóttri fótskriðu í átt frá Drekanum, hátíðarbíóinu næst ánni. Það var síðdegis, meðan Drekinn var í óða önn að klæðast rauðu, all hlaðið dúkað rauðum mottum með rauðri kaðlagirðingu utanum.
Vonlaust að skáskjótast milli hálkublettanna, þeir eru allstaðar, en þó heppnaðist mér að komast milli staða, enda þegar búið að gera blaðamat úr hálkufórnarlambi, gamall maður með blátt andlit sást á forsíðu GautaborgarPóstsins í dag.

Á Riverton var fullt af þekktum andlitum í biðröð að ná í passana sína; Roy Andersson mættur til að halda vígsluræðu. Og íslendingar á leiðinni, veistu að Ásdís Thoroddsen kemur og ... og, segir mér Líf Úlfsdóttir, starfskona hátíðarinnar sem talar tandurhreina íslensku þótt hún hafi átt heima í Svíþjóð allt sitt líf.


Norræna kvikmyndakeppnin

Hátíðin var formlega sett á Drekanum kl. 17:30 og opnunarmyndin aldrei slíku vant gerð af heimamönnum hér í Gautlöndum vesturstrandarinnar: The Extraordinary life of José Conzalez, eftir Fredrik Egerstrand frá Allingssås og Mikel Cee Karlsson frá Varberg. Glæný heimildarmynd (Plattform Produktion 2010) sem fylgir tónlistarmanni eftir í 3 ár, José Conzalez, sem yfirgaf doktorsnám í raunvísindum til að helga sig tónlistarferli og heimsferðalögum. Myndin er ein af átta sem taka þátt í Norrænu kvikmyndakeppninni (100 þús. sænskar). Íranskfæddi Babak Najafi með myndina Sebbe, keppir einnig fyrir hönd Svíþjóðar; Michael Noer og Tobias Lindholm koma frá Danmörku með myndina R, og þaðan kemur einnig Nicolo Donato með Brotherhood (Broderskab), um ástir tveggja nýnasista; Zaida Bergroth frá Finnlandi með Last Cowboy Standing (Skavabölen pojat) um bræður sem gleyma sér í cowboyleikjum; Sara Johnsen kemur frá Noregi með Upperdog, um hálfsystkin sem voru ættleitt til Noregs, og önnur norsk mynd tekur þátt: The Angel eftir Margreth Olin, sem fjallar um konur, um að erfa tráma móður sinnar og bera það með sér. Frá Íslandi kemur svo Dagur Kári Pétursson (fæddur í Frakklandi!), með myndina The Good Heart, (íslensk dönsk þýsk framleiðsla) mynd um hin heimilislausa Lucas. Það mun vera fyrsta enskumælandi myndin eftir Dag Kára, og verður fróðlegt að fylgjast með úrslitum dómnefndar á laugardaginn eftir viku, því hingað til hefur Dagur Kári unnið þessa keppni þegar hann hefur tekið þátt, allt frá því hann kom í lopapeisunni sinni og tók á móti röð af verðlaunum fyrir Nóa Albínóa.

Íslenskar myndir og ný keppni

Aðrar myndir íslenskra kvikmyndagerðarmanna sem sýndar eru á hátíðinni eru Draumalandið /Dreamland, eftir Andra Snæ Magnason og Þorfinn Guðnason; Sólskinsdrengurinn/A Mother´s courage: Talking Back To Autism, heimildarmynd Friðrik Þórs Friðrikssonar og stuttmyndin Álagablettur/In the Crack of the Land eftirUnu Lorenzen, sem sýndar eru í deildinni Nordic Light. Auk þess keppir mynd Óskars Jónassonar Reykjavík - Rotterdam um ný norræn verðlaun - ásamt fjórum öðrum norrænum tónlistarmyndum - þ.e. Norrænu kvikmyndatónlistarverðlaunin. Mynd Óskars fer víða þessar vikurnar, um Bandaríkin og á Rotterdamhátíðina, eins og sjá má á heima síðu Kvikmyndamiðstöðvarinnar.

Auk þess notfæra íslendingar sér markaðsdeildina Nordic Film Market, til að kynna verk sín fyrir annað fólk í kvikmyndabransanum, framleiðendum og hátíðastjórum, dagana 4 - 7 febrúar. Á föstudaginn kemur er Valdís Óskarsdóttir meðal þeirra sem sýna Work in Progress ásamt Olafi De Fleur og laugardaginn 6. febrúar munu Ragnar Bragason og Hilmar Oddsson kynna myndir sínar á markaðinum.

(Sjá islandsblogg HÈR)

Í sextán sölum


Í 16 bíósölum fer hátíðin fram samtímis, í tíu daga eða frá 29.janúar til mánudagsins 8. febrúar, enda nokkur hundruð myndir (147) af ýmsum gerðum og stærðum sem þarf að sýna og það helst þrisvar hverja mynd.

Auk nefndra deilda er Afríka í fókus, ásamt myndröð undir samnefnaranum Forget Africa.

Beyond Bollywood er deildin með 6 indverskum myndum.

Heimildamyndir eru meira en 30 talsins og Gunter Wallraf walraffar í einni þeirra og mætir á hátíðina í eigin persónu.
Another View, er deild með 7 "öðruvísi" myndrænu og þar er Sally Potter stjarnan sem sækir Gautaborg heim, fræg fyrir Orlando og nú með Rage, um morðingja í tískusýningunni ... on the catwalk.

LGBT (HTB) er deildin með myndum sem vinna gegn hetronormatívum hefðum; First Cut er all stor deild með frumraunum kvikmyndagerðafólks víðsvegar að, að ógleymdum deildum meistara og stórmynda o.fl. o.fl.

Svo eru sænskar myndir af ýmsum gerðum sýndar í stórum stíl að vanda.

Frú Liljurót upptekin

Hér áður fyrr var hefð að menntamálaráðherra mætti á fyrsta degi og héldi vígsluræðu, en eftir að frú Liljurót tók við embættinu hefur það breyst. Hún er upptekin við annað ár eftir ár eða bara í fríi í útlöndum og vill sem minnst tjá sig um kvikmyndir.

Svo leikstjórinn Roy Andersson, heiðursforseti hátíðarinnar setti hátíðina, og listræni stjórnandinn Marit Kapla kynnti aðaþemahátíðarinnar "Sharing" í ræðu sem hún deildi með einni af sínum nánustu samstarfsmanneskjum.

Og í samræmi við þemað hef ég hugsað mér að reyna að deila með mér a.m.k. hér á bláa blogginu, af því helsta sem ég verð vitni að á hátíðinni.

Tuesday, January 19, 2010


Aftur í Gautaborg eftir ljúfa daga í Kaupmannahöfn. Fór þangað miðvikudaginn 13. janúar og kom tilbaka um helgina. Kom mátulega til að fara á nýopnaða milongu, Milonguita á Frederiksbergs Allé, með oppnunarsjermoníu og tveim gítarleikurum á miðvikudagskvöldið. Fann svo nýja frændann minn mánuðargamlan Aldísar- og Sigurjónsson í hádegissól fimmtudagsins sem lauk með fínindis boði hjá Helgu Hjörvar á Vesterbrogade.


Frá Badgad til Verdens Mindste Teater

Bjó hjá Marianne Larsen sem í desember kvaðst vera á leið til Túnis. En þangað lá víst aldrei leiðin, heldur til Írak. Níu manna leiðangur, dönsk skáld og tvær söngkonur í boði menntamálaráðuneytisins í Bagdad. Tveggja vikna ferð, með uppákomum í Bagdad og líka hjá kúrdum. Þegar hrottahljóð frá einni verstu sjálfsmorðssprengju ársins barst til þeirra þar sem þau stóðu fyrir utan hótelið, þá kom loks sú skýring að þetta væri líklega æfing. Fyrst daginn eftir fengu þau fréttirnar, minnst 100 manns látnir og um 800 særðir. Þau voru einu gestirnir á 18 hæða hóteli í Bagdad. Í Information birtist síðan fróðleg ferðasaga í fjórum þáttum eftir Kristen Bjørnkjær.

1Kalashnikov-geværer vogtede danske kunstnere

2 De magiske johannesbrød

3. Så tog vi til Babylon

4. Han takkede for tårerne


Föstudaginn 15.jan komst ég í Verdens Mindste Teater í Kongens have í fyrsta sinn. Leikhús með sæti fyrir fimmtán áhorfendur. Það var Marianne sem dreif mig í leikhús aldrei slíku vant, því verkið var byggt á ljóðum hennar og hét í höfuðið á ljóðabókinni Chance for at danse.
Það var Ulla Koppel sem stóð fyrir ljóðavali og leikstjórn. Á sviðinu ballerínan og leikkonan Maria Savery og Fiðluleikarinn Tanja Birkelund Savarey. Í þessum þrönga ramma sem veggirnir mynduðu reyndist agaåur tåspidsballet óstjórnlega viðeigandi og alveg spes heillandi að upplifa klassiskt skólaðan balletdansara fara með texta. Ljóð Mariönnu eru ekki endilega heimsins leikrænustu, en þessi dansandi María náði að gefa þeim það rými sem þau þurftu, í samleik við fiðluna. Magnaðar 45 mínútur í Heimsins minnsta leikhúsi.

sýningar 6. til 26.jan 2010 sjá HÉR


Frá Piso Nuevo til Alejandro Ziegler Cuarteto

Loksins lét ég verða af því að heimsækja milonguna Piso Nuevo sem er haldin annað hvert föstudagskvöld á Vesterbrogade. Æskilegt að mæta í góðu formi á staðinn þann! Mikið fjör og mörg löng spor : ).

Morgunnkaffi á mánudegi með eiginmanni nr. eitt nýkomnum frá Madrid. Svo lestin til baka og leshringsfundur á sunnudegi.

Í gærkvöldi hélt tangósalíbunan áfram, því hingað til Gautaborgar komu góðir gestir: Alejandro Ziegler Cuarteto frá Buenos Aires á ferð sinni um Svíþjóð Evrópu. Mánudagsmilonga með livemusik á Oceanen sumsé.


Saturday, January 09, 2010

Húnversk gáta:

Mamma saumaði á okkur rokkbuxur úr svörtu kakíi, með hvítum tvöföldum saumum, krossinn yfir rassvasann á sínum stað og væru þær ekki akkúrat eins og út úr búð þá klagaði ég.

Í útvarpinu var Elvis af og til og á einn bæinn kom vetrarmaður sem rokkaði. En hvaðan komu myndirnar? Þessar fínu glansmyndir á stærð við eldspítnastokk, innrammaðar með hvítri rönd. Leikaramyndir og Elvismyndir, hvernig komust þær til okkar í sveitina, í hveitipokunum kannski? man einhver það???

Hann á afmæli í dag.

sagan um saab

Einu sinni var sænskt bílafyrirtæki sem hét Saab og framleiddi allskonar bíla sem áttu það sameiginlegt að heita Saab og líka eitthvað af flugvélum til að fara í stríð. Þær hétu ýmist Saab 39 Gripen sem þýðir dreki eða JAS sem þýðir veiði árásar og leitunar eða njósna vél.

Í tíu ár átti ég vænglausan lúxus Saab 99 frá 1978 með rammagnsspeglum og öllu og keyrði hann eiginlega upp til agna. Króatinn sem var vanur að logsjóða hann fyrir skoðun neitaði að sjóða meira. Hann varð að varahlutum vorið 2006.

Svo varð Saab amerískt fyrirtæki og nú er bæði verið að selja það og leggja niður. Þannig hljóma fréttirnar.




Friday, January 08, 2010

Frost og fegurð


Frost og fegurð, bara frost og fegurð. Minnst 10 til 15 stiga frost í Gautlöndum allan sólarhringinn - 30 i Härjedalen - og snjórinn bætti við sig um þrettándann.


Er að spá í að Lindy hoppa í ár. Ekki vestur yfir Atlandshafið í Obamaheimsókn heldur hér á staðnum. Loksins búin að fatta að Svíar eiga heiðurinn að endurnýjun dansins í Evrópu síðan uppúr 1980 og eiga fullt af skemmtilegum dönsurum. Stefna svo hoppurum heimsins saman á hverju sumri með mánuðar stanslausri lindyhopphátíð í júlí hvert sumar í Herräng. Og á Íslandi er fólk líka komið í hoppham, það frétti ég raunar í tangópartíi í Uppsala fyrir jól af indverskum íslandsfara ... sjá: http://www.lindyravers.com/

Fór í minn fyrsta tíma í Balboa í vikunni. Dropp in. Furðulegur dans. Getur verið magnaður þegar fólk eins og líður yfir gólfið, og líka undur hallærislegur að horfa á. Sé að dansinn hefur breyst á síðustu þrem árum frá því ég horfði fyrst á hann á netinu ... nú er farið að opna og hoppa útum allt líka í Balboa!!

Kannski ekki minn dans þrátt fyrir allt. Frekar Buggie Wuggie, það passar við Elvisrokkið og minnir á Húnverska tjúttið í den.

Eftir að forseti Íslands ORG beitti neitunarvaldi sínu í vikunni, hafnaði því að skrifa undir Icsave 2 samninginn - enda hefði hann annars trúlega neyðst til að segja af sér - les ég helst skemmtisögur af músagangi á Álftanesi ...



Monday, January 04, 2010

Ég hef allt


Ég lifi í lúxus. Borða Litchie og aðra exótíska ávexti bæði Rambutan
og Mangostan. Fæst í Ica Maxi núna. Ótrúlegt. Horfi á snóinn þekja bílana í götunni
líka veginn húsin og klettahlíðina að hluta.


Ég hef allt. Læk til að hlusta á tifa milli frostklæddra bakka,
fætur til að færa sjálfa mig til og frá, stækkunargler til að komast inní Bænahús Ellu Stínu
og sjónvarp sem virkar enn tuttugu árum eftir að ég keypti það notað.
Hef meira að segja pínulittla myndavél sem getur búið til pínulittla vídíómynd.

Svo littla að hún vill ekki kópíerast hér.

Ég hef allt.
Því þegar ég fór að kaupa í matinn læddust The Essential Elvis
og The Essential Janis Joplin oní innkaupakörfuna. Þau fylgdu mér heim, settust á CDspilarann - því eigi maður allt þá á maður CDspilara - og við rokkum allan sólarhringinn einsog Birgir vetrarmaður og Inga eða Gyða væru mætt í tjútti frá nítjánhundruð fimmtíu og sjö. Jailhouse Rock. Don´t be Cruel, Hard Headed Woman, All Shook Up, Hound Dog ...

Svo er ég líka með Savannatríóið, 70 lög til að muna með.

Hef allt.

Sunday, January 03, 2010

árið sem leið - fjórði hluti - nóvember 09


Nýir staðir í Nóvember


Um mánuðarmótin október - nóvember dreif ég mig til Stockhólms, ekki síst til að sjá Flicka i gul regnjacka sem Jon Fosse skrifaði fyrir Dramaten og Stina Ekblad fór með eitt af hlutverkunum sex. Ljóðrænt verk um að vera hér. Lengi. Um að biðja einhvern að koma. Um að fara héðan.

Þá bjó ég hjá doktor Friðrik á Frejgötu sem eldaði pumpusúpu og slóg upp veislu áður en við skelltum okkur á maraþonmilongu á Skeppsholmen. Daginn eftir var ég logandi hrædd um að sofna á sunnudagssýningu á Dramaten, en ég sofnaði ekki. Sýningunni tókst að magna upp hinn absúrd einfalda Fossetexta í sínum tilvistarlegu spurningum sem vel hefðu getað dottið dauðar um sig sjálfar, en sem allir leikararnir kunnu að gefa dýpt. Hvert augnablik varð spennandi och þéttriðað í einfaldleika sínum og hélt mér vakandi. Á eftir settumst við Stina á veitingahúsið bakvið og ég pantaði veitingahússpumpusúpu sem tapaði í gæðakeppni við súpuna hans Friðriks. Enn einn merkisstaður sem ég heimsótti í fyrsta sinn í ár var Uppsala. Þangað dreif ég mig með lest i kalsanum mánudaginn 2. nóvember eftir miklar vangaveltur fyrir framan miðasjálfsala. Kom í björtu og gekk rakleitt uppað rósrauðu Slottinu og síðan að bókasafninu fræga Carolina Rediviva með Silfurbiblíu frá sjöttu öld og uppsala-eddu (með Snorra Eddu)ásamt öðrum handritagersemum. Skoðaði hina merku Dómkirkju og náði að líta við á tónleikum í hátíðasal háskólans rétt fyrir lokun. Leitaði svo uppi mánudagstangóinn á Grand hjá Cambalache, elsta tangófélagi landsins, 20 ára í vor sem leið. Aðlaðandi og krúttlegur bær með aðalatriðin nálægt hvort öðru þann daginn. Og kvöldið reyndist mér eitt af ársins bestu danskvöldum. Dr. félagi Friðrik kom á rauða sportbílnum sínum og dansaði, síðan var bara að setjast uppí og líða aftur til höfðuborgarinnar sem farþegi í dansvímu. Hinsvegar láðist mér að kynna bókina mína sem skyldi og ég lofaði mér endurkomu á staðinn. Þriðjudaginn 3 nóvember dreif Stina mig svo með sér út á Valdemarsudde, á Djurgården sem ég hafði aldrei heimsótt í björtu og ekki fattað að væri eyja. Land og Folk hét finsk myndlistasýning sem við einbeittum okkur að obban úr síðdeginu, fórum síðan hratt í gegnum sali með sýningu á skrugguflottum verkum eftir Carl Wilhemsson sem lýsir oft vesturströnd Svíþjóðar í sínum myndum. Við gengum um í föllnu laufskrúði og úr varð fallegur haustdagur. Hjá Stina endaði dagurinn með tvennum tónleikum þar sem hún flutti texta, en hjá mér uppí sóffa á Söder hjá Mats sem eldaði ljúffengan lax í kókosmjólk með karrí og koriander.

Gaman í Gautaborg

I Gautaborg var hin svonefnda Planetafestival í fullum gangi (4-8 nóv) þegar ég kom til baka, hátíð með worldmusik og worlddans, fullt af sýningum þar sem verið er að búa til sviðslist og listdans úr ýmiskonar menningararfi, dönsum sem venjulegt fólk hefur haldið lifandi ... allt frá Hallingedans til indísk bharat natyam og argentínsks tangó. Gæti minnt á Þjóðlagahátíð Siglufjarðar með fjölbreyttni og workshops í öllu hugsanlegu og óhugsanlegu. Laugardaginn 7. nóv sá ég síðdegissýningu samansetta úr ýmsum styttri dansatriðum, þar á meðal nútímadansspuna byggðan á tangó tveggja meðlima í Pares Sueltos Dance Company í Buenos Aires, Karina Colmeiro og Raul Masciocchi. Þau voru góð. Mjög góð. Hafði séð þau dansa tiltölulega venjulegan sýningardans á dansgólfi, fyrir tangódansara kvöldið áður og þar naut Raul sín hvað best. Þegar á sviðið var komið brá svo við að Karina gaf hverju augnabliki merkingu frá fyrstu stundu og eins og lengdist um helming í öllum sínum línum. Magnaður dans líka i samspilinu.

Í október og nóvember spunnust deilur á Tangoportalen um tangó sem sviðsdans og sýningardans o.s.frv. útaf sýningunni aRealedades í Stockhólmi og þá gat ég ekki orða bundist og áður en yfir lauk kom Paras Sueltos líka til umræðu. Um þetta skapaðis þráður (á sænsku) sem má skoða HÉR
*

Mánudaginn 9 nóvember rættist draumur minn um að troða upp með Livet Nord sem undirleikara. Hún er frábær fiðluleikari, heitir þessu stórkostlega einfalda nafni Lífið Norður og leikur meðal annars með The New Tangoorquesta, Gautaborgarhljómsveit sem leikur konsertmúsik. Café Chao á Oceanen við Stigbergstorgið var staðurinn og tilefnið "äntligen måndag". Hin syngjandi Anna Heikkinen kynnti okkur Lífið og mig klukkan fimm til þess síðan að troða upp klukkan sjö ásamt gítaristanum Emil Pernblad. Ekki lengi gert að búa til skemmtilega fléttu með tónlist ljóðum og söng og það sem meira var, okkur tókst býsna vel að standa við ákvarðanirnar þegar á sviðið var komið.

Mynd: Livet, Kristín og Per á Café Chao






*
Ný tegund af verkefni sem mér var falið þessa önn, var að vera tangómodel fyrir listafólk, ásamt tangóvininum meistara Mikael. Snérumst smá og frusum helst í þrjár mínútur í hverri stöðu. Í þrjár klukkustundir, og árangurinn jafn ólíkur og listafólkið.


Allt annað líf

Laugardaginn 14. nóvember var svo komið að því sem ég hafði eytt dágóðum tíma í að undirbúa, bæði beint og óbeint, myndasýningu og frásögn um Kambódíuævintýrið fyrir íslenska söfnuðinn í safnaðarheimilinu í Frölunda. Fræðslustund undir titlinum var Allt annað líf, og ég komst ekki mikið meira en hálfa leið gegnum efnið og myndirnar (enda komin með 100 í seríuna mína í stað 30 sem mér skilst að alvöru fyrirlesurum þykir passlegt á einum tíma). Ég blaðraði og bar saman líkt og ólíkt með íslendingum og kambódíufólki, fjallajeppum og draugum, sýndi myndir frá konunglegum listdansi og börnum ruslahauganna. Svo var tíminn úti og stungið upp á framhaldi "næsta ár". Þetta var skemmtileg reynsla, því ég hef ekki áður reynt að segja myndasögu fyrir nema einn eða tvo í senn, en þarna voru frábærir hlustendur svo ég naut þess að segja frá og semsagt ekki alveg óundirbúin, hef haldið áfram að lesa um Kambódíu og eftir kambódíska höfunda m.a. bækurnar tvær sem Loun Ung hefur skrifað (sú fyrri er til á íslensku: Ógnir minninganna) og myndlistamaðurinn Vann Nath um napra reynslu á árum rauðu khmeranna 1975 tl 1979.

*
Þann 16. nóvember á degi íslenskrar tungu kom tónskáld ofan af Íslandi mér á óvart með hádegisverðarboði í Gautaborg, og það í annað sinn á árinu. Þá er ónefnd ein mikilvæg heimsókn haustsins, þegar hinn dansandi Ralph kom fljúgandi frá Munchen; kom dansaði og flaug burt á sunnudagsmorgni meðan haustsólin glampaði.
*
Föstudaginn 20 nóvember tók ég þátt í Författardagen á Borgarbókasafni Gautaborgar, heill dagur fyrir kennara og bókasafnsfólk þar sem við vorum minnst 12 höfundar með nýútkomnar bækur að kynna sig og lesa upp. Heilmillill heiður að því og gaman að hitta höfunda sem ég hef ekki kynnst áður, til dæmir Katja Timgren frá Västerbotten, höfundur bókarinnar Ingenting har hänt; Tomas Andersson fornleifafræðing, blaðamann og rithöfund sem skrifar ferðasögur, líka sem smásögur (Horisonter 1996) og sem dansaði á Lázár dansskola í Gautaborg sem unglingur, æfði og keppti með Cecili Lázár (!) og var einn aðalstofnandi Krokstrandsfestivalen !!! Líka ljúft að borða hátdegismat á spurningarmerkinu (Frðgotecknet) með skáldinu Kennet Klemets og "folkbildaren" og rithöfundinum Stewe Claeson (f. 1942) sem kenndi lengi við Norræna Lýðháskólan í Kungelv og stofnaði síðan rithöfundalínuna við Gautaborgarháskóla, Litterär gestaltning.




árið sem leið - þriðji hluti - dans- og leiklistarhaust i Gbg


Listdans og leikhúsferðir haustsins


Óperan byrjaði leikárið með stórmerkilegri uppákomu, Dansgala 29 og 30 ágúst. Nýjung í Gautaborg sem balletstjórinn Johannes Öhman tóku uppá núna eftir tvö ár í stöðunni.

Þar var voru á sviðinu allt frá nemendum við Svenska Balettskolan í Gautaborg, konunglegum hirðdönsurum höfuðborgarinnar (Jan-Erik Wikström og Marie Lindqvist) og brotum frá heimsins besta núlifandi listdansi ... til Street, Hipp hopp og House.

Þegar David Hallberg og Gillian Murphy frá American Ballet Theatre léku sér að þriðja þætti Svanavatnsins, pas de deux, átti ég fullt í fangi með að trúa eigin augum. Hæfni þeirra einsog skákaði öllum náttúrulögmálum, hóf sig yfir þau. Michail Barysjnikov var listrænn stjórnandi við þennan Metropolitanballet í New York í tíu ár (1980 - 1990) og lagði áherslu á klassískan ballet. Í dag heitir stjórnandinn Kevin Mckenzie. Tveir yngri sólódansarar frá sama dansflokki dönsuðu brot úr Don Quixote, Daniill Simkin og Sarah Lane, fínir dansarar en nánast jarðnesk miðað við fyrrnefnda parið í meira en hundrað ára gömlu vatni.

Konunglegi balletinn sænski er með þeim eldri í heiminum stofnaður av Gustav III árið 1773 og í dag stærsti listdansflokkur Svíþjóðar með sína 73 dansara. Gautaborgarballetinn - þ.e. GöteborgsOperans Balett - getur aðeins rakið sögu sína til ársins 1920 en hreykir sér hinsvegar af að vera stærsti norræni nútíma dansflokkurinn með um 40 dansara. Ef til vill breyttist hann þó í nútíma dansflokk fyrst með Ulf Gadd (listrænn stjórnandi frá 1976) sem skapaði nýja tegund av dansleikhúsi með eigin sýningum eins og TangoBuenos Aires 1907. Framlag heimadansflokksins á Galakvöldinu var brot úr Black Biist eftir Wim Vandekeybus með Hlín Hjálmarsdóttur sem einn af tveimur gestadönsurum.

Sjö manna Sænski Street dance flokkurinn BounchE jók vinsælir sínar í sumar sem leið með heiðursdansi til Michael Jackson, þegar flokkurinn safnaði saman yfir 300 dönsurum á Sergels torg í Stockhólmi sem á gefnu augnabliki tóku að dansa kóreografíuna við MJ músikvídíó "Beat it". BounchE vantaði ekki á svið Óperunnar þetta kvöld ... og dansflokkurinn Twisted Feet fékk líka að láta ljós sitt skína að ógleymdum Gulbergballetinum og meisturum frá Nederlands Dans Theater sem sem dönsuðu atriði úr verki eftir Jirí Kylián 27´52.
(Sjá grein um þann síðastnefnda Hér)

Jonas Gardell var kynnir en ég missti af honum því hann missti af generalprufunni og hans eigið blogg er hér.

*

11. október fór ég svo á danssýningu haustsins í Gautaborgaróperunni og var yfir mig ánægð með Gautaborgarballettinn. Sá þrjú frábær verk með minnið sem þema, hvernig líkaminn man, eftir þrjá ólíka danshöfunda: Emty House eftir Johan Inger, Your Passion is pure joy to me e. Stijn Celis og Slope e. Cristina Caprioli. Samnefnari In memoriam. Síðasta verkið fjallaði um okkar óhjákvæmilega hverfulleika.

*

Seint í október kom Mats Persson til Gautaborgar og þann 27. fórum við á sýningu hjá Backa teatern, Gansters of Gothenburg, sem fékk undurgóðadóma bæði hér og hjá gagnrýnendum höfuðborgarinnar. Og vissulega var sýningin áhugaverð, bæði efnislega og leikhúslega, einkendist af lipurð og látleysi og gaf samtímis nærverutilfinningu eða intimitet sem var mögnuð í stórum sal! Ekkert af hávaðahryllingi sem einkenndi uppsettninguna á leikverkinu Vi som är hundra, eftir Jonas Hassen Khemiri sem ég sá í Borgarleikhúsinu í haust þ.e. Göteborgs Stadsteater. Það leikhús hélt uppá 75 ára afmæli sitt í september en hvíslar því stöðugt að manni að það sé í rauninni elsta borgarleikhús landsins 91 því árið 1918 var AB Göteborgs Teater stofnað, og falið að "vårda och trygga den dramatiska konsten", en núverandi bygging við Götaplatsen var fyrst tilbúin 1934. Leikhúsið sem varð þekkt fyrir dirfsku í leikritavali á fimmta áratugnum, dirfsku sem ekki tíðkaðist í leikhúsum höfuðborgarinnar. Síðan 2006 er Anna Takanen listrænn stjórnandi og leikhúsið fær athygli fyrir nýsköpun þessi misserin, rétt eins og þegar Jasenko Selimovic lyfti því í hæðir bæði í aðsókn og virðingu leikússheimsins. Og hvað hefur þessi leikhússaga svo með mitt líf að gera? Kanski soldið fjarlæg saga, en þegar ég kom til Svíþjóðar seint síðla ársins 1985, var Birgitta Palme (1940 - 2000) leikhússtjóri. Hún dreif mig strax í vinnu og meðan hennar naut við fannst mér ég hálfpartin eiga heima í leikhúsinu við Gautatorgið með Póseidon í góðri stöðu á torginu.


árið sem leið - annar hluti - september 09


September - ævintýri á bókastefnu

Ég hélt áfram á tangónámskeiðum á haustönn og var heppin með dansfélaga ...

Í septemberlok þegar kom að Bókastefnunni í Gautaborg var ég auk þess svo heppin að fá gistigest, tangóvin á rauðum sportbíl frá Stockhólmi, sem bæði þurfti á stefnuna og í tangó, þannig að við áttum stanslaust samleið hvort sem það var á bókasýningarsvæðinu, skáldapartý hjá Lina Ekdahl eða á milongur. Og þegar okkur láðist að kaupa blóm handa gestgjöfum lét minn sig ekki um muna að skilja eftir áritað eintak af eigin doktorsritgerð, Frågan efter livets mening, frá því fyrr á þessum áratug (um þekkingu og list í Nietzsches tänkande).

Ein aðalstjarna stefnunnar þetta haust var Isabel Allende og ég varð vitni að biðröðunum sem hringuðu sig bæði við fyrirlestrasalinn og klukkustund síðar að áletrunarborðinu. Og það sem meira var, ég náði mér í viðunandi sæti í miðjum konferenssal og hlustaði á hana skemmta í þrjá stundarfjórðunga. Ég var ekki blaðamaður í ár (enda Davíð að taka við Mogganum um þetta leiti) var með rithöfundapassa, keyptan á vægu verði og eina skráða minnisatriði sem ég finn hjá mér er eftirfarandi:

Þann 8. janúar byrjar Isabel Allende að skrifa næstu bók. Því lofaði hún á Bókamessunni í gær, laugardag, segir mikilvægt fyrir sig að hafa dagsetningu, skipuleggja þannig hún geti einbeitt sér og látið skrifin ganga fyrir í amk þjá mánuði,engin ferðalög fá þá að trufla, ekkert fær að vera mikilvægara en frásögnin sem er að mótast, með 10 - 14 tíma einbeittri vinnu á dag.

Þóttist góð að ná mynd um hábjartan dag, af sjötugri stjörnu sem ekki á að vera hægt að mynda í dagsljósi.

Seinna sama laugardag var komið að mér að lesa upp smástund á sjálfu sýningarsvæðinu hjá Författarcentrum, nokkuð sem ég hef alltaf vorkennt höfundum að þurfa að spana sig uppí með allan hugsanlegan is og þys og skarkalahljóð í kringum sig. En þetta tókst og hlustendum tókst að einbeita sér. Nóttina áður, þegar Dr. Friðrik tangóvinur reyndi að fá mig til að lesa með stockholmsmelódíu (sem ekki gekk), uppgötvaðist eina prentvillan sem ég veit um í bókinni: kór hafði í staðinn orðið kýr á sænskunni (kor i stað kör).

*

Heill hópur menningarvita frá Kambódíu kom til Svíþjóðar um þetta leiti í ólíkum erindagjörðum, m.a. gestgjafi okkar frá í sumar Kho Tararith ásamt vini sínum og skáldi. Einnig fjórmenningar í boði Alþjóðlega Bókasafnsins í Stokhólmi. Þeirra á meðal var Pich Proeung, útgefandi barnabóka í Phnom Penh, en hún tók á móti sænskum eldsálarverðlaunum "eldsjälspriset" á Bókastefnunni. Myndlistarkennari frá Reyum institut Khun Sovanrith var með í för og einnig Ceam Duong Chay skólastjóri Sala Sothearos, barnaskóla í Phnom Penh, ásamt bókasafnsverði frá sama skóla, Kep Chhoeun. Allt fólk sem hefur haft samvinnu við norræna rithöfunda í Phnom Penh.


Til Mariannelund og Vimmerby

Strax í vikunni eftir þáði ég boð um að slást i för með fjórmenningunum ásamt fararstjóra þeirra og túlk, Önnu Mattson, inn í Smálönd og koma fram á ljóðakvöldi 29.september á kaffi kaim í Mariannelund (kaim er skamstöfun á Kultur akademían í Mariannelund). Anna Mellergård stóð fyrir boðinu - hýsti okkur öll í stöðvarhúsinu sem hún keypti til að búa til menningarmiðstöð fyrir listafólk með kaffistofu á jarðhæð - en hún er einn stofnandi akademíunnar á líka sæti í stjórn menningarfélagsins Litteratursamfundet Kambodja. Eftir ljóðakvöldið kom dagur í Vimmerby með heimsókn í Näs, bernskuheimili Astrid Lindgren, og á bæina í kring. Í Nesi er búið að byggja menningarsetur með uppákomum til heiðurs sagnasnillingnum (Sveriges Sagotant) og 2007 var opnuð sýning um æfistarf hennar í myndum og máli.

Í fyrirlestrarsal staðarins var svo haldin kvölddagskrá þar sem Anna Mattsson sagði frá barnabókaútgáfu í Kambódíu og viðbrögðum barna og fullorðna við Línu Langsokk sem hún þýddi yfir á Khmer (í samvinnu við innlenda)og sem kom út fyrir rúmu ári. Og fjórmenningarnir gerðu grein fyrir sínum störfum, hver fyrir sig.

Þetta var mín fyrsta heimsókn í Vimmerby. I Astrids sagovärld sá ég hestinn sem Lína Langsokkur lyfti og settist á rúmið hennar. Torgið þar er eins og torgið í Vimmerby bara minna, flest húsin rétt mannhæðarhá.

Fallegir haustdagar og öll komumst við í smálensku blöðin bæði Smålandstidningen (30. sept. 2009) og i Vimmerby Tidning. Og svo skoðuðum við Mariannelunds Karamellkokeri, myndlistasýningu og sáum elsta kvikmyndahús landsins ...