azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, July 30, 2007

Æviágrip 12 - til Kafkanistan


Fræðilegir tímar voru fáir, áherslan lá á dansi og söng auk ýmiskonar sviðstækni fremur en analýsu enda var markmiðið að þjálfa leikara tilbúna fyrir söngleiki.

Einusinni í viku var setið við borð í kyrrlátu aflöngu hornherbergi á annari hæð við hlið æfingasalanna og rætt um leiklistarsöguna og strauma og stefnur í leiklist nútímans. Lene og Hans sem höfðu lesið dramatúrgíu saman við háskólann í Árósum og lögðu alltaf eitthvað til málanna töluðu um leikhúshugsuði eins og Meyerhold, Jan Kott, Grotowski, Peter Brook og fleiri líkt og þeir væru góðkunningjar sem þau hittu annað slagið.

- Kott lítur á leikhúsið sem aðferð til að takast á við lífið, eitthvað annað og meira en listgrein sagði Lene og Hans kom strax með snjallar tengingar í fátæka leikhúsið hans Grotowskis í Póllandi, vitnaði í verk hans Towards a Poor Theater frá 1968 sem áður en yfir lauk var gert ráð fyrir að við læsum rétt eins og The Empty Space eftir Brook (frá1969) enda enn nýjabrum af þeim bókum.


Kennarinn sat oftast vi innri enda borðsins og þá með síðustu kvöldmáltíðina yfir höfði sér, listaverkið fræga stór innrömmuð mynd af því. Við vorum látin lesa dramatíkina í myndinni afstöðuna manna milli, hvaða postuli hallast hingað og hver þangað og hverskonar klíkuskapur er eiginlega í gangi! Við fengum ábendingar um lestrarefni út frá eilífðarspurningunni hvað er leikhús en ég man ekki beinlínis eftir neinni skyldulesningu. Stundum fengum við þó heimaverkefni og einhverju sinni var heimaverkefnið að velja hver sinn texta til að segja frá, verk sem hafði haft persónuleg áhrif á okkur og sem við tengdum tilveru okkar og því ... að við völdum leiklist.

*

Ég fékk panik þar til ég fann Hamskiftin á dönsku á bæjarbókasafninu. Hvort ég hafði lesið þýðingu Hannesar Péturssonar eða var að lesa þessa stórkostlegu nóvellu eftir þýskumælandi Franz Kafka í fyrsta sinn á dönsku veit ég ekki, veit bara að ég var uppnumin og fannst höfundurinn þekkja mig út og inn. Það var óhugnanlegt í sjálfu sér og ég fékk nýja panik yfir hvernig ég ætti að kynna þetta verk og tengja það sjálfri mér fyrir framan mín mælsku skólasystkini og kennara. Hvað var hægt að segja. Maðurinn breytist. Og búið. Mér datt ekkert í hug.


Ég beið þar til hin voru búin að kynna sín verk, Kóng Ubu eftir Alfred Jarry; Aldous Huxleys Brave New World og fleira sem ég fékk á tilfinninguna að allir hefðu lesið nema ég. Leikritið Ubu varð uppspretta samtals um hið absúrda í lífi og listum. Í svoleiðis samtalsheimi var ég lost og þráði það sem ég með sjálfri mér kallaði “hið absoluta” og kom bara þegar ég lét mig hverfa inn í texta á sviðinu þar sem sorg varð höll. Eða þegar ég horfði á stjörnurnar með Kirkegaard í huga og eilífðina í augnablikinu.

*

Jannie sem kom einatt með leikandi óvænta vinkla á tilveruna laus við akademísk hugtök gæti hafa samið sitt verk á staðnum kannski var það draumur sem hún svo rammaði inn hún var svo fljúgandi frumleg. Lene kom með Jordisk Lykke eftir kínverska höfundinn Lin Yutang, minnst fjögurhundruð síðna doðrant um að vera manneskja og kunna að njóta þess! Um táknrænu pílviðarins, bambustrjánna og plómutrésins ...

“Bambustræet beundres særlig for sin fine stamme og for sine fine blade, og da det er et mere sart væsen, trives glæden over det også allerbedst i den mere tvangfri og intime atmosfære, der råder i den lærdes hjem. Dets skønhed er mere typen på en smilende skønhed og den lykkefølelse det skænker os er mild og ...”

*

Ég fékk enn smá frest meðan Lena sagði frá og las upphátt smákafla. Allir sammála um að bókin væri dæmigerð fyrir hvernig Lene var inréttuð, afstöðu hennar til lífsins og lukkunnar. Bókin sem var andskynsemiseitthvað gaf ekki bara grænt ljós á tré og nautnaefni nátturunnar svo sem te og reykelsi heldur líka tóbak og vín og það kunnu félagar mínir flestir að meta, ég átti hinsvegar enn eftir að læra slíkt og varð minni og minni eftir því sem leið á tímann og meira og meira kvikindisleg einhvernvegin eftir því semég hugsaði meira um nóvelluna sem ókunnur beinaber og heillandi þjáningabróðir hafði skrifað um Gregor Samsa og ef ég segði frá honum þá kæmi ég upp um mig og hann líka og ef ég já sérstaklega ef ég segði ekki neitt og ef þau höfðu nú ekki einu sinni heyrt um þennan tjekkóslóvakíska höfund sem var fyrst gefinn út að honum látunum og sem ég hafði fundið fyrir tilviljun eða ekki ... ég skammaðist mín fyrir þessa skelfilegu umbreytingasögu sem ég vildi óska að ég hefði ekki hrifist svona af þetta var neyðarlegt ég var í huganum skríðandi undir borðinu og kannski í alvörunni líka hver veit enginn tók eftir því þvílík heppni ég er svo heppin í mínu lífi svo óstjórnlega heppin að ég hef aldrei vitað annað eins nema í sögum ég þoli eiginlega hvað sem er get næstum dáið og lifnað strax aftur bara meðþví að breyta mér það er málið og ég þarf velja texta til lifa eftir ...

*

- ÉG held ég skilji þig, sagði kennarinn. – Hvad beha? Ég var orðin pödduþykk með skél sem hefði þurft að mölva til að komast að mér líkari risaskjaldböku en járnsmiði eða bjöllutegund ég var misheppnuð útgáfa vildi fá að sofa í friði allan veturinn eins og skjaldbökurnar hans Ragga kennara á Reykjaskóla en skelin var svo þykk og hörð að ég gat ekki sofnað ...

- Ég held ég skilji hvað þú ert að fara.

Hann hét Anker (= Akkeri) og ég vissi ekki hvað það var sem hann skildi en hann gerði einhverja tengingu við leiklistina sem ég gat ekki gert. Ég man ekki til þess að ég hafi sagt neitt, nema titilinn og höfundinn. Forvandlingen af Franz Kafka.

Og þegar ég fann að þau fordæmdu ekki val mitt - að akkeri kennslustundarinnar hafði bjargað mér frá allri hugsanlegri háðung - varð ég góð aftur eins og rauðglóandi maríuhæna bara vængbrotin í bráð og komst því ekki upp til guðs að biðja um gott veður áfram. Sat þarna eins og saklaus depill.

*

Saturday, July 28, 2007

Æviágrip 11


Var ég að verða hrifnari af Hans en Ulrich? Mér fannst Hans skringilega ólánlegur í útliti, nema bláu augun gáfulegu, ljósu krullurnar og ótrúlega nettar hendur og fætur. Handarbökin mjúk og með spékoppa í stað hnúa, fínleg eins og á lítilli konu ... og svo var samt eitthvað mjög máttugt við hann. Einsog þegar hann þóttist ávíta mann og lét það hljóma eins og ástaratlot.


Það breytti því ekki að þegar skólasystkini mín voru í óða önn við að kyssa maka, kærustur og kærasta um helgar, þá bjargaði söngvarinn frá Hamborg mér stundum frá annars kossalausri helgi, myndarlegur sem hann var með sín háu kollvik og rauðan munn eins og hann hefði kysst umbúðir utnanaf kaffibæti og ekki mig (= rauða bréfið utanaf Ekta Lúðvíks Davíðs staukunum sem heima var notað til að lita munninn á snjóköllum ... !).

*

Ulrich söng gelding þennan vetur - fékk kontratenórhlutverk við frægt leikhús í Hamborg - og ég þoldi það ekki. Hann kom og söng í falsettu svo bergmálaði um öll heilög hús í borg ævintýraskáldsins og nærliggjandi byggðarlög. Heila helgi gengum við milli kirkna á Fjóni, hann alltaf með tónkvíslina og syngjandi, sagðist þurfa að prófa hljómburðinn. Hann var bara að æfa fyrir þetta leikrit frá byrjun sautjándu aldar, Volpone eftir Ben Jonson samtímamann Shakespeares. Hann var með flotta rödd en einhverstaðar hreiðraði mitt eigið vanþakklæti um sig.


Og ég fór í heimsókn til Hamborgar en varð ekki meira hrifin fyrir það og þótti kalt í húsi fjölskyldu hans. Hann átti sætan hippabróður með sítt hár og þeir bræður buðu mér í bíltúr um alla borgina og ég fékk að sjá allt aðra og virðulegri Hamborg en þjónarnir á Gullfossi höfðu sýnt mér - þegar ég var þerna í tveim túrum á unglingsárunum - en það dugði ekki til. Hlutverkið fannst mér hreint og beint neyðarlegt og jaðra við að vera persónuleg móðgun! Ég sagði það ekki upphátt en gat ekki þáð að halda þýsk jól þennan vetur. Raunar ekki heldur jósk með Hans og Betu sem ætluðu til Silkiborgar og buðu mér með; svo mín fyrstu jól í Danaveldi urðu frekar indversk í kommúnunni hennar Dísu vinkonu á Amager og með flögrandi karakterum á Loppen.

*

Söngvarinn var orðinn heimilisvinur í húsi ungu hjónanna í Fruens Bøge og hélt áfram að heimsækja þau eftir að ég flutti, vorið 1972.

Þá var Jens kominn inn í líf mitt. Jens með klarinettið. Brúnu augun svarta þykka hárið og klarinettvarirnar. Músikalska blásaramunninn sinn.

Jens Schou sem varð fyrsti sambýlismaður minn og obinber kærasti um það bil þar til ég giftist Jan.


***

Kaffibætir var unnin úr rótum jurtarinnar sikkoría (Cichorium intybus)

sjá nánar um Konur og kaffibætir á síðu Kaffitárs hér


Thursday, July 26, 2007

Æviágrip 10


Ég hringdi í Lene. Hún segir að það hafi ekki verið neinir símaklefar á svæðinu! Svo ég hlýt að hafa farið eitthvað lengra. Hún heldur nefnilega að þau hafi samt komið og sótt mig - kannski í næsta þorp - og fullyrðir að það hafi einmitt verið smá smuga fyrir þriðju manneskjuna í rauða sportbílnum. En hvernig þau fundu mig og hvar mun tíminn tæplega leiða í ljós.

16. október 1971 lýsi ég tilverunni í bréfi heim:

... ég hef fengið tækifæri til að sýna skólasystkinunum að ég er ekki heldur hér að ástæðulausu og fá kennarana til að álíta að ég hafi hæfileika og það ekki svo litla. En hvernig ég á svo að fara að því að sannfæra þá um að þeim hafi ekki skjátlast hef ég enn ekki fundið út, en til þess hef ég líka nægan tíma.

Ég hélst nú ekki við í sveitinni nema mánuðinn út, þá flutti ég inn í úthverfi Óðinsvéa og þaðan er öllu ódýrara og fljótlegra að komast í skólann. Ég bý hjá einum skólafélaganum, sem er nýgiftur og búinn að kaupa hús. Þar borga ég 175 danskar krónur á mánuði.

Það var svo gaman að fá bréfið frá þér mamma og heyra hvað er að ske hjá ykkur, en það er nú alllangt síðan og sjálfsagt aðrir hlutir að gerast þessa dagana. Ég vona bara að þið hafið það gott og ég bið kærlega að heilsa öllum heima.

Kær kveðja,

ykkar dóttir ....

*

Það var óþolandi að vera þriðji aðilinn í húsi Hans og Betu, sérstaklega um helgar. Hér var engin sér álma engin víðátta heldur götur og hús og flóknir skógarstígar í nágrenninu. Í húsinu var alltaf verið að kyssast, hjónin og gestirnir allt í pörum. Ég yrði að finna einhvern að kyssa ef ég ætti að lifa veturin af!

Kannski Ulrich gæti komið og kysst mig eins og eina helgi?

*

Ulrich var söngvari sem ég hafði kysst í fluginu Keflavík – Kastrup þegar ég yfirgaf fósturlandið í ágúst. Hann var frá Hamborg og ég týndi fermingarúrinu mínu um leið. Það var dálítið vesen að kyssast svona á flugi enda varð bláa myndin af pari fljúgandi yfir byggðinni eftir Marc Chagall í miklu uppáhaldi hjá mér æ síðan, engar sætisólar og matarbakkar þar. Úrið kom aldrei í leitirnar en Ulrich lagði á sig fimm klukkustunda lestarferð og kom í heimsókn til Fruens Bøge fljótlega eftir að ég flutti úr miðstöðvarherberginu og upp undir súð, í hið langþráða þakherbergi.

Hans varð yfir sig hrifin af söngvaranum og eftir helgarheimsókn númer tvö spurði hann hvar ég hefði fundið hann. – fyrir ofan ský og austan við Ísland sagði ég og hann hristi hausinn: Kristín sagði hann með löngu íi í sínum elskulega aðfinnslutón. Man plejer at møde mennesker på jorden … Maður finnur fólk á jörðinni, í loftinu búa fuglarnir.

Wednesday, July 25, 2007

Æviágrip 9

Lene átti kærasta sem hét Troels. Þau höfðu flutt frá Árósum og keypt heilan bóndabæ tólf kílómetra frá Óðinsvéum, þegar Lene komst inn í skólann. Þau bjuggu í nýuppgerðum hluta íbúðarhússins og þegar ég yfirgaf farfuglaheimilið fékk inni í óuppgerða hlutanum sem var heill rangali með mörgum herbergjum. Ég þurfti nú bara eitt en það var fínt að hafa prívat æfingaaðstöðu. Ég var alltaf að vona að það væri ekki hljóðbært nema aðra leiðina gegnum vegginn sem skildi húsakynni ungu hjónanna frá mínum. Á morgnana söng Lena jazzlög í baðinu og svo hjóluðum við saman milli akranna og lífið var milt og blítt. Tókum lestina saman. Þutum yfir slétturnar og það var eins og að sigra heiminn. Stikuðum stígana gegnum morgunsvalann í Kongens Have á leið frá járnbrautarstöðinni, mættum saman í skólann og ég var uppmeð mér eins og ég hefði strax eignast vinkonu. Lene var svo flott, hrein og bein og hláturmild, frekknótt með sítt hnetubrúnt hár sem glóði í sólskininu og með seigar tígulegar hreyfingar. Það var einhver dans í öllu sem hún gerði.

Troels var ljós og svolítið lægri en hún. Honum kynntist ég ekki að ráði en öfundaði þau bæði af að eiga sinn sameiginlega heim sem gerði mig meira en eina þegar dyrnar lokuðust á kvöldin. Það bjuggu ekki fleiri á bænum en við þrjú.


*

Svo kom að því að við áttum ekki samleið heim úr skólanum, Lena þurfti eitthvað með Troels þann daginn en var samt komin á undan mér heim. Þau voru á sportbíl fyrir tvo. Það var þá sem ég viltist milli akranna. Allt varð eins engar áttir í þessu sléttlendi og sólin horfin en skildi eftir sig molluna í haustkvöldinu. Ég hjólaði hingað og þangað og loks fann ég símaklefa bara hringja ef ég lendi í vandræðum hafði Lene sagt. Ég hringdi og flugurnar suðuðu yfir höfði mér fleiri og feitari en ég hafði getað ímyndað mér, ekki eins og mýflugnamergðin við Hópið sem stundum mynduðu svart ský. Þar var hægt að loka augunum og hlaupa gegnum skýið. Þessar voru stærri, óhugnanlega litríkar, eitur myndarlegar og margar og auk þess lokaðar inn í klefa með mér! Engin okkar vildi út fyrr en ég var búin að ná sambandi við manneskju og láta vita af mér. Lene!!! Halló. Nei ég er ekki á járnbrautarstöðinni ég í símaklefa ég veit ekki hvar það er svo mikið af flugum og fullkomið myrkur núna getiði ekki sótt mig nei ég veit heldur hvert hvað á ég að gera ég get ekki verið hér lengur ég þori ekki að fara héðan það er ljós í klefanum ég get ekki verið hér ...

Mér er ómögulegt að muna hvernig ég komst til skila. Ég gæti spurt Lene. Kannski man hún það. Afturámóti man ég að eftir þetta þoldi ég æ verr skorkvikindin í óuppgerða rangalanum sem ég bjó í. Meira að segja hinar vingjarnlegustu köngulær uxu mér í augum þegar þær heimsóttu mig í bólið sem var dýna á gólfinu og stutt að fara fyrir dýrin á bænum sem voru aðalega svona
smákvikindi.


*

Eftir mánuð í sveitalælunni flutti ég til Fruens Bøge. Til Hansemanns og Betu konu hans.

Hans hafði lýst því yfir að í þeirra húsi væri þakherbergi laust! Það hljómaði vel. Og hægt að hjóla alla leið í skólann bara þrír fjórir kílómetrar. Já, laust innan skamms. Þangað til gæti ég fengið kjallaraherbergi fyrir lítið.

Það var vel hlýtt í kjallaraherberginu. Það var miðstöðvarherbergi og stundum viltist ég í þvottinum sem þau hengdu til þerris á rörin. En þetta var bara til bráðabirgða.


Tuesday, July 24, 2007

Æviágrip 8

Frú Holmer vildi nemendum sínum allt það besta, geistist um heiminn fann frumlega gestakennara og sendi okkur svo í leiðangra sem hétu studierejser á enn frumlegri námskeið strax á fyrsta ári.

Og áður en það ár var liðið vorum við meðal annars búin að fá tékkneskan gestakennara sem hún hafði fundið í skóla Labans í London. Við kölluðum hann Ferró og hann fékkst við hreyfisálfræði, heilt heimspekikerfi eða hugmyndabygging fyrir sviðslistafólk og átti að gera manni kleyft að skapa á annað hundrað karaktera bara með því að breyta samsettningunni á nokkrum grundvallareinkennum, einsog hraða og takti í hreyfingum; flæði, tregðu og mótþróa, afstöðu til rýmisins og öðrum takmörkunum svo og takmarkaleysi. Við vorum teygð og toguð til að aðlaga okkur hugtökunum, áttum helst aðlengjast eða fara úr liði fannst manni stundum við tilraunirnar og allur þessi fjöld karaktera voru markmiðið. Til að gera gáfulegt sýstem gáfulegra var það klippt út í pappa - bókstaflega - og nokkrum pappaspjöldum raðað saman eins og gestaþraut og með orðum á hverju horni, eiginleikanöfnum leiðbeinandi fyrir karakterana sem svo var hægt að laða fram með hliðsjón af pappasýsteminu. Það yrði bara spurning um sjónarhorn, þ.e. úr hvaða átt var horft á módelið.

Þegar Ferró fór sátum við uppi hvert með sitt hálfkláraða pappamódel. Þetta var víst bara byrjun á nýjum aðferðum þess tíma, eða þá að laban-nemandinn var ekki kominn lengra í námi. Það varð úr að frú Holmer ákvað í samráði við okkur að fá hann aftur þegar kerfið væri komið betur áleiðis og við gætum kannski lokið við hálfnuð í pappamódelin og fengið meiri glóru í þau.

Hans var í varnarliði hreyfisálfræðinnar og væri verið að gantast með kerfið eða gera lítið úr því sagði hann með auðheyrilegri virðingu í rómnum: Þetta er náttúrlega heilt heimspekikerfi sem enginn lærir á tveim vikum. Og sannleikurinn er sá að eitt og annað síaðist í mig og átti eftir að fylgja mér gegnum árin. Ferró var ekki bara með módelavinnu og teygjur í kyrrstöðu, hann demdi líka á okkur spurningarlista sem við áttum að spyrja sjálf okkur og leita svara við helst á hverjum degi, stórar spurningar um markmið eins og Hvað viltu með lífi þínu? Hvað viltu með list þinni? Hvað viltu á sviðinu?

Vitanlega var ekki heldur galið veganesti að fá hugmyndir um hvernig hægt var að vinna karakter út frá skilgreindum hreyfingum, í stað þess að láta hann mótast út frá tilfinningum sem komu af að lifa sin inn í ákveðnar krigumstæður.

Ég er ekki frá því að við höfum verið eini bekkurinn sem ekki fordæmdu kenningarnar einróma – eða kynninguna á þeim - enda akademískur andi í meirihluta í mínum bekk, þótt innlifunarhugmyndir Stanilawskij og bein samskipti við eigin orðlausu undirheima, ættu ekki uppá pallborðið nema hjá hverfandi minnihluta (jafnvel mér einni)*. Útávið vorum við hinn pólitískt meðvitaði hópur, með Hans í öruggum meirihluta.

*

Frá París kom annar gestakennari - ekta mímari - látbragðsleikari í anda Jacues Lecoqs og Marcel Marceau. Hann var ekkert að orðlengja sína list, það voru konkret æfingar í jafnvægislist og einangrun hinna og þessa líkamshluta og stakra vöðva; bara nota það sem þurfti og búa til hreyfingar sem í dag tilheyra danslistinni ekki síður. Að segja heilar sögur með líkamanum, búa til vængjaðar verur og samtöl með eða án orða þar sem hoppað er milli hlutverka tilheyrði þeirri látbraðslist var vissulega hélt áfram að vera eitt mitt veikasta fag, en einn aðalkosturinn við gestakennara var að þeir töluðu ekki dönsku. Frakkann kölluðum við Séra með áherslu á ainu og hann var alger andstæða Ferrós, hér var nákvæmnisvinnan sýnileg í öllum líkamanum og engin gestaþraut. Auk þess streymdi stöðug birta frá Séra þannig að í endurminningunni finnst mér alltaf sumar þegar hann kom, enda bjó hann oft til fiðrildi sem flögruðu frá honum og þó ekki alla leið, hann gat handsamað þau án þess að klessa vængina.

Það var stanslaus sýning í gangi og það var heillandi. Þótt maður réði ekki við nema bara brot af því sem var takmarkið hverju sinni, þá var það í lagi hjá Séra, alltaf var eitthvað sem tókst þótt ekki væri nema kippa til augabrún útaf fyrir sig, eyra eða eins og einum nýfundnum lærvöðva. Í stað pappamódels hjá Ferró varð skilduverkefnið hjá franska látbragðsleikaranum að leíka Cólumbínur og Harlekína, taka til sín hlutverk í klassískum suðurevrópskum kómedíustíl -Commedia dell´arte - og spinna leikinn saman án þess að detta út úr hlutverkinu.

*

***

Skýring:

“Laban skólinn” er kenndur við Rudolf Laban (1879-1958), sem talinn er einn merkilegasti hugmyndafræðingur hreyfilistarinnar á síðusu öld. Hann einbeindi sér m.a. að ritþma og rými, og mynstrum í rými, jafnvægi í ólíkum myndum. Hann vann útfrá hreyfingum í rituölum og dansi og skoðaði einnig sálfræðileg árhrif hreyfingar. Og hann skapaði kerfi til að skrá dans: Kinetography Laban.

http://members.shaw.ca/laban_for_animators/laban.htm

http://www.laban.org/

Monday, July 23, 2007

Æviatriði 7


Fyrsta árið átti að vera einhvurskonar spunaár og það var að gera útaf við mig. Mér tókst ekki að spinna fyrr en á þriðja ári. Þá hafði frú Holmer loks komist í kynni við Johnstone hjónin, Keith og Inger og lokkað til sín sem gestakennara. Þegar þau komu gerðust galdrar í spunatækni og lífið var lauflétt og leikandi bæði á sviðinu og utan þess. Áðuren ég vissi af var ég jafnvel farin að brillera í ósýnilegu leikhúsi - þ.e. láta saklausa vegfarendur óafvitandi taka þátt í mínu spunaplotti – og hafði furðu gaman af.

En svo ég haldi mig við fyrsta árið og upphaflega áherslu á spuna, þá var það einn af okkar föstu kennurum sem tók að sér spunalátbragðskennsku sem ég botnaði aldrei í og sem því miður var fullkomlega fastur liður allan veturinn. Kennarinn sem var leikari við húsið eins og flestir okkar fastakennarar hét Benny Poulsen tæplega þrítugur fyrrverandi balletdansari sem gerðist leikari og var með fína upphitunartíma á morgnana sameiginlega fyrir allan skólann og árvökulustu leikarana. Það var ákveðin stemning í þeirri morgunleikfimi og sport í að gjóa augunum á aðra í fyrstu jafnvægis og lipurlegheitatilraunum dagins.

Í látbragðsspunanum þutu félagar mínir hinsvegar orðlaust eftir leiðum sem voru mér fullkomin torfæra. Engar stemningar engar tilfinningar en samt að segja sögur með sjálfum sér án orða. Hvernig sögur? Teikna í loftið með líkamanum og vera hugmyndaríkur var ekki mín deild. En það var kallaður látbragðsleikur. Hálfhugsuð og hálf spunnin sólóatriði ... ég fann engar reglur til að laga mig að og gat engar sögur lesið úr látalátunum. Aðrir virtust skilja til fullnunustu skilaboð sem ég hvorki heyrði nér sá. Ég skildi aldrei hvað var um að vera né hvað ég átti af mér að gera. Mér leið mér svo illa í þessum tímum að stundum fékk ég flog. Eða einhver flogalík köst sem báru mig burt og sem ég vaknaði loks uppaf, dúnmjúkt og einsog löngu seinna - yfirleitt á bekknum í dagstofunni sem einnig var fundarherbergi skólans - með minnst eitt bekkjarsystkin mér við hlið, Lene og Judith eða Hans og kannski Jannie eða Torben. Mér leið aldrei betur en í móðunni þá, sem minnti á ský eða dalalæðu og hægt að svífa þar í alvörunni án þess að finna til, komin úr myrkri. Mér leið undur vel til ég vaknaði alveg. Og þegar ég fékk að vakna svona rólega með umhyggjuna allt í kring hélt mér áfram að líða vel og meira var ekki ætlast til af mér þann daginn. Ferðin virkaði eins og endurnýjun. Þegar upp var staðið úr mókinu var ég orðin hrein og tær á líkama og sál rétt eins og ég hefði verið að leika heilaga Jóhönnu, búin að kasta mér á bálið og brenna upptil agna og komin til baka úr þeim heimi og inn í lífið sem líður.

Óskýrar línur, eða línur sem ég gat ekki lagað mig að, urðu þvílíkt eitur í mínum beinum.

*

Benny reyndist mér gáta öll skólaárin, ekki bara látbragðsaðferðin. Hann hafði dansað opinberlega sem balletbarn við það konunglega, sjö ára gamall og yfirgefið dansinn tuttugu og þriggja ára til að læra leiklist í Óðinsvéum! Allir elskuðu Benny nema ég, þótt ég finndi ekkert að honum nema hvað hann var óþægilega langur og mjór. (Ég var enn ekki laus við komplex út af eigin hæð, þótt Lene bjargaði mér með því að vera álíka há eða jafnvel hærri!). Benny lék seinna aðalhlutverk í söngleiknum Cyrano de Bergerac og dívurnar féllu fyrir Benny. Þegar en ein dansmærin í Tívolís Pantomimeteater yfirgaf Tívolí og gerðist leiklistarnemandi við Odense Teaters Elevskole, þá leið ekki á löngu þar til Benny og ballerínan- sem var lítil eins og skopparakringla miðað hann- voru orðin par! Eiginlega horfði ég þá á konuna hans Benny verða einstæða móður á einni nóttu og mér fannst það vond nótt og gátukend. Ég átti sjálf hálfsystur sem ég hafði ekki séð nema á mynd. Hún var skilnaðarbarn einsog barnið hans Benny var að verða. Þegar frú Holmer varð síðar ekkja eftir Kaj Wilton beið hún hinsvegar í sextán ár með að giftast honum Benny!

***

Johnstone sjá heimasíðu: http://www.keithjohnstone.com/

Benny Poulsen (f.1942 - d. 2004)


Sunday, July 22, 2007

Æviágrip 6

Vi vorum sjö. Allir með stúdentspróf nema ég og hugsanlega Jannie sem var poppsöngkona frá Kaupmannahöfn. Ég var gagnfræðingur frá Íslandi, skrifstofustúlka með nokkrar sjóferðir að baki, meðmælabréf frá prófastinum heima og svo frá Ævari Kvaran sem leiddi mig gegnum dramatíska og ljóðræna texta í tvö ár áður en ég heimsótti menntamálaráðherra til að fá skýr svör við því hvort alvöru leiklistarskóla yrði komið á laggirnar Reykjavík eða ekki. Og svarið var skýrt nei það árið.


Mitt hyldjúpa sjálfsöryggi bakvið feimnina hafði fest alvarlegar rætur í tímum hjá Ævari og Guðmundu Elías. Það voru einkatímar og svo skólinn hans Ævars frá tvö til sjö alla laugardaga... Ég efaðist ekkert um að ég gæti orðið best þar sem ég var hverju sinni, bara ég væri með réttu verkefnin, þá átti ég eldsneytið og aðgang að öllum mögulegum blæbrigðum. Svo það að gera textann að heim til að kasta sér inní, með eitt auga fyrir utan, það var spurning um að gera heimavinnuna sína. Mér fannst undarlegt þegar gert var lítið úr slíku sem fyrir mér var vinna og aftur vinna, ég þurfti tóm í einrúmi til að komast að því hvað ég var að gera og vildi gera. Ég varaði mig ekki á að það voru eintöl sem ég hafði lært að njóta mín í; að samspil við meðleikendurna var allt annar galdur.

*

Og nú var móðurmálið ónothæft. Svo ég þagði. Að tjá eitthvað að gagni orðlaust reyndist mér lengivel útilokað nema hjá Peter Marcell. Hjá honum gat ég framkallað stemningu í öllum líkamanum eftir pöntun. Stemningar sem þau hin lásu auðveldega úr þögulli tjáningu minni. Aðrir kennarar voru með látbragðsleik og alskyns hamagang sem ég réði ekki við og gat ekki tjáð mig gengum ... nema þá í dansinum hjá Nini Theilade! Spunadans og allir í einni ævintýrakös. Nini var kapítuli útaf fyrir sig og ekki vissi ég þá hvurslag stjarna hin hálfsextuga ballerína hafði verið.

En bekkjarsystkini mín þoldu ekki kennarann sem ég naut mín best hjá í byrjun, Peter Marcell. Ekki sem kennara. Það lék óstaðfestur grunur á að Júdith þyldi hann sem ástmann en í tímum var hann að biðja um eitthvað sem var þessum nýju systkinum mínum á móti skapi, eða þá aðferðin við að biðja um það. Hann var lærður í Konunglega leiklistarskólanum og sótti eitt og annað í Stanislavskij sýstemið.

*

Hans Bay var ljónið í bekknum og hafði gjarna vit fyrir okkur hinum í alvarlegum og faglegum málefnum, hann hafði lesið dramatúrgíu eða leikhúsfræði við háskólann í Árósum og heillað dómnefndina með epískum Verfremdung stíl, sínu heiðbláa gáfulega augnaráði og texta eftir Bertolt Brecht í inntökuprófinu. Hann var með ljósar krullur eins og Nonni bróðir en skrýtnar skakkar tennur og hefði að eigin sögn ekki fengið skólavist nema gegn loforði um að láta laga þær allar saman, svo hann yrði tilbúinn í Hollywoodleikarabros fyrir lokaárið. Reyndar var það alls ekki hann heldur konan hans sem hafði ætlað í leiklistarnám. Þess vegna höfðu þau flutt, drifið í að kaupa hús útí Fruens Bøge í útjaðri Óðinsvéa sannfærð um hún myndi fljúga inn. Hann fór með eins og hver annar kavaljer, skellti sér í prófið svona uppá grín. Hún komst ekki inn og sat nú með fætur í kross og beið í sóffa einbýlishússins, meðan Hans úðaði fróðleik yfir okkur skólasystkinin um pólitískt leikhús og absúrd leikhús, epískt leikhús, raunsæisleikhús og staðnað leikhús. Hann var frá Silkiborg norður á Jótlandi og sá sem ég kynntist líklega best af mínum þrem nýju bræðrum. Peter Vincent var frá höfuðborginni, fallega vaxinn, með vel mótað andlit og ágæta rödd, hefði við fyrstu sýn getað verið sjarmör bekkjarins en hann var mér jafnan lokuð bók, sama þótt við lékum saman, ég var engu nær. Torben Zeller var nærverandi á sinn hátt, hann var jóginn og kamelljónið gat komið sér í mjúkinn hjá flestum var iðinn við það og félagslega lipur. Hann var fæddur og uppalin í borg ævintýraskáldsins og gott ef hann bjó ekki enn heima hjá foreldrunum.

Jannie Faurschou var tvíburi eins og ég og var að slá í gegn sem poppsöngkona einmitt þetta fyrsta ár í skólanum. Hún settist að við Sønderboulevard ásamt gítaristanum sem var hennar maður. Þar lögðu þau undir sig rúmgóða yfirgefna íbúð við ána og þegar ekki var verið að æfa bauð söngkonan öllum heim. Hún var nettvaxinn og ljós, með augu sem lágu undarlega nálægt hvort öðru, og alger akróbat á sál og líkama. Hún var svo hiklaust opinská að maður tók varla eftir því. Nema Hans.

*


Peter Marcell (f. 1932 - d. 1996)

Nini Theilade (f. 1915 í Indonesíu)

Stanislavskij, Konstantin (f. i Moskvu,1863 d. 1938)
Rússneskur leikari og leikstjóri; einn kunnasti hugsuður leiklistarsögunnar.Friday, July 20, 2007

Svarbréf frá Óðinsvéum

Það hefur staðið til að loka leiklistarskólanum svo seint sem í ár! Og þess vegna byrjað að safna efni í hvelli, byrjað á að grafa upp nöfn sem fólk mundi eftir og bersýnilega mundi fólk við leikhúsið ekki lengur eftir okkur Lene.

Þetta kemur fram í bréfi frá blaðamannaflulltrúa Leikhúsins, sem meilaði um hæl, svaraði mér þakklátur fyrir ábendinguna.

*

Ég væri sármóðguð ef ég hefði ekki tekið eftir að nafnið Isa Holm vantar líka í söguna. Hún byrjaði í skólanum líklega tveimur árum á undan mér, jafnvel fyrr, því hún gerði hlé útaf sinni geðveiki um tíma og kann að vera að hún hafi misst af upphaflegu skólafélögunum fyrir bragðið. Það ættu þau að muna. Og hún sjálf! Hún var eina alvöru dívan við Óðinsvéaleikhúsið - fyrir utan frú Holmer - og ein allra efnilegasta leikkona síns tíma. Maður límdist við hana, vonlaust að horfa á annað þegar hún birtist. Með hendur svo fallega dregnar sem hefði Leonardo da Vinci verið að verki, falleg öll, fínleg, dökk og með augabrýr eins og arabísk drottning, viðkvæm og hvöss. Í kantínunni kallaði hún alla elskurnar sínar og dulbjó sig með bræðandi brosi. Ef hægt er að gleyma henni þá eru það meðmæli að gleymast!

*

Blaðamannafulltrúinn lofaði að láta færa nöfnin okkar Lene inn í söguna strax og netmeistarinn kemur úr sumarfríi um miðjan ágúst og bað mig að láta vita ef ég lumaði á fleiru sem þau ættu að vita. Svo ég skrifa og bendi á að Isa Holm hafi gleymst og það þótt hún sé enn að leika, slái í gegn oftar en flestir eða fimmta hvert ár, samkvæmt einni umfjölluninni í netheimum sem segir: “Isa Holm er formodentlig den skuespiller i Danmark, som har fået flest gennembrud. Ca. hvert 5. år optræder hun i en sammenhæng, der får instruktører, teatergængere og anmeldere til at juble i kor og undre sig over, hvordan en så talentfuld, følsom og givende kunstner kan undgå det helt store gennembrud. ”

Bréfið frá Leikhúsinu endar með eftirfarandi frétt um að skólanum hafi verið forðað frá endalokum í ár:

For en ordens skyld skal jeg sige, at det ikke lykkedes politikerne at lukke skolen i denne omgang!

Med venlig hilsen

ODENSE TEATER

Morten Kjærgaard

Pressechef

Æviágrip 5

Það var kolniðamyrkur kvöldið sem ég kom fyrst í H.C.Andersens bæinn og bað leigubílstjórann að finna fyrir mig farfuglaheimili sem næst leikhúsinu. Daginn eftir fann ég áfangastað minn í jaðrinum á Kongens Have. Leikhúsið stóð við Jernebanegade og að götunni snéru auglýsingakassarnir með risastórum svarthvítum ljósmyndum af leikurum í hlutverkum sínum, fleiri en ein með titlinum Lille Claus og store Claus. Ekki um að villast að eitt ævintýrið eftir son skósmiðsins danska var á fjölunum um þær mundir. Bakdyr voru út í konungsgarðinn með dramatískum trjám á ýmsum aldri. Eitt þeirra breiddi undarlega úr sér, með sveigðum greinum sem leituðu til jarðar og inn við stofninn skuggsælt skjól.


*

Leiklistarskólinn var innanhúss í sjálfu leikhúsinu - Odense Teater - næst elsta starfandi leikhúsi í Danmörku, stofnað fyrir aldamótin 1800. Það fannst mér lokkandi frá upphafi, að fá að fylgjast með æfingum og horfa á leikarana líka utansviðs ...

Þar fann ég rektor, frú Grethe Holmer sem tók á móti mér í allri sinni morgundýrð. Hún hélt stuttan fyrirlestur - fyrir mig eina - um Önnu Borg sem hún elskaði og dáði, talaði um hana sem vinkonu sína. Frú Holmer var konunglegt balletbarn og fékk líka sína leikaramenntun í skóla Konunglega Leikhússins í Kaupmannahöfn þar sem Anna Borg starfaði, íslenska stjarnan sem hafði brillerað þar í hlutverkum eins og Margrét í Faust og Anna Boleyn i Cant eftir Kaj Munk. Hún fórst í flugslysi eins og Carlos Gardel, bara átta árum áður en ég byrjaði að fikra mig inn fyrir þröskuldinn í dönsku leikhúsi. Leiðið hennar var á Maríubjargi, kirkjugarði í Gentofte, þar hvíldi hún nú við hlið lífsförunautarins Poul Raumert.

Líkt og Anna Borg sem var leikarabarn þá var frú Holmer fædd inní leikhúsheiminn, dóttir leikhússtjóra að nafni Einar Linden, en Holmernafnið hafði hún frá móður sinni. Á stríðsárum byrjaði hin unga Grethe feril sinn; útskrifuð úr Det kongelige Teaters elevskole 1943 og lék sama ár í sinni fimmtu kvikmynd. Nú nálgaðist hún fimmtugt og var fyrrverandi kvikmyndastjarna með minnst tuttugu kvikmyndahlutverk að baki. Ég átti eftir að dást að því á hverjum virkum morgni í þrjú leikár hve glóandi upplögð hún gat verið þegar flestir aðrir mættu með stírur í augunum. Hún mætti geislandi fögur, virtist vakna með málaðan munn og auk þess mælsk. Hún var gift leikhússtjóranum Kaj Wilton en það hlaut að vera aukaverkun dýrðarinnar fremur en ástæða. Frú Holmer var raunar alls ekki hætt að leika, hún hægði bara á sér um tíma, tók þátt í upphafi leiklistarkólans sem var stofnaður árið 1963 og tók við stjórn árið eftir.

Frú Holmer skyldi þérast og hún þéraði til baka, það var gagnkvæmur virðingarvottur. Þéringarnar höfðu þannig uppeldisgildi skildist mér og ég þóttist heppin að hafa æft þéringar hjá Hildigunni í leðurvörudeild Hljóðfærahússins, mínum allra fyrsta vinnustað í Reykjavík. Þegar skólinn byrjaði var frú Holmer einatt nærverandi, hélt morgunnfund í skóladagstofunni dag hvern með hverjum bekk fyrir sig. Hún lýsti skoðunum sínum og áformum, markmiði kennslunnar hverju sinni og hlustaði á óskir nemenda, álit og gagnrýni. Hennar mottó var: Vi har ikke Demokrati, vi har det der er bedre!

Hans Bay einn af þrem bekkjarbræðrum mínum, vitnaði oft sposkur í mottóið og var með orðaskýringu í lagi: ”det der er bedre” end demokrati, vad er så det? Jú, sjáiði til, það sem er betra en lýðræði í huga frú Holmer, það er Einræðið!


*

Það kom ljósmyndari frá Fyens Stiftstidende daginn sem skólinn var settur, rauk upp á svalir og tók loftmynd af okkur nýliðunum. Mín tilvonandi systkini slógu hring um mig og þar stend ég enn á myndinni í miðju littla hringsins á minni víðu felulitaskirtu og góni upp í loftið eins og miðdepill heims í gömlu ljóði.***

Grethe Holmer (f.1924 - d.2004)

Kaj Wilton ( f. 1916- d.1980)

Anna Borg (f.1903 - d. 1963), dóttir Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu.

Poul Raumert (f.1983 - d.1968)


Tuesday, July 17, 2007

Æviágrip 4


Júdith var sú sem tók að sér að túlka leikritin fyrir mig. Segja mér sögurnar sem samtölin spruttu úr eða inní. Júdith Rothenborg. Við vorum sjö bekkjarsystkinin. En þegar ég gúggla mig fram til að sjá hvar þau hin eru í heiminum í dag, villist ég inn á heimasíðu skólans og sé að þar eru bara fimm nöfn. Eins og ég hafi ekki verið þar! Eins og búið sé að svifta mig þrem árum úr lífi mínu! Þetta er óskiljanleg ósvífni og ég skrifa leikhúsinu strax í dag, sama þótt það sé sumar og flestir nokkuð örugglega í fríi. Það vantar ekki bara mig á listann, það vantar líka nafnið Lene Theiss. Lene sem var fimleikagarpur bekkjarins og dreif mig með sér heim - með ferðatösku og allt - fljótlega eftir að skólinn byrjaði svo ég þyrfti ekki að búa veturlangt á farfuglaheimili. Lene sem seinna lék tungl með glitrandi brjóst þegar ég lék titilhlutverkið í Bag ved stigen blomstrer en rose.


Það var á Verkstæðissviðinu; mitt fyrsta stóra verkefni í atvinnuleikhúsi, lokárið í skólanum og um leið ein af fyrstu sýningunum sem Jan Maagard leikstýrði við Óðinsvéaleikhúsið, að frátöldum nemendasýningum. Ég lék rósina Rose með mjallahvíta hárkollu og í sirkusfötum. Ég var hlekkjuð við sirkusheim í bókstaflegri merkingu sem aðstoðarkona töframanns. Hans Bay lék kryppling en fleiri skólasystkin voru ekki með í þessari frumlegu og ljóðrænu sýningu sem fékk fína dóma í fjölmiðlum. Höfundur leikritsins lék trúð og lagði stundum höfuð sitt í kjöltu mér og við horfðum saman á tunglið. Hann hét Arne Bjørk og var í alvörunni leikari að lesa guðfræði. Hann langaði burt frá leikhúsinu sagði hann. Ég held hann hafi aldrei komist lengra burt en listin sem hann var hlekkjaður við.

Lena lék margt annað en heimsins kynþokkafyllsta tungl, áður en hún gerði myndlist að aðalstarfi nokkrum árum eftir skólann. Og hún kom til Íslands og var svaramaður Jans þegar við giftum okkur, hljóp um allt Sæfellsnes með mér það sumar blíndi með mér á sólarlag og sofnaði með mér á mosaþúfu undir morgunn. Við vöknuðum með hroll og bönkuðum uppá hjá bónda nokkrum sem gaf okkur glóðvolga mjólk í morgunsárið...

*

Þetta verður að leiðrétta, það ætti ekki að vera hægt að stela þrem árum úr sögu manns og gera hana ósýnilega með því að breyta sjö í fimm.

Kæri skóli skrifa ég:

Jeg ser på den ellers fine hjemmeside att det savnes navne i Elsvskole Historien.
Jeg kan ikke tro det er med vilje, det må være et mistag.
Åren 1971 - 1974 står: Jannie Faurschou; Peter Vincent; Judith Rothenborg; Torben Zeller; Hans Bay. Dette er kun 5 af oss 7 elever under samma period. De navne som saves er:
Lene Theiss og undertegned ... Vi tog begge to avgansexamen fra Odense Teaters Elevskole 1974 efter tre års elevtid. Det må finnes dokumenteret, det er viktigt selv om vi ikke arbejder med teater i dag.
MVH Kristín Bjarnadóttir

*

Júdith er með í sögunni. Hún var alltaf í fötum sem pössuðu. Litríkum en í þvílíkri harmóníu frá toppi til táar að tekið var eftir. Aldrei eins og hún færi í vitlausa sokka við síðbuxurnar, allt var í stíl og virtist þaulhugsað. Eins og stúdentauppreisnir og hippatímabil hefði ekki snert hana nema þá með litríkinu. Hún hafði verið þula við Danmarks Radio, var með djúpa rödd og fullkominn framburð. Landsþekkt rödd í Danmörku en sagði upp til að verða leikkona. Og það kom sér vel fyrir mig, hvernig hefði annars farið með Hómer og hans hexameter í mínum haus! Júdith endursagði söguljóðin, Illíonskviða og Ódysseifskviða komu til mín á skýru nútímamáli og hún heklaði hugmyndaríkar orðaskýringar þegar danskan mín reyndist orðaforðalítil. Allt með sinni djúpu svolítið hásu rödd meðan hún prjónaði eða reykti. Þegar hún hætti að reykja þá prjónaði hún í sífellu, litríkar flíkur á sig og pólska kærastann sinn með feimnu augun. Sama með harmleikina grísku, hún las þá og útmálaði fyrir mér og ég komst upp með að læra bara fáeinar replíkkur og láta mig blómstra í þeim. Eða kannski var það svo að ég blómstraði ekki beinlínis nema ég fengi sæmilega langan og dramatískan mónológ að springa út í?

Tveir kennarar höfðu sérstök áhrif á mig í þeim efnum, hver með sitt svar: Leikkonan og kabarettsöngkonan Lulu Ziegler (1903 – 1973), sem tilkynnti mér að ég væri einsog gerð til að standa ein á sviði og Jan Maagaard sem var fljótur að sjá hverskonar samtölum ég gæti notið mín í og með hvaða leikurum. En fyrsta árið mitt í skólanum var hann enn víðs fjarri.

Wednesday, July 11, 2007

Æfiágrip 3

Ég néri hendurnar og lék Lady Macbeth. Naut þess að vera í slíku manndrápsskapi. Naut þess að geta ekki þvegið af mér samviskubit. Naut þess að geta látið í ljós og sýnt allt þetta, opinberað sterku tilfinningarnar mínar sem ég vissi svo sem ekki hvaðan ég hafði. Ég bara hafði þær þegar ég fékk lánaða svona sögu til að lifna við í. Það var ekki spurning um að geta fundið til heldur að leyfa sér þann lúxus að sjást og mega finna til.

Come, you spirits
That tend on mortal thoughts, unsex me here
And fill me from the crown to the toe top-full
Of direst cruelty!

Og ég lék Júlíu, í grafhýsinu með Rómeo látinn við hlið sér, Júlíu rétt fyrir sjálfsmorð.

Ég lék á íslensku. Ég var vel undirbúin. Hafði æft mig í Kongens Have og eiginlega hvar sem ég var síðasta hálfa árið. Lék mínar trompsenur upp á líf og dauða, allar hreyfingar undir kontról, fullkomlega hér og nú svo engin agnar ögn af kröftum fór til spillis. Þrútið var loft og ég fann það í mögnuðum einbeitingarbylgjum að ég var í sambandi við þann sameiningarkraft sem lætur galdra gerast. Mín fyrsta þrekraun á littla sviði Óðinsvéaleikhússins - Verkstæðisleikhússins - var fyrir starfsfólk kennara og nemendur; þetta var mitt inntökupróp í leiklistarskólann og ég stóðst.

Ég hafði ekkert vit á fötum fyrir svið, bara ef ég gat hreyft mig var ég ánægð. Ég lék Shakespeare í öklasíðum þverröndóttum jerseykjól úr Magasíni í Óðinsvéum. Löngu seinna var mér sagt að þetta væri náttkjóll. Og ég flaug inn á náttkjólnum og vel það. Á miðjum vetri var mér boðinn langtímasamningur við leikhúsið strax að loknu þriggja námi en ég var í róttækum hóp - pólitiskt meðvituðum hét það - alls ekki í tísku að ráða sig hjá stofnanaleikhúsum. Ég skrifaði aldrei undir neinn framtíðar samning. Ég keypti mér annan kjól í sama Magasíni. Hann var líka úr jerseyefni en ekki röndóttur hann var með blómamynstri. Hvort það var líka náttkjóll veit ég ekki, Júdith fannst hann betri. Þegar við fórum að leika senur úr grísku harmleikjunum útvegaði ég mér handsnúna saumavél sem hét Triumph hvorki meira né minna, það stóð gyltum stöfum á svörtum saumavélarhálsinum. Og ég saumaði mér prøvenederdel, svart sítt æfingapils. Gott ef ég saumaði ekki líka á Júdith.


Tuesday, July 10, 2007

Æfiágrip 2


Og áður en ég veit af er ég komin á bólakaf í leit að lífi mínu eins og það lagði sig á áttunda áratug tuttugustu aldarinnar. Þegar Glaumbær brann var ég löngu hætt að ganga í grænu heimasaumuðu ballfötunum mínum og hjúfra mig að Sálfræðinema í sumarfríi. Hrifning mín á Troskíistum útrunnin en ég gekk í felulitafötum árum saman, stórum hermannaskyrtum og öðrum víðum fötum líkt og Marilyn á ljósmyndum frá Milton-Greene tímabilinu.

Sumarið sjötíu og eitt var síðasta sumarið mitt heima á Íslandi um langt skeið, ég vann hjá Sölusambandi Íslenskra Fiskiframleiðenda þar til ég fór út og bjó hjá Ásgeiri, vini mínum úr næst næstu sveit fyrir norðan. Hann var að ljúka íslenskunámi og var með aukaherbergi undir súð ofarlega á Laugavegi. Þar fékk ég inni gegn því aðalega að hlýða honum yfir. Ég var mjög hissa eitt sinn á sunnudagsmorgni þegar hann mundi ekki neitt. Hann með heiftarlegt glóðarauga og mátti vart mæla, svo bólginn eftir nótt með vinunum. Undarlegt því þessi maður var aldrei nema ljúfmennskan og kunni að segja þjóðsögur af ýmsum gerðum, oft um leið og hann samdi þær.

Við fórum saman austur fyrir fjall síðsumars og einhverstaðar á grasafjall. Fjallagrös hafa alltaf heillað mig og ég held það sé útaf hvað þau sjást illa á jörðinni frekar en útaf Jónasi. Maður heldur að þau séu jörðin sjálf sérstaklega ef rignir og rótleysið eitthvað svo ótrúlegt. Áður en ég fór til Danmerkur í ágústlok laumaði ég grösum í flestar dollur og ýmsa bauka sem ég fann í eldhúsinu, allt sem var með loki, svo þau kæmu honum á óvart en ekki öll í einu. Líklega hefur mig langað til að vera eitthvað um kyrrt í lífi hans þótt ég færi. Hann var sá sem las mín allra fyrstu ljóð, ástarsorgarljóð úr Reykjavíkinni, eitt til Sálfræðinemans og annað til Fótarins. Þú skalt gera meira af þessu, sagði Ásgeir. Ha? Gerðu meira svona, sagði hann og rétti mér ljóðin alvarlegur eiginlega án svipbrigða. Ég var hreint ekki viss hvað hann meinti, hafði ekki hug á að eyða lífinu í ástarsorgir og það var nú átak útaf fyrir sig að sýna honum mitt hjartans mál. Hann sagðist meina að ég ætti að ég ætti að gera meira af því að skrifa ljóð. Það var það fallegasta sem hægt var að segja við mig og ég svaraði með fjallagrösum.

Þetta sumar var ég hætt að hitta fólkið í Sörukommúnunni við Laugaveg, frumlegi og síbrosandi Diddi fiðla sennilega fluttur og Fóturinn ekki lengur minn, en hann hafði ekki bara gefið mér nýjan sjóndeildarhring, hann hafði líka gefið mér Shakespeare í tveim bindum, þessar fínu þýðingar á íslensku. Ég var sérlega upp með mér af þeirri gjöf, hún var bæði viðurkenning á leiklistaráhuga mínum og ástarjátning. Um leið vissi ég að mér hafði pottþétt tekist að leyna Fætinum því að ég kynni ekki að lesa leikrit, gæti sjaldan séð nokkuð fyrir mér útfrá replikkum, ég þyrfti að fá söguna sagða á annan hátt til að vita um hvað fólkið væri að tala. Það var alveg eins og í lífinu. Orðin sem komu úr munnum fólks sögðu mér ekki mikið annað en: nú talar hún eða nú talar hann og svo í hvernig skapi hin talandi manneskja var, það gat heyrst á tóninum. En ég gat sjaldan hengt orðin upp á einhvern raunveruleika. Þess vegna lá leið mín inn í leiklistina.


***

Ásgeir var Ásgeir S. Björnsson (f. 12.des. 1943, d. 20. ágúst 1989). Höfundur og meðhöfundur ýmissa rita, m.a. um frásagnarlist undir titlinum "Eitt verð ég að segja þér ..."


Monday, July 09, 2007

Æfiágrip

Svo margir horfnir frá þessum árum. Danmerkurárunum mínum. Og ég sem lofaði Auði að senda æfiágrip ásamt yfirliti yfir greinar eftir mig, greinar um dans á sænsku sem ég ætla líka að senda henni. Hvernig æviágrip? Og hvernig að muna æfina mína nú þegar ég er orðin ein með svo mörgum augnablikum í henni. Ég er að hugsa um augnablikin sem ég átti með þeim sem horfnir eru og kannski öll augnabikin sem ég átti án þess nokkurntíma að lýsa þeim. Án þess að þýða þau yfir á mannamál. Hvað man ég?

Mér skilst að nú sé meira að segja Christiania að hverfa. Hún byrjaði árið sem ég flutti til Danmerkur og byrjaði í leiklistarskólanum í Óðinsvéum, Odense teaters elevskole. Það var árið 1971 og Dísa vinkona mín frá Eyri við Ingólfsfjörð hafði komið sér fyrir í kommúnu á Amager; örstuttur göngtúr frá henni yfir í Loppen á Christianiu.

Hvað man ég og hver er ég sem man? Goðsögn, útskýrði eiginmaður minn númer eitt löngu eftir að hann hætti að vera eiginmaður minn og þá varð ég hissa. Hafði ekki hugsað svo skýrt. Þú varst líkt og Merilyn Monroe fórnarlamb goðsögunnar um kvenlega fegurð. Það var goðsögnin um þig sem karlmenn voru að leita að, og héldu sig stundum finna; þeir sáu þig ekki, þeir voru yfirleitt blindir af hugmynd.

Þessi túlkun á lífi mínu sem ung og áhugaverð, útskýrði auðvitað af hverju mér gekk oft illa að tolla í lífi annara, þrátt fyrir eigin hrifnæmi. Ég hélt þetta hefði verið tíðarandinn, þetta með að byrja á ástarsögum sem maður kunni ekki að enda og lét bara enda í lausu lofti, án afbrýðisemi án loforða án þess að gera kröfur; ást í anda Eriks Fromm. Ég hélt það strax þá, las “Kunsten at elske” spjaldanna á milli.

En fyrstu jólin mín í Danaveldi notaði ég til að heimsækja Dísu og Ikram indverska manninn hennar sem eldaði indverkskan mat og sauð panbrauð á aðfangadagskvöld. Jólanótt eyddum við svo á Loppen, borðuðum gráfíkjur og hlustuðum á Jazz. Það hentaði mér, það lá eitthvað í loftinu sem hentaði mér. Hafi heimaræktaða teið hjá nágrananum í kommúnunni verið dóp einsog hann fullyrti, þá það. Ég fann ekkert á mér af því. En mér leið vel í Christianiu.

http://www.christiania.org/

Fann eftirfarandi klausu annarstaðar á netinu:

”Christanias Fødsel:
Christianias historie har været broget og lang med sejre og nederlag. Mange af de mennesker, der var med til at bygge fristaden op, er der ikke mere. Det startede i 1971, hvor en gruppe Christians-havnere væltede et plankeværk, der stod på hjørnet af Prinsessegade og Refshalevej lige ved den grå hal. De ville have en legeplads til børnene i kvarteret og lidt grønt at se på. Det interesserede mange unge, og de kom fra nær og fjern, og senere fik de opbygget et minisamfund baseret på fællesskab og frihed.”

Saturday, July 07, 2007

Bréf frá greifanum í Larsbjörnsstræde


Á Kaupmannahafnarárum mínum bjó ég við HC Anderssens Boulevard. Í húsi með fjórum turnum, Ny Rosenborg heitir húsið og liggur innað Jammersplads. Bjó í kommúnu að þeirra tíma sið, með bæði pörum og einstaklingum; stundum fæddust börn og stundum komu heimilisvinirnir og stundum langtímagestir. Hanna Twestmann, fyrrverandi ballerína, var ábyrgðafyllsti aðilinn á heimilinu. Hún tilkynnti mér: Það er bréf til þín í andyrinu. Ha, bréf til mín? Ég hafði ekki séð neitt bréf og ástæðan var að bréfið var svo stórt að ég sá það ekki. Og það var listaverk. Röð af Teikningum innrömmuðum. Frá listamanninum í Larsbjörnsstræde sem var heimilisvinur kommúnunnar. Dáður og virtur af reyndara heimilisfólkinu, undarlegur einfari í mínum augum. Hann var dansk þýskur greifi. Og sagan endurtók sig: Það er bréf til þín í andyrinu. Ha annað bréf til mín? Hann var að teikna eitthvað sem líktist mér og frá þeim hliðum sem ég þoldi verst. Hann teiknaði naktar konur og ég hafði ekki einusinni setið fyrir í fötum hvað þá nakin. Hann teiknaði mig ölvaða. Skrifaði það oní teikninguna Kristín berusad eða eitthvað í þeim stíl. Mér fannst þetta frekja. Móðgandi og í senn kitlandi hégómagirnina að fáþessa athygli þó. Og sagan endurtók sig. "Það er bréf til þín í andyrinu!" Og allt er þegar þrennt er. Ég man ekki hvort ég afþakkaði fleiri bréf eða hvað, í það minnsta sá listamaðurinn sig um hönd, passaði uppá önnur verk sem urðu til með þessu þema, þar sem sjálfsmyndir kallast á við konumyndir og hélt síðan sýningu einhversstaðar á Jótlandi, sýningu sem hann kallaði Bréf til Kristínar. Gegnum árin hef ég verið soldið feimin við þessar myndir, nema eina sem ég hef hjá mér þessi misserin og er eins konar tangó í lausu lofti, einhverskonar leikur fyrir tvo, glíma eða barátta samkvæmt texta listamansins. Hin bréfin tvö hafa verið í prívat geymslu á Íslandi.

Svo gerðist það í vikunni að þeim var fundinn varanlegur staður: Kvennasögusafnið í Þjóðarbókhlöðunni. Ég er svo þakklát Auði Styrkársdóttur fyrir að hafa veitt þeim móttöku og þar með forðað þeim að flytjast úr landi. Nú eru þau aðgengileg almenningseign.

Listamaðurinn greifinn heitir

Jørgen von Hahn f. 1940 i København. Uddannet bl.a. af maleren Petri Gissel, på Kunsthåndværkerskolen og Grafisk Skole i København.

Ljósmyndin hér efst er af þrem teikningum úr umræddri myndröð (frá 1976- 1977 ) og ef klikkað er á myndina stækkast hún svo greina má skrift listamansins. Verk eftir von Hahn eru m.a. í FanöListasafninu og þar tekur hann þátt í samsýningu í september 2007. Sjá http://www.fanoekunstmuseum.dk/

Friday, July 06, 2007

Brúðkaupsdagur ...

Í dag er uppáhalds giftingardagurinn minn. Ekki að ég ætli að gifta mig í dag, en fyrir 33 árum gifti ég mig í fyrsta sinn. Í Þingeyrakirkju. Min danske mand – leikstjórinn Jan Maagaard - átti oft eftir að segja frá því í leikarapartíum eins og það væri brandari að í miðri brúðkaupsveislu hurfu gestirnir. Fólk var bara rokið og ekki einu sinni farið að rökkva! Af hverju? Jú þegar hann spurðist fyrir um hvað hvarfinu ylli var það útskýrt með kúm. Fólk þurfti heim að mjólka, enda ekki siður í minni sveit að hanga í brúðkaupsveislum á mjaltatíma. Þannig gerðist það að kýrnar í Húnavatnssýslu komust inn í danska leiklistarsögu.

Miðsumarblogg - Fyrir og Eftir

Bláu myndina littlu frá Varberg, tók Johanna Hedenberg, mánudagsmorgunn þann 25. júní á heimleið frá TangoCamp þegar við áðum og fundum þetta fína kaffihús inni í baðhúsinu! Í bakgrunni er VarbergsKastalinn, þar sem hægt er að kaupa gistingu í fyrrverandi fangaklefa á farfuglaverði ...

Lífið er draumur

á Jónsmessunótt .... Eiginlega byrjaði miðsumarið - eins og Svíar kalla helgina eftir Jónsmessu - þegar Stína vinkona Ekblad kom og flutti Shakespeares textann Draumur á Jónsmessunótt í löngum og skemmtilegum bunum í konserthúsinu við Gautatorg. Með symfóníuhljómsveit og kór á bakvið sig; tónlist eftir Mendelssohn. Raunar fyrsta sinn sem Mendelssohns tónlist við þetta leikrit er flutt hér í heild sinni. Þetta var listviðburður ársins á þessum slóðum - alger toppur; Stína brilleraði í öllum þeim hlutverkum sem hún lék sér að (hún var “magnifik” skrifaði gagnrýnandi Gautaborgarpóstsins) og líka í þögnunum inn á milli! Þarna stóð hún á glitrandi grábláum síðum kjól med blómakrans á höfði og fékk fólk til að skella uppúr hvað eftir annað (ekkert alveg venjulegt á klassískum tónleikum!) leikandi díalógana einsömul, ögrandi hljómsveitarstjóranum - sem var hinn samvinnuþýðasti að sjá - þarna í vikulokin 24. og 25. maí, eftir að hún hafði pendlað alla vikuna milli Dauðadansins (e Strindberg) á Dramaten og æfinga Jónsmessunæturdraums Gautaborgarsymfóníunnar. Þetta voru hátíðartónleikar útaf 300 ára afmæli Carl von Linnés og allir sólistar mættu á svið með blómakrans, líka stjórnandinn Mario Venzago sem var að kveðja Gautaborg með þessum tónleikum. Eftir tónleikana smaug ég in um bakdyrnar og við fórum á tónlistarbarinn starfsfólksins og töluðum dönsku; annar sólisti, sópraninn Cecilia Vallinder, á danskan mann í hljómsveitinni og öll fjölskyldan talar dönsku ... (ekki nóg með það hún þekkir Huldu og Jón Arnar íþróttamann, en ekkert okkar vissi hvar þau voru niðurkomin núna!). Sannkallað draumakvöld og svo kom nóttin.

Í Leikhúsinu í Nesi

Það er nokkura ára hefð að dansa tangó í leikhúsinu - Lekhuset - í Nesi þ.e. við Näs Slott i Floda (hér inni í landinu, mínmegin við Gautaborg) helgina fyrir Jónsmessu. Þá er verið að æfa og undirbúa Miðsumarhátíðahöldin þar sem eru hefðbundin, með þjóðdönsum kringum majstöngina, en polska-dans-kennarinn Gunilla laumar tangó inn í forspilið. “Leikhúsið” er 100 ára, byggt sem dansleikhús þar sem líka var farið söngleiki, annars er orðið leikhús sjaldgæft í sænskunni. I fyrra missti ég af þessari fínu hefð, svo í ár þegar leikhúsið hélt upp á 100ára afmælið sitt hélt ég uppá að það var akkúrat ár síðan ég slapp gegnumgeilsuð og hæfilega geislandi út frá Sahlgrenska Jubileumsklinikken! Skellti mér á skemmtilega workshop i milongadansi hjá Gunillu og Henrik þar sem við Samira dönsuðum saman og skiptumst á að leiða. Og eftir námskeiðið, dansleikurinn – milongan. Fallegt kvöld með bíltúr í rigningu og fín upphitun fyrir Miðsumarhelgi dagatalsins sem var fullkomlega helguð tangó ... hvað svo sem það nú þýðir!

TangoCamp

í Tylösand er ævintýri fyrir sig ... og að búa tvo km. frá dansgólfinu býður upp á göngutúr í döggvotu grasinu á auðum golfvelli í morgunsárið; fínast þegar bjart er orðið og fuglarnir syngja sinn morgunsöng hér við vesturströndina .... menguð af tangótónlist heyrðust mér þeir flytja Pugliese remixed. Milongurnar léku við mann og ca 300 tangofífl hvert við annað meira eða minna til kl. 06 á hverjum morgni og lengur þann síðasta, en aldrei slíku vant sleit ég mig þá í burtu á miðjum morgni þegar flestir tangódansandi Íslendingar höfðu dregið sig í hlé, nema úthaldsgarparnir Hany og Bryndís sem dönsuðu allan sólarhringinn eftir því sem ég best veit.

Beltango kvintettinn gerði lukku á TangoCamp í sinni fyrstu Svíþjóðarheimsókn og heldur áfram að gera lukku á tónleikaferð um landið. Dansvæn og óriginell tangótónlist og skemmtilegt fólk frá Belgrad! Sjórnandinn og bandóneonistinn Aleksandar Nikolic og píanistinn/söngkonan Ivana Nikolic gættu þess líka nota frítímann til að skella sér í danstíma hjá argentínsku tangóstjörnunum. Þau eru listrænir stjórnendur tangóhátíðarinnar í Belgrad. Frábær hljómsveit og fiðluleikarinn algert séní!

Og danssýningarnar voru þannig að ég hef eiginlega aldrei séð annað eins og varð stundum að snýta mér dáldið á eftir. Eftir að Sigrid, frá París och Mazan brilleruðu fyrsta kvöldið botnaði ég ekki í hvernig argentínsku kennararnir ætluðu að toppa þá sýningu. En allir komu með eitthvað eigið sem speglaðist í gerólíku samspili, hvert par með sína sögu, sína útgeislun sína dramatík. Þá verður samlíking óþörf og jafn vel ómöguleg.

TangoCamp http://www.tangocamp.com/

Beltango http://www.beltango.com/

Næsta stopp:

maraþonhelgi á Skáni, í bænum Lomma, við ströndina. Það er Daniel Carlsson og Tangókompaníið hans sem heldur svokallaða maraþon helgi, ekki með nonstopp tangó, heldur koncept með Österlyckan sem fyrirmynd, sem hafði La Pradera hjá Tove Albinson á Skáni sem fyrirmynd, sem hafði Eric Jeurissens El Corte i Hollandi sem fyrirmynd ...

http://www.tangomaraton.tangokompaniet.com/

P. S.
Svarthvíta myndin er mest til að sýna að nú get ég aftur brosað út í bæði án þess að geifla mig sérstaklega!